Fram er kominn nýr fjölmiðill, Heimildin, sem varð til við sameiningu Stundarinnar og Kjarnans. Er nokkuð öruggt að slá því fram að þarna er sé kominn fram á sjónarsviðið öflugur fréttamiðill sem sérhæfi sig í flóknum og erfiðum fréttamálum enda saman komnir á einn stað helstu rannsóknarblaðamenn landsins og það undir dyggri stjórn Helga Seljan sem vakið hefur athygli og aðdáun marga fyrir að stinga á mörgum þeim kýlum sem samfélagið hefur þjáðst af í gegnum tíðina.
Er óhætt að segja að nú skjálfi margir spillingarpésarnir á beinunum, þegar Heimildin er orðin að veruleika. Sést það til dæmis á skrifum bloggara hliðhollum ákveðinna viðfangsefna Seljan og Co. sem heldur því fram að Stundin og Kjarninn hafi sameinast af neyð vegna peningaskorts og að um hafi verið að ræða hið séríslenska kennitöluflakk. Slíku vísa ritstjórar hins nýja miðils til föðurhúsanna og segja fjárhagsstöðu beggja fjölmiðlanna hafa verið góða og að Heimildin hafi orðið til þegar þau áttuðu sig á að miðlarnir tveir væru betri sameinaðir en í hvor í sínu lagi.
En þá að nafninu. Heimildin er kannski ekki besta nafnið sem hægt var að finna á nýjan fréttamiðil, en það er auðvitað smekksatriði. Blaðamenn nota þetta orð oft og iðulega „samkvæmt heimildum“ og því orðið vel kunnuglegt innan stéttarinnar en kannski pínu klaufalegt fyrir fjölmiðilinn ef þeir ætla að vitna í heimild sína í frétt og segja „samkvæmt heimildum Heimildarinnar“ en það er svo sem léttilega hægt að komast hjá því með því að tala um blaðið eða miðilinn í staðinn. Jón Gnarr er einn af þeim sem hafa gagnrýnt nafnið en einhver Twitter-snillingurinn kom með þá hugmynd að kalla miðilinn Kjarnorkustundina, sem ég verð að viðurkenna að hljómar vel og svolítið „in your face.“ Ég held að Heimildin venjist nú samt og að það muni ekki einu sinni taka langan tíma. Ef innihaldið er gott, skiptir nafnið varla máli.
Fjölmiðlapistill þessi birtist í nýjasta vefblaði Mannlíf sem má lesa hér.