Á nánast hverjum sunnudegi fyllist Landakotskirkja út að dyrum í fjórum sunnudagsmessum kaþólsku kirkjunnar. Messurnar fara fram á þremur ólíkum tungumálum og á blíðviðrisdögum má stundum sjá fólk fylgjast með messum fyrir utan kirkjuna því það kemst ekki fyrir inni.
Skráningar í kaþólsku kirkjuna hafa nærri fjórfaldast á síðustu 20 árum og í dag eru rúmlega 14 þúsund manns skráðir í kirkjuna. Prestur innan kaþólsku kirkjunnar telur þó að kaþólikkar á Íslandi séu mun fleiri, eða hátt í 30 þúsund manns. Kirkjan sækist því eftir fleiri skráningum í söfnuðinn en trúfélög fá greidd sóknargjöld frá ríkinu fyrir hvern skráðan einstakling.
Þessi aukning í kaþólska söfnuðinum hefur átt sér stað samhliða mikilli fjölgun erlendra ríkisborgara á Íslandi, en stærstu hóparnir sem hingað flytja koma frá löndum þar sem staða kaþólsku kirkjunnar er sterk. Þar munar mest um Pólverja, sem eru fjölmennasti hópur erlendra ríkisborgara hér á landi.
Íhaldssöm og rótgróin viðhorf kaþólsku kirkjunnar gagnvart samkynhneigðum og sjálfsákvörðunarrétti kvenna yfir eigin líkama eru vel þekkt og er íslenskur angi kaþólsku kirkjunnar engin undantekning. Kaþólska kirkjan mótmælti bæði frumvarpi stjórnvalda um hjónabönd samkynja para árið 2010 og þungunarrofsfrumvarpi stjórnvalda í vor.
Kaþólska kirkjan telur sig hins vegar ekki hljóta mikinn hljómgrunn hjá stjórnvöldum hér á landi og væri kirkjan til í að hafa meiri áhrif.
Nánar í nýjasta Mannlífi og á vef Kjarnans.
Mynd / Birgir Þór