Sálfræðingur hefur nú upplýst dýpri meiningar á bakvið það hvernig fólk smyr ristabrauðið sitt.
Ekki er öll vitleysan eins. Hegðunarfræðingurinn Darren Stanton, frá Nottingham, hefur nú kynnt niðurstöður rannsóknar sem hann fékk sennilega greitt fyrir að gera en hann rannsakaði mismunandi aðferðir fólks við að smyrja ristabrauðið sitt. Út frá þeirri rannsókn taldi hann sig geta lesið í persónuleika hvers og eins „tegundar“ smyrjanda.
Til að mynda upplýsti hann að þau sem hann kallar upp á ensku Gliders og þýðist hálf klaufalega upp á hið ástkæra ilhýra sem svifflugur, eigi það til að vera rólegt í eðli sínu og auðvelt í samskiptum. En hvað eru Svifflugur í þessu samhengi? Það eru þau sem svífa yfir ristabrauðið með smjörhnífinn og smyrja þvert yfir allt brauðið, en um 50 prósent af 2000 manna úrtaki sem svaraði könnum um málið, sagðist smyrja þannig. Segir sérfræðingurinn að slíkir smyrjarar svífi farsællega í gegnum lífið, án þess að láta stress og erfiðleika trufla sig.
Þá sögðust 19 prósent fólks í þessari tímamótarannsókn, smyrja brauðið algjörlega, án þess að sleppa bletti, svokallaðir þekjarar, en það fólk segir Stanton vera mjög skipulagt. Nákvæmniseðli þeirra þýðir að þeir eru venjulega þeir sem skipuleggja allt í vináttuhópnum sínum.
En hvað má segja um restina af tegundum smyrjara? Hér fyrir neðan má sjá ljósmyndir og persónulýsingar sérfræðingsins af þeim tegundum smyrjara sem til eru en athugið, nöfnin er misvel þýdd úr ensku, eins og gengur og gerist.
Klumparnir, þau sem dreifa ekki smjörinu jafn yfir brauðir og skilur jafnvel eftir klumpa af smöri á saklausu brauðinu, eru víst óútreiknanleg í eðli sínu og hugsa út fyrir boxið.
Þau sem setja meira smjör en pláss er fyrir á brauðinu, eða Trippa-Siggurnar, eru mjög opnir persónuleikar og eru alltaf til í fjör.
Fólk sem forðast að smyrja skorpuna er sagt vera mjög snyrtilegt.
Þau sem smyrja báðum megin eru þau sérstökustu af öllum og þeim er sama þó þau skeri sig úr.
Þeir einstaklingar sem vilja rífa brauðið niður og smyrja hvern bita eru að sögn sérfræðingsins, skemmtileg og félagslynd.
Þau sem nota sérstaka græju til að krulla upp smjörið, telja sig haf mikið götuvit (e. Street-smart) og hafa tilhneigingu til að leita notast við öðruvísi aðferðir til að leysa vandamál.
Þau sem varla setja nokkurt smjör á ristabrauðið sitt eru að jafnaði útivistarfólk. Þetta segir sérfræðingurinn og varla lýgur hann.