Samfylkingin þarf líklega að ræða við Steinunni Ólínu leikkonu ef flokkurinn hyggst skipta um nafn. Ástæðan fyrir því er að Steinunn á lénið jafnaðarflokkurinn.is, sem er næstum samhljóða því nafni sem stungið hefur verið upp á að verði nýtt nafn flokksins.
Steinunn greinir frá þessu á Facebook. „Það var sem mig minnti. 2016 hélt ég að það væri góð hugmynd að stofna stjórnmálaflokk en þá hafði ég enn trú á því að stjórnmálaflokkar væru aflið sem gæti breytt heiminum. Jafnaðarflokkurinn skyldi hann heita. Ég hef enga trú á stjórnmálum lengur og held að æði mörgum sé ljóst að tími stjórnmála er liðinn. Stjórnmálaflokkar nútímans eiga ekki breik í algræðisöflin sem keppast við að ná alvaldi á heiminum nema sem undirsátar þeirra. Verkalýðs og mannréttindabarátta á hins vegar breik því eðli samkvæmt á slík barátta og mannsandinn sjálfur enga háa herra,“ segir Steinunn.
Hún segir að flokkurinn megi eiga nafnið og lénið ef stefnuskráin verði einnig tekin með. „En nú þar sem Samfylkingin vill skipta um nafn og þá vil ég segja þeim Kristjáni Möller og Merði að lénið og nafnið Jafnaðarflokkurinn er til og með því fylgir hreint ekki afleit og auðskilin stefnuyfirlýsing sem þeir mega eiga. Og hún er svohljóðandi skrifuð í mars 2016:
,,Við sem kjósum að búa á Íslandi verðum að stöðva vaxandi ójöfnuð í
samfélaginu. Við viljum tryggja kjör og réttindi fólks svo enginn
þurfi að líða skort og allir njóti stuðnings starfshæfs heilbrigðis-
og velferðarkerfis þegar það þarf þess við.
Við viljum setja landinu nýja stjórnarskrá sem tryggir mannréttindi
fyrir alla, frelsi, jafnrétti og jafnan kosningarétt, trygg yfirráð
Íslendinga yfir auðlindum sínum og ábyrga þátttöku í samstarfi
þjóðanna.
Við viljum setja fyrirtækjum strangar lagareglur svo þau geti ekki
haft ríki og almenning að féþúfu.
Við viljum að ungt fólk eigi þess kost að búa hér og hýsa, fæða, klæða
og mennta sínar fjölskyldur“