Laugardagur 4. janúar, 2025
-9.2 C
Reykjavik

Ung kona var myrt af eiginmanni sínum í Hamraborg í Kópavogi: Morðið var framið í stundarbrjálæði

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Aðfaranótt fyrsta dags nóvembermánaðar árið 2004 var lögreglan kvödd að fjölbýlishúsi í Kópavogi. Ung kona var látin og eiginmaður hennar játaði á staðnum að hafa banað konunni. Um var að ræða fjölskyldufólk sem lifði hefðbundnu lífi og var ekki í óreglu. Morðið var ástríðuglæpur, framið í stundarbrjálæði.

„Oft er um að ræða ástríðuglæp milli maka eða fyrrverandi maka þar sem annar aðilinn kemst að því að hann hafi með einhverjum hætti verið svikinn, t.d. haldið fram hjá. Yfirleitt er um að ræða skyndilegar aðstæður sem koma gerandanum að óvörum. Fórnarlömbin hafa líka oft verið brotleg í sambandinu með einhverjum hætti,“  sagði Anna Kristín Newton, réttarsálfræðingur í samtali við Vísi um málið á sínum tíma.

Anna Kristín Newton.

Á Íslandi ganga um það bil 1.600 pör í hjónaband á ári hverju. Árið 2001 var ungt íslenskt par í þessum fjölmenna hópi. Allt lífið var fram undan og sambandið gekk eins og í sögu fyrst um sinn. Þau komu sér vel fyrir í lítilli íbúð og eignuðust tvö börn.

Þremur og hálfu ári eftir gleðistundina upp við altarið hafði sigið á ógæfuhliðina í hjónabandinu sem endaði með ástríðuglæp.

Yfirheyrsla í Kópavogi

Við yf­ir­heyrsl­ur hjá lög­regl­unni í Kópa­vogi játaði tæp­lega þrítug­ur karl­maður, að hafa orðið eig­in­konu sinni að bana í íbúð þeirra í Hamra­borg í fyrrinótt. Svo virðist sem maður­inn hafi þrengt að önd­un­ar­vegi kon­unn­ar þar til hún lést.

- Auglýsing -

Konan var 25 ára göm­ul, fædd 7. fe­brú­ar 1979 og starfaði við ræst­ing­ar.

Í til­kynn­ingu frá lög­reglu seg­ir að hún hafi verið kvödd að íbúðinni klukk­an 3.05 vegna and­láts kon­unn­ar. Þar seg­ir að áverk­ar hafi verið á líki henn­ar sem bentu til þess að átök hefðu átt sér stað sem hefðu leitt til dauða henn­ar. Maður­inn var hand­tek­inn í íbúðinni og játaði hann að hafa átt þátt í láti kon­unn­ar.

Þegar lög­regla kom á staðinn voru tvö börn þeirra hjóna í íbúðinni, fjög­urra ára göm­ul stúlka og eins árs dreng­ur. Þeim hef­ur verið komið fyr­ir í um­sjón fjöl­skyldu kon­unn­ar. Börn­in urðu einskis vör og voru sof­andi þegar lög­regla kom á staðinn.

- Auglýsing -

Sam­kvæmt heim­ild­um Morg­un­blaðsins gerði maður­inn at­lögu að eig­in­konu sinni í svefn­her­bergi þeirra og voru ekki sjá­an­leg um­merki um átök í íbúðinni.

Að sögn Friðriks Björg­vins­son­ar yf­ir­lög­regluþjóns barst fyrsta til­kynn­ing um málið frá þriðja aðila, manni sem banamaðurinn hringdi í eft­ir að kon­an var lát­in og sagði hon­um frá því sem gerst hafði. Stuttu síðar hringdi hann sjálf­ur í lög­reglu og greindi frá at­b­urðum.

Lög­regl­an í Kópa­vogi ræddi m.a. við ná­granna fólks­ins og kvaðst einn þeirra hafa heyrt ein­hvern hávaða frá íbúðinni um nótt­ina. Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá lög­reglu hafði hún aldrei áður verið kvödd að íbúð þeirra og maður­inn ekki áður komið við sögu lög­reglu.

Ellefu ára dómur

Eiginmaður konunnar var dæmdur til níu ára fangelsisvistar en Hæstiréttur þyngdi dóminn um tvö ár. Foreldrum ungu konunnar fannst dómurinn yfir eiginmanninum í fyrstu vera léttvægur.

„Okkur fannst það á sínum tíma vera lélegur dómur. Við hefðum viljað hafa hann mikið þyngri. Við missum stúlkuna og okkur fannst hann sleppa billega frá þessu. Hann hafði rétt á að sjá börnin hálfsmánaðarlega. Þá þurftum við alltaf að fara upp á Litla-Hraun í alls kyns veðrum og stundum leist okkur ekkert á blikuna. Með tímanum vorum við farin að vona að þetta yrði styttra. Þá yrði þetta ekki eins erfitt fyrir þau.“

Hrópaði nafn annars manns

Dómurinn sem eiginmaðurinn í Hamraborg fékk er alls ekkert einsdæmi þegar kemur að íslenskum ástríðuglæpum. Í sambærilegu máli árið 1961 banaði maður eiginkonu sinni eftir að hún hrópaði nafn annars manns í rúmi þeirra. Sá var dæmdur í sex ára fangavist.

Þetta mál var einmitt haft til hliðsjónar í vörn mannsins. Árið 1992 var ung kona einnig dæmd í sex ára fangelsi fyrir að stinga unnusta sinn í stundarbrjálæði. Í öllum þessum málum þóttu sérstakar refsilækkunarástæður eiga við vegna aðstæðna.

Óhefðbundin afbrot

Ástríðuglæpir skera sig í mörgum tilfellum úr þegar bakgrunnur afbrotamannsins er skoðaður eins og var í tilfelli eiginmannsins í Hamraborg en hann hafði aldrei komið við sögu lögreglu og þótti fyrirmyndarborgari.

„Oft er um að ræða einstaklinga sem öllu jöfnu hafa ekki verið að brjóta af sér með neinum hætti. Það er ólíkt því sem við sjáum hjá hinni hefðbundnu afbrotamanneskju sem er oft í margs konar brotum. Hún er í neyslu, brýst inn í bíla og stelur í búðum. Einstaklingar sem fremja ástríðuglæpi eins og við köllum þá eru oft bara „venjulegt fólk.“

 

Tekið skal fram:

Á síðustu misserum hafa miklar umræður skapast um notkun á orðinu ástríðuglæpur. Allmargir hafa krafist þess að hætt sé að nota orðið ástríðuglæpur, vegna þess að ofbeldi ætti aldrei að vera tengt ástartilfinningu. Afbrotafræðingar víðsvegar hafa notað þessa skilgreiningu þegar þeir eru að greina glæpi og þegar það þarf að taka inn í málið marga ólíka þætti. Þar sem að þessi grein er unnin upp úr gömlum heimildum þegar notkun á þessu orði tíðkaðist enn, var haldið í það orð við lýsingar á glæpnum.

 

Heimildir:

Aðalsteinn Kjartansson. 20.11.2011. Karlar sem myrða konur. Dagblaðið Vísir – DV. 58. tölublað.

Ásgeir Erlendsson. 25. maí 2014. Hjónabandið endaði með ástríðuglæp. Vísir.

Réð konu sinni bana: Áverkar benda til þess að átök hafi átt sér stað. 2.11.2004. Morgunblaðið.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -