Í þeirri miklu úrkomu sem verið hefur síðustu vikur hefur af og til þurft að hleypa óhreinsuðu skólpi út í sjó á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er gert þegar ofurálag verður á fráveitukerfið vegna mikilla vatnavaxta. Undir slíkum kringumstæðum er aðeins ein leið fær; að hleypa óhreinsuðu skólpi út í sjó, ef landsmenn vilja ekki fá skólpið flæðandi til baka á heimili sín.
Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna, segir úrgang og örverur þó ekki stóra vandamálið þegar skólpi er hleypt í sjó. Um 70 prósent innihaldsins í skólpinu sé hitaveituvatn og sjórinn sé fljótur að ganga frá örverum. Það sé hins vegar ruslið sem landsmenn henda ofan í klósettin sem sé stærsta áskorunin.
„Eins og blautklútarnir, tannþráður, eyrnapinnar og fleira. Það er kannski það sem fólk verður mest vart við. Því skolar upp í fjöru. Sjórinn er nú vanur að skila svona flestu einhversstaðar.“
Hún segir að ef þetta komi upp, eins og hefur verið í miklum leysingum og úrkomu undanfarið, þá séu Veitur með fyrirtæki sem sjái um að ganga fjörur og athuga hvort rusl hafi borist í þær. „Ef það finnst eitthvað, þá er það hreinsað.“
Piss, kúkur og klósettpappír
„Þetta er alveg ágætis tækifæri til að minna fólk á að rusl á ekki heima í klósettum. Bara eins og við sögðum þarna: piss, kúkur, klósettpappír.“ Þarna á Ólöf við herferð á vegum Veitna, Umhverfisstofnunar, Samorku, ásamt sveitarfélögum og fleiri fyrirtækjum, með laginu „Piss, kúkur og klósettpappír.“
Aðspurð hvort ekki beri minna á því að landsmenn hendi rusli í klósett, eftir þónokkrar herferðir undanfarin ár, segist Ólöf ekki hafa nákvæmar tölur yfir það. „Ég ætla bara að segja að það er mín tilfinning að vitundin sé að aukast mikið. Að fólk skilji að það er ekki bara að ruslið fari í sjó, heldur fer þetta líka bara ótrúlega illa með fráveitukerfið, dælurnar og annað. Það er bara mikill aukakostnaður við viðhald og endurnýjun, ef það er svona mikið álag á kerfinu út af blautklútum og svona. Það er náttúrulega kostnaður sem lendir á okkur öllum, á notendum. Þá er miklu skynsamlegra að setja ruslið bara beint í ruslið. Ekki að vera að láta það fara í gegnum fráveitukerfið þar sem það er svo síað frá og urðað eins og ruslið.“
Hér fyrir neðan má sjá lagið sem landsmenn ættu allir að læra utan að – og henda rusli þangað sem það á að fara. Það er aðeins þrennt sem á að fara í klósettið.