Fjölskyldan er lifandi fyrirbæri. Hún vex þegar nýir einstaklingar koma til sögunnar og dregst saman þegar ástvinir hverfa á braut. Í raun er réttast að tala um fjölskyldur, frekar en fjölskyldu, þar sem samsetning þeirra er fjölbreyttari en nokkru sinni fyrr. Allar eiga þær það þó sameiginlegt að ganga í gegnum erfiða tíma og krefjandi áskoranir.
Vigdís Ásgeirsdóttir sálfræðingur segir samskiptavanda eina helstu ástæðu þess að fólk leitar sér aðstoðar. Það eigi við um parasambandið en líka um samskipti parsins við aðra einstaklinga, sem oft sé rót vandans.
„Þetta eru samskiptin og dreifing á ábyrgð. Það er það sem fólk talar mjög oft um,“ segir hún. „Fólk er ekki sammála eða samstiga þegar kemur að daglegum verkefnum og svo er annað sem flækir málin; fyrrverandi makar, barnsmæður og barnsfeður, sérstaklega ef samböndin hafa endað illa. En jafnvel þegar sambönd enda vel koma gjarnan upp alls konar vandamál þegar nýir aðilar mæta á svæðið.“
Vigdís segir erfiðleikana í samskiptum fyrrverandi para oft mega rekja til reiði vegna óuppgerðra mála. „Fólk á ekki í nógu góðum samskiptum. Mjög oft er það þannig að fólk er mjög reitt og á erfitt með að tala saman og jafnvel að öll samskipti fari í gegnum þriðja aðila eða bara tölvupóst. Þetta er ósætti sem fólk hefur ekki unnið úr og alls konar tilfinningar sem blossa upp þegar nýr aðili er kominn til sögunnar. Og oft er fólk ekki sammála um uppeldið eða hvernig ábyrgðin dreifist.“
Fólk þarf aðstoð þegar svona er komið, nýtt sjónarhorn og verkfæri til að takast á við vandann. „Það er enginn skömm að því að fá aðstoð,“ segir Vigdís. „Það er meira en að segja það að fá öll svið lífsins til að ganga upp. Stundum þarf fólk bara hjálp.“
Eins og aðrir sérfræðingar segir Vigdís álagið á nútímafjölskyldunni allt of mikið. „Það eru allar þessar kröfur; það er vinnan og svo þarf maður að hreyfa sig og sinna áhugamálum og tómstundum og vera góð vinkona eða vinur og sinna foreldrum eða tengdaforeldrum … Þetta eru ekki bara kröfur frá vinnumarkaðnum.“
Hún segir börnin ekki síður undir pressu. „Það eru mjög miklar kröfur gerðar til barnanna. Það eru skólinn og tómstundirnar, sem eru kannski tvær, þrjár eða fjórar, og þá er eftir að læra heima. Við vitum hvernig þetta er. Það þarf að sníða lífið þannig að það sé tími fyrir samveru,“ segir Vigdís. „Samvera er mjög mikilvæg og góð forvörn.“
Hún segir þennan álagsþátt í raun hafa komið sér á óvart. „Það glíma mjög margir við mikið álag og svo lendir fólk í áföllum og fólk fer á hnefanum í gegnum þau … Á endanum fyllist mælirinn.“
Hún segir mikilvægt að samfélagið taki sig saman um að haga málum þannig að fólk fái aðstoð fyrr frekar en seinna. „Við sem samfélag þurfum að taka okkur saman um að það sé bara gott að fara fyrr og fá aðstoð því það getur mögulega komið í veg fyrir verri vanda seinna. En það verður að vera aðgengi fyrir alla að þjónustu, allir verða að eiga kost á því. Og þetta á ekki að vera síðasta úrræðið.“
Edda Hannesdóttir – sálfræðingur
„Til mín leitar m.a. fólk í hjóna/pararáðgjöf. Mjög mikið fólk sem er milli fertugs og fimmtugs. Það er yfirleitt búið að vera mikið álag; nám, vinna, barneignir, uppeldi og að eignast eða leigja húsnæði.
Flest allir aðilar vinna fullan vinnudag og jafnvel meira, sem veldur miklu álagi. Fólk gleymir eða gefur sér ekki tíma til hlúa að sambandinu, hvort öðru og áttar sig á þegar aðeins fer að róast að nándin er farin og kominn samskiptavítahringur. Þá spyr fólk: Vil ég hafa þetta svona það sem eftir er? Þegar að pör hætta að næra hvort annað þá hafa þau fjarlægst, finnast þau ekki eiga lengur samleið og upplifa ástleysi. Því er gagnlegt að fara í yfir sögu sambandsins og athuga tengslaþarfir, samskipti og fleira.
Niðurstaða MA-rannsóknar minnar á helstu ástæðum skilnaðar og sambúðarslita sýndi að um
64% nefndu „áttum ekki lengur samleið”, 51% nefndu „ástleysi”, „samskiptaerfiðleika” nefndu tæp 43%, „ágreiningur um forgangsröðun heimilis, fjölskyldu og frístunda” tæp 40% og „áfengis- og fímuefnavandamál“ 35,5%.
Það hefur einnig færst í vöxt að ung pör leiti sér aðstoðar vegna samskiptavanda. Mikið álag fylgir uppeldi og ummönnun barna þegar báðir aðilar vinna mikið til að ná endum saman. Ágreiningur um tíma er oft mikill því það er ekki er mikill tími aflögu. Það er því gott að fólk leiti sér faglegrar ráðgjafar og geri sér grein fyrir stöðun sinni í sambandinu og skoði hvað sé til ráða.
Annar hópur sem leitar sér gjarnar aðstoðar eru pör sem eru í seinna sambandi og því fylgja börn úr fyrri samböndum s.s. stjúpbörn. Það gefur auga leið að erfitt getur verið að sameina tvær fjölskyldur, ef þannig má að orði komast.
Þá er einnig talsvert um að fólk komi til mín þar sem ákvörðun um skilnað liggur fyrir og eru að leita sér ráðgjafar til þess að skilnaðurinn verði sem sársaukaminnstur fyrir börnin.
Álag, tímaleysi, samskiptavandi og saga (reynsla í æsku og uppvexti) annars eða beggja aðila er oft að trufla sambandið.“