Fimmtudagur 16. janúar, 2025
4.9 C
Reykjavik

Sævar Pétursson býður sig fram til formanns KSÍ: „Málið var allt illa unnið síðasta haust“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Nei það tel ég ekki, hef gagnrýnt það áður og hef ekki skipt um skoðun. Málið var allt klaufalega og illa unnið síðasta haust. Þannig að það sé sagt að þá erum við ekki að tala um sitjandi formann heldur þann formann sem vék vegna málsins,“ segir Sævar Pétursson sem býður sig fram til formanns KSÍ en líkt og Mannlíf greindi frá í dag þá fer formannskjörið fram í lok mánaðarins. Sævar var spurður að því hvort núverandi stjórn hafi tekið rétt á þessum málum sem upp komu varðandi meint ofbeldi og kynferðisbrot nokkurra leikmanna íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu.

Sævar hefur haft í nægu að snúast undanfarna daga og situr nú hvern framboðsfundinn á fætur öðrum um allt land en Mannlíf náði tali af honum nú undir kvöld þar sem hann var á leiðinni á fund í Hveragerði.

„Ég var á fundi á Teams þegar þú hringdir áðan og þess vegna skellti ég á þig,“ sagði Sævar og hló þegar blaðamaður spurði hvers vegna sambandið hefði slitnað tvisvar sinnum í röð þegar hringt var í hann. Sævar er fæddur á Húsavík, alinn upp á Vopnafirði og Laugum, bjó lengi í Kópavoginum en hefur síðustu fimmtán ár búið á Akureyri. Þar hefur hann meðal annars gegnt stöðu framkvæmdastjóra KA við góðan orðstír. Sævar má telja sig ríkan, burt séð frá því hvað efnislegar eignir varðar, því hann á fjögur falleg börn – þrjá stráka og eina stelpu: „Eiginkonan mín er svo fædd og uppalin á Akureyri.“

En að máli málanna, líkt og blaðamaður Mannlífs orðaði það við Sævar nú undir kvöld en það eru tíðrædd meint kynferðisbrot nokkurra leikmanna landsliðsins. Ekki var komist hjá því að spyrja hvort til væru ferlar hjá KSÍ sem tækju á svona málum sem upp kæmu hjá leikmönnum landsliða, og í raun annarra félagsliða ef út í það er farið. Sævar segir það stóra vandamálið í þessu öllu: „Það virðist ekki vera svo og það er stóra vandamálið í þessu öllu. Aðilar brugðust illa við því verkferlar voru ekki til og fóru að vinna í málum sem eiga ekki heima inn í stjórnum eða ráðum hjá íþróttahreyfingunni.

„Gríðarlega sorglegt og ógeðfellt mál“

Fréttir af knattspyrnustjörnunni Mason Greenwood skóku allan heiminn um daginn þegar upptökur af honum þar sem hann, að því er virðist, vera að nauðga kærustu sinni og beita hana ofbeldi.

Spurður út í þessar fréttir og hvort íþróttahreyfingin þurfi mögulega í heild sinni að setja í gang einhvers konar forvarnir og fræðslu fyrir unga íþróttaiðkendur þegar það kemur að háttvísi, innan vallar sem utan segir Sævar: „Þetta er gríðarlega sorglegt og ógeðfrellt mál. Hvort íþróttahreyfingin þurfi að bregðast við er stór spurning. Við sem samfélag þurfum að taka á slíkum málum og skiptir þá engu máli hvort þú komir úr íþróttum, atvinnulífi eða skólum. Slík hegðun sem þú vísar til er óásættanleg og á ekki að líðast í okkar samfélagi.“

- Auglýsing -

 

Sævar virðist ekki spenntur fyrir því að gagnrýna mótframbjóðanda sinn, að minnsta kosti hefur hann ekki gert það í þeim viðtölum sem blaðamaður Mannlífs hefur heyrt við hann tekin. En ef hann er ekki gagnrýnin á störf Vöndu Sigurgeirsdóttur af hverju er hann þá yfir höfuð að bjóða sig fram? Hann hljóti að telja sig betur til þess fallinn að stýra sambandinu en Vanda?

„Já, mér finnst leiðinleg pólitík eða venja að þurfa alltaf að níða skóinn af þeim aðila sem maður er í samkeppni við. Vanda er ekki manneskja sem á eitthvað illt skilið frá mér. Ég hef þekkt hana í mörg ár og ber virðingu fyrir henni. Að því sögðu þá get ég á sama tíma haft trú á því að ég geti verið betur til þess fallinn að stýra KSÍ  en þá á mínum forsendum en ekki hennar göllum. Það er svipað og í fótboltanum, ég get borið mikla virðingu fyrir andstæðingnum en á sama tíma haldið að ég sé betri en hann og unnið baráttuna,“ segir Sævar og bætir við að hann sjái fyrir sér starf formanns KSÍ sem bæði spennandi og krefjandi en á sama tíma mjög skemmtilegt.

Elskar fiskibollur og heldur með Liverpool

- Auglýsing -

„Ég hef alla tíð haft mikla ástríðu fyrir íþróttum og að fá að leiða knattspyrnusambandið væri frábær heiður,“ segir Sævar sem hefur haft gríðarlegan áhuga á knattspyrnu frá blautu barnsbeini.

„Já ég brenn fyrir íslenskan fótbolta og vil færa fókusinn aðeins meira á það sem er verið að gera í félögunum hérna heima. Það hefur verið aðeins meiri þungi á landsliðsmálum undanfarin ár og kannski eðlilega eftir svona mikla velgengni en ég trúi því að slíka velgengni komi í upphafi frá góðu starfi félaganna. Þar höfum við aðeins gleymt okkur síðustu ár og þar vil ég reyna eftir bestu getu að leggja fleiri lóð á vogaskálarnar.“

Sævar elskar fiskibollur og á erfitt með að svara þeirri spurningu með hvaða liði hann heldur í ensku deildinni en gerir að þó að lokum og hlær: „Nú gæti ég tapað fullt af atkvæðum en mitt lið í enska er Liverpool.“ Spurður hvort hann sé farinn að leita að húsnæði fyrir fjölskyldu sína á höfuðborgarsvæðinu þá segist Sævar ekki hugsa lengra í bili en fram á laugardag, þegar formannskjör KSÍ fer fram.

Sævar og fjölskylda

 

„Fjölskyldan styður  mig í þessari baráttu minni og er öll á bakvið mig. Ég er samt ekki að hugsa mikið lengra en fram á laugardag. Ef ég verð svo heppinn að verða kjörinn formaður þá setjumst við niður sem heild og skipuleggjum okkur út frá þeirri niðurstöðu.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -