Miðvikudagur 5. febrúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

„Sá sem er orð­inn 140 til 150 kg hefur alger­lega séð um það sjálfur að fitu­smána sig“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Sá vinur minn, sem orð­inn er 140 til 150 kg. á þyngd, hefur alger­lega séð um það sjálfur að fitu­smána sig. Á við engan annan en sjálfan sig að sakast og getur til einskis ann­ars leitað en fyrst og fremst til sjálfs sín að takast á við það vanda­mál sitt með árangri og með ann­ari hjálp, sem hinn fitu­smáði verður þó sjálfur og einn að bera sig eft­ir.“

Svo segir í pistli Sighvats Björgvinssonar, fyrrum heilbrigðisráðherra með meiru, sem birtist á Kjarnanum í gær.

Í pistlinum gagnrýnir Sighvatur harðlega umræðu um fitusmánun og viðbrögð við umfjöllun Kveiks um vaxandi offitu barna á Íslandi.

Eins og sjá má í tilvitnuninni hér að ofan vill Sighvatur meina að feitt fólk beri sjálft ábyrgð á fitusmánun, en í dæminu um vininn segir hann að umræðan í samfélaginu núna sé á þann veg að ef hann bendi téðum vini á að sá sé orðinn of feitur og sé þannig að valda sjálfum sér og sínum nánustu sálartjóni, sem og sjálfum sér heilsutjóni, sé Sighvatur sekur um að fitusmána vin sinn að ósekju. Þessum málatilbúnaði er Sighvatur ósammála.

Sighvati hugnast ekki heldur að ábyrgð á heilsu barna sé sett á heilsugæsluna eða stjórnvöld. Hann vísar því sömuleiðis til föðurhúsanna að aukið aðgengi að gosdrykkjum og sætindum sé sökudólgurinn.

Sighvatur vill meina að ábyrgð á heilsu og holdafari barna liggi alfarið hjá uppalendum, en eftir að við fullorðnumst liggi ábyrgðin hjá okkur sjálfum og engum öðrum.

- Auglýsing -

Telja pistilinn ofureinföldun

Pistill Sighvats hefur vakið nokkra athygli, meðal annars í Facebookhópnum Pírataspjallið 2. Þar deilir Jón Oddur greininni og skrifar um hana sínar eigin vangaveltur.

Hann telur málið alls ekki vera eins einfalt og Sighvatur vill vera að láta.

- Auglýsing -

„Getur það staðist að börn séu orðin svona miklu feitari í dag heldur en þegar Sighvatur Björgvinsson var alast upp vegna þess að börn fái mun lakara uppeldi í dag heldur en börn fengu í gamla daga?“

Jón Oddur telur mun fleiri breytur vera að baki.

„Mér finnst hæpið að heil kynslóð foreldra nú standi sig mun verr í uppeldishlutverkinu en foreldrar gerðu fyrir hálfri öld síðan. Höfum einnig í huga að þetta er alþjóðlegt mynstur. Börn í Bandaríkjunum og í Evrópu eru almennt feitari í dag en þau voru fyrir 50 árum. Það væri auðvitað ekki eðlilegt að fría foreldra alfarið ábyrgð á offituvanda barna en það hlýtur eitthvað meira að liggja að baki,“ segir Jón Oddur.

Jón Oddur telur það sama eiga við um vaxandi offitu fullorðinna síðustu ár:

„Eru fullorðnir svona miklu feitari í dag vegna þess að fullorðnum nú, ólíkt fullorðnum fyrir 50 árum síðan, skortir vilja til að halda sér innan heilsusamlegra þyngdarmarka? Auðvitað skiptir vilji einstaklingsins máli en ég held að þetta sé ekki alveg svona einfalt.“

Í athugasemdum við færsluna veltir fólk vöngum yfir þessu og þó sumir séu sammála því að um foreldravandamál sé að ræða, að minnsta kosti að einhverju leyti, eru flestir sammála um að í pistli sínum gerist Sighvatur sekur um að ofureinfalda flókið samfélagsmál.

„Það er einfaldlega meiri og betri aðgangur að óhollari fæði í dag en var fyrir 40 árum,“ segir Þórður Reyr.

Þorsteini þykir ekki mikið til pistils Sighvats koma:

„Þetta er slík ofureinföldun hjá Sighvati að það hálfa væri nóg. Ekki einu sinni svaravert. Eða hvað með breyttar neysluvenjur? Gífurlega aukningu á unnum matvælum? Skyndibita? Hreyfingarleysi? Breytt þjóðfélagsmynstur? Og þetta eru bara nokkrir þættir.“

Jón Eggert kemur með nýjan og athyglisverðan punkt í umræðuna:

„Þegar hann var ungur var töluvert af fólki sem reykti tóbak. Það eykur fitubrennslu og getur stuðlað að grönnum líkama. Ég er viss um að feita fólkið í dag er heilbrigðara en granna fólkið í þá daga. 1970s kúrinn mun byrja daginn á sígó og svörtu kaffi. Verða svo fökurt af þessu og taka eina sígó í viðbót til að hressa sig við. Síðan er kjötsúpa borðuð á kvöldin til þess að kítta betur i æðakerfið sem reykingarnar fyrr um daginn náðu ekki að kítta í. Og svo dó fólk langt um aldur fram af þessum lífsstíl sínum. En það dó grannt og fallegt.“

Jón Eggert heldur áfram:

„Ég er á því að hugsa þetta aðeins öðruvísi. Ég er viss um að við erum heilbrigðari að öllu leiti en kynslóðin hans Sighvats. Þannig að afturhvarf til hans siða eins og tíðkuðust þá er afturför en ekki framför. Við erum að upplifa það að heilbrigður líkami er feitur líkami. Eitthvað sem við vissum ekki áður þegar við átum og reyktum fitubrennsluvörur eins og enginn sé morgundagurinn. Næsta skref er að verða enn heilbrigðari en við erum núna en grennri.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -