Föstudagur 22. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Rúmlega milljarðs hagnaður í skugga dýraníðs – „Go back to your country“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Líftæknifyrirtækið Ísteka hagnaðist um rétt tæpar 600 milljónir króna á síðasta ári vegna blóðtöku úr fylfullum hryssum til framleiðslu á frjósemislyfjum sem selt er til stórra lyfjafyrirtækja um allan heim. Þennan rúma hálfa milljarð græddi fyrirtækið í skugga skelfilegrar meðferðar á hryssunum, líkt og Mannlíf greindi fyrst frá um síðastliðna helgi.

Í ársreikningi fyrirtækisins, sem Mannlíf hefur undir höndum, má sjá að fyrirtækið hagnaðist í fyrra um tæpar 600 milljónir, eða 591.889.767 krónur fyrir þá sem hafa gaman af tölum. Árið þar á undan var hagnaðurinn svipaður, eða rétt rúmur hálfur milljarður, og því hefur Ísteka grætt rúman milljarð á tveimur árum vegna blóðmeranna þar sem sýnt hefur verið fram á augljóst dýraníð.

Hér má sjá hagnað áranna 2019 og 2020.

Ísteka hagnast því gífurlega og greiddu eigendur fyrirtækisins sér út 300 milljónir króna í arðgreiðslur um síðustu ármót. Þá var eigið fé félagsins 1,65 milljarðar króna.

Mikill gróði bænda

Árlega er tekið blóð úr ríflega 5.000 hryssum hér á landi, aftur fyrir þá sem hafa gaman af tölum þá voru hryssurnar 5.036 talsins í fyrra, og er það gert á tveggja mánaða tímabili, síðsumars og að hausti. Vikulega er tekið blóð úr fylfullum hryssunum, allt að 5 lítrar í senn en að hámarki átta sinnum úr hverri meri. Það þýða hátt í 40 lítrar af blóði úr hverri hryssu, eða sem nemur 15-20 prósentum af öllu blóðmagni hestsins.

Fyrir þessa 5 lítra sem fást í hvert skipti fær bóndinn 10.000 krónur, eða allt að 80.000 krónur frá hverri blóðmeri á ári. Frá öllum blóðmerum landsins eru íslenskir bændur því að hagnast um rúmar 400 milljónir á ári, eða 402.880.000 krónur nánar tiltekið.

- Auglýsing -

Ísteka vinnur efni úr blóði meranna, meðal annars til að auka frjósemi svína. Blóðtakan úr fylfullum íslenskum hryssum hefur verið stunduð hér í rúma fjóra áratugi og er tilgangurinn að safna hormóninu eCG sem notað er til framleiðslu frjósemislyfja svína til manneldis. Líkt og Mannlíf hefur greint frá eru hér á landi starfandi aðeins 5 dýraeftirlitsmenn, til að fylgjast með blóðmeraiðnaði bænda sem og meðferð allra annarra dýra hér á landi.

Hryllileg meðferð

Matvælastofnun, MAST, rannsakar nú innihald myndbands sem sýnir hryllilega meðferð á blóðmerum hér á landi. Í heimildamyndinni má sjá dæmi um að hrossin séu barin og slegin, tjóðruð niður og geymd í þröngum blóðtökubásum.

- Auglýsing -

Það er margt sem vekur athygli í myndbandinu, en einna athyglisverðast er að í því sést Arnþór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Ísteka, láta elta dýraverndarsinnana sem voru á Íslandi að taka upp myndefni af blóðmerahaldi. Arnþór ræddi við fulltrúa dýraverndunarsamtakanna til að reyna að stöðva birtingu myndefnisins. Við þau sagði hann ákveðnum rómi: „Go back to your country.“

Myndbandið er alls ekki fyrir viðkvæma en þar sést greinilega að níðst er á hræðilegan hátt á hryssunum. Heimildamyndin sýnir upptökur úr földum myndavélum þar sem sjá hryssurnar lokaðar inni í þröngri stíu á meðan þær eru barðar með prikum og slegið í þær með viðarplönkum.

Heimildamyndin erlenda sem sýnir slæma meðferð á fylfullum hryssum við blóðtöku er nú til rannsóknar hjá Matvælastofnun. Mannlíf fjallaði fyrst um málið. Arnþór hefur ekki látið ná í sig síðan heimildamyndin leit dagsins ljós.

 

Í lok síðasta árs voru hluthafar Ísteka fimm talsins: 

Hörður Kristjánsson ………………………………………………………………… 44,5%

Klara ehf.* ………………………………………………………………………………….. 32,3%

Hólmfríður H. Einarsdóttir ……………………………………………………… 19,2%

Arnþór Guðlaugsson ………………………………………………………………… 3,0%

Bryndís Stefánsdóttir …………………………………………………………………1,0%

*Klara ehf. er í meirihluta eigu Harðar Kristjánssonar.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -