Föstudagur 27. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Saka stjórnvöld um andvaraleysi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

nnan fjármála- og nýsköpunargeirans eru menn uggandi vegna ákvörðunar FATF um að setja Ísland á svokallaðan „gráan lista“. Stjórnvöld eru sökuð um seinagang og skilningsleysi á alvarleika peningaþvættis.

 

Guðmundur segir umfang peningaþvættis á heimsvísu jafngilda áttunda stærsta hagkerfi heims.

„Það er svo einfalt að ímynda sér Ísland sem einangraða eyju í Atlantshafi sem enginn gefur raunverulegan gaum. Peningaþvætti á alþjóðavísu virkar þannig að það leitar að veikasta hlekknum sem til er í alþjóðlegri keðju. Ísland býður í dag upp á töluverð tækifæri til þess að þvætta peninga. Með breitt framboð fjármálaafurða, samstarfssamninga við banka erlendis um erlendar millifærslur en litlar varnir í samhengi við stærri ríki gæti Ísland hæglega orðið næsta fórnarlamb hneykslismáls eins og Danske Bank fór nýlega í gegnum.“

Þetta segir Guðmundur Kristjánsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Lucinity Cognative Technologies, en fyrirtækið sérhæfir sig í stafrænum lausnum til að varna gegn peningaþvætti.

Guðmundur segir að almennt séð geri menn sér ekki grein fyrir því hversu alvarlegt peningaþvætti sé en fleiri einstaklingar sem Mannlíf ræddi við innan fjármála- og nýsköpunargeirans saka stjórnvöld um skilningsleysi á þeirri stöðu sem upp er komin eftir að Ísland var sett á svokallaðan „gráa lista“ Financial Action Task Force (FATF) og á alvarleika peningaþvættis yfirhöfuð.

Fæstir viðmælenda vildu koma fram undir nafni en allir sögðu þeir ótrúlegt að þessi staða væri komin upp; stjórnvöld hefðu haft nægan tíma til að grípa til aðgerða. Einn sagði engu líkara en að þau gerðu sér ekki grein fyrir hvaða áhrif það hefði á orðspor landsins að vera á lista með ríkjum á borð við Pakistan, Sýrland og Jemen. Upplýsingagjöf virðist í það minnsta áfátt, þar sem einhver nýsköpunarfyrirtæki óttast að koma sjálfkrafa að lokuðum dyrum erlendis þegar kemur að fjármögnun.

Áhrifin gætu náð til neytenda

- Auglýsing -

„Þetta er álíka alvarlegt og ef öryggisgæslu og landamæraeftirliti væri ábótavant í Leifsstöð við komu og brottför flugvéla,“ segir Sveinn Valfells, einn stofnenda fjártæknifyrirtækisins Monerium.

„Þetta er álíka alvarlegt og ef öryggisgæslu og landamæraeftirliti væri ábótavant í Leifsstöð við komu og brottför flugvéla.“

„Slíkt gæti verulega raskað samgöngum til og frá Íslandi. Athugasemdir FATF vegna seinna viðbragða íslenskra stjórnvalda geta verulega heft flæði fjármagns inn og út úr landinu og þar með truflað allt hagkerfið,“ bæti hann við en í umsögn FATF um Ísland segir m.a. að stjórnvöld hefðu þegar tekið skref í rétta átt en að ekki hefði gefist tími til að fara yfir upplýsingarnar þar sem þær væru aðeins nýlega komnar fram.

„Þessi vandræði gagnvart FATF eru ekki ný af nálinni og því ákaflega klaufalegt að renna í rauninni út á skilafresti,“ segir Guðmundur. Hann segir að erfiðara gæti orðið fyrir fyrirtæki að stofna til viðskipta erlendis og flytja fjármagn milli landa. Þá gætu áhrifin hæglega náð til neytenda. „Það er líklegt að módel erlendra mótaðila taki lista FATF með í útreikninga á áhættuálagi íslenskra fyrirtækja. Þannig gæti orðið dýrara fyrir íslensk fyrirtæki að eiga viðskipti erlendis og hætt við að því verði ýtt út í vöruverð.“

- Auglýsing -

Guðmundur segist gera ráð fyrir að menn muni draga af þessu lærdóm.

„Við reiknum með að stjórnvöld verði búin að kippa þessum málum í liðinn fyrir næstu úttekt. Athugasemdin frá FATF sem við höfum mestar áhyggjur af er innleiðing sjálfvirks kerfis sem tekur á móti tilkynningum frá fjármálastofnunum landsins um mögulegt peningaþvætti. Við höfum ekki áhyggjur af innleiðingunni sem slíkri heldur frekar þeim kröfum sem séríslenskar aðstæður gætu leitt af sér,“ segir Guðmundur.

„Þessu til viðbótar ætti Ísland auðvitað ekki að sætta sig við að rétt sleppa af gráum lista varðandi peningaþvætti. Við höfum allan þann auðbúnað sem þarf til þess að búa til sérstaklega öflugt varnarkerfi. Um er að ræða einsleitan fjármálamarkað með mikið af sameiginlegum undirstöðum. Með samofnu átaki bankanna og stjórnvalda ætti okkur að geta tekist að lágmarka áhættur vegna peningaþvættis.“

Virðast ekki hafa stórar áhyggjur af stöðunni

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis á þriðjudag að samtöl hans við ráðherra annarra ríkja hefði dregið úr áhyggjum hans af mögulegum álitshnekki í tengslum við ákvörðun FATF. Þá sagði hann ferlið hjá stofnuninni ófyrirsjáanlegt og ógagnsætt, að því leyti að ekki sé greint frá því hvernig einstök aðildarríki ráðstafa atkvæðum sínum. Ekki hefði verið full samstaða um að setja Ísland á gráa listann.

„Við erum því mun betur í stakk búin að takast á við úttektir og tilmæli en áður,“ sagði Áslaug.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sagði að í upphafi árs 2018 hefðu verkefni stýrihóps um mál er snertu FATF verið endurskilgreind og hópurinn efldur. Hann sinnti stefnumótun og samstillti varnir gegn peningaþvætti og væri ætlað að tryggja eftirfylgni og úrbætur vegna athugasemda FATF. „Við erum því mun betur í stakk búin að takast á við úttektir og tilmæli en áður.“

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur ákveðið að hefja frumkvæðisrannsókn á verklagi ráðherra vegna ábendinga framkvæmdahóps FATF en málið hefur m.a. heyrt undir dómsmálaráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið og iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið.

„Það liggur fyrir að við erum komin á gráan lista FATF og höfum verið að fá athugasemdir frá þessari nefnd frá árinu 2006 og hugur nefndarinnar stendur til að skoða hvernig það gat gerst að við erum komin á þennan gráa lista og hvernig verklag ráðherra hefði mátt betur fara svo við getum lært af þessu í framtíðinni,“ sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í samtali við mbl.is á mánudag.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -