Hjón, sem eru til rannsóknar vegna umfangsmikils smygls á kókaíni og lyfseðilsskyldum lyfjum, skipulögðu í sameiningu smygl á ópíóðalyfjum frá Spáni til Íslands á síðasta ári. Lyfin eru seld á frjálsum markaði á Spáni en ekki á Íslandi. Konan starfaði sem flugfreyja hjá Icelandair en maðurinn er athafnamaður. Hvorugt þeirra var fram að þessu þekkt fyrir glæpi.
Samkvæmt upplýsingum Mannlífs leiða samskipti hjónanna á samfélagsmiðlum í ljós að þau höfðu samvinnu um innflutning á töflunum sem fela í sér ofsagróða. Lyfin voru keypt á Spáni og flutt til Íslands. Um er að ræða að hluta drápslyf, ópíóíðalyf, sem kostað hafa mörg mannslíf í faraldri sem geysað hefur að undanförnu.
Lögreglan á Suðurnesjum fer með rannsókn málsins sem rekja má til þess að 2 kíló af kókaíni voru send í pósti frá Þýskalandi á heimilisfang foreldra athafnamannsins í Vogum. Þetta var í október á síðasta ári. Móðir athafnamannsins sagði í samtali við Mannlíf ekki hafa haft hugmynd um það hvað væri í pakkanum.
Foreldrarnir greiddu undir sendinguna og sonurinn kom nokkru síðar og sótti pakkann og fór með hann í hús sem hjónin voru nýbúin að kaupa. Fólkið vissi þá ekki að heimili hjónanna var leynilega vaktað af lögreglu. Upp hafði komist um efni sendingarinnar áður en hún fór frá Þýskalandi og ákveðið að fylgjast með henni á áfangastað og ná glæpamðnnunum að baki innflutningnum. Staðsetningarbúnaði var komið fyrir í pakkanum. Athafnamaðurinn sagði við Mannlíf að hann hefði ekki haft hugmynd um efni sendingarinnar og talið að um væri að ræða sendingu sem tengdist viðhaldi á húsi þeirra. Hann hafði gjarnan gefið upp heimilisfang foreldranna þegar um pantanir var að ræða. Móðir hans tók í sama streng og taldi hjónin ungu ekki hafa þau fjárráð sem þyrfti til að fjármagna kaup á slíku magni kókaíns sem talið var að leggi sig á 50 milljónum króna í söluvirði á Íslandi.
Drápslyfjum smyglað
Lögreglumennirnir í Vogum brugðu skjótt við þegar pakkinn var sóttur. Hjónin, samstarfsmaður þeirra og sonur voru handtekin í rassíu lögreglunnar og gæsluvarðhalds krafist yfir þeim öllum. Sími flugfreyjunnar var gerður upptækur. Þá komu í ljós samskipti hjónanna sem vísuðu til þess að þau hefði haft samvinnu allt árið um að smygla lyfjum sem gjarnan eru kennd við ópíóíða. Þessi lyf hafa að undanförnu kostað fjölda mannslífa og eru sannkölluð drápslyf.
22. janúar sendir maðurinn konu sinni, flugfreyjunni, skilaboð á messenger um að mikið sé í húfi. Hún tekur undir og talar um kaup á húsi þeirra: „Verður bara að heppnast,“ skrifar maðurinn. „Já, svo við getum keypt húsið,“ svarar eiginkonan. Hún segir verst að hann hefði þurft að fara í flug frá Tenerife þar sem væru fullt af Íslendingum. „Og labba í gegn með þeim“.
Maðurinn sendi konu sinni myndir af lyfjum sem hann hafði komist yfir. Um var að ræða OxyContin og fleiri ávanabindandi lyf. OxyContin er notað við miklum eða mjög miklum verkjum. Lyfið er lífshættulegt ef það er notað í stórum skömmtum.
Þú græjar meira, you know what
Hann upplýsti konuna, samkvæmt samskiptunum, um að hann væri kominn með hartnær 500 töflur sem myndu gefa mikinn gróða, enda söluverð hverrar töflu um 3000 krónur.
„Var að telja, eg er með 480 töflur, pæla í að reyna að senda eitthvað á undan mér,“ skrifaði maðurinn. Kona hans svarar samdægurs. „480 er það sinnum 3000 eða um 1.440.000 kr. ?“.
Nokkrum dögum seinna, 28 janúar, reifar flugfreyjan „brilliant“ hugmynd um fleiri ferðir. Móðir hennar var á leið til Tenerife og hún taldi upplagt að eiginmaðurinn skellti sér líka.
„Ég á flug til Tene 12 feb. Þú ferð með þeim út. Segist vera að laga einhverja tönn sem meiðir þig eða eitthvað slíkt. Ég kem svo með næstu vél 3 dögum seinna og við förum heim sléttri viku eftir að þú fórst út. Þú græjar meira, you know what“.
Hann svarar samdægurs. „Ég að vera á bótum en vinna. Flytja inn töflur ….“.
Meðal annarra samskipta eru myndir af kvittunum fyrir kaupum á lyfjum og myndir af umræddum lyfjum sem maðurinn sendi konu sinni. Rétt er að taka fram að maðurinn hafnar því í samtali við Mannlíf að hafa flutt inn umrædd lyf. Hann segist vera bakveikur og geta fengið verkalyf hérlendis eftir þörfum og þyrfti því ekki að leita til útlanda.
Í júlí síðastliðnum dregur enn til tíðinda. Flugfreyjan var þá stödd í Hollandi. Þá kemur fram í samskiptum að eiginmaðurinn biður konu sína að koma hárri fjárhæð á mann í Amsterdam.
Mér leið eins og glæpamanni
29. júlí skrifar flugfreyjan. „Fer þá í hraðbanka á morgun. Og set í umslag“.
Hún vill svo vita meira um manninn sem á að taka við peningunum. „Ég er ekkert að fara að segja. Bara rétti honum þetta. Og heitir hann John?“
Maðurinn svarar: „Ég veit ekki alveg“ og bætir svo við „satt“.
„Já, væri gott að geta keypt hús,“ skrifar hún. Eftir að peningarnir, 700 þúsund, hafa verið afhentir lýsir hún líðan sinni.
„Búin. Mér leið eins og glæpamanni“.
Ekki kemur fram í samskiptunum í hvaða skyni þessi greiðsla var innt af hendi eða hvort hún tengist kókaínmálinu. Hjónin hafa haldið því fram að greiðslan hafi verið innt af hendi í greiðaskyni við félaga þeirra. Kókaínið kom til Íslands í október, þremur mánuðum eftir að flugfreyjan afhenti peningana í Amsterdam.
Bjarney Annelsdóttir, yfirlögregluþjónn á Suðurnesjum, segir málið enn ekki vera komið á ákærusvið.
„Málið er enn til rannsóknar. Það er eitthvað í það að það verði sent til ákæru en beðið er niðurstöðu m.a. fjármálagreiningar,“ skrifar hún.
Kókaínmálið hefur síðan vafið upp á sig. Flugfreyjan og maður hennar standa í skilnaði og hún var rekin úr starfi sínu hjá Icelandair. Þau hafa sakað fyrrverandi lögmann mannsins um að hafa misnotað konuna þegar hann heimsótti hana á geðdeild eftir að hún losnaði úr gæsluvarðhaldi. Lögmaðurinn hefur lýst yfir sakleysi sínu en viðurkennir ástarsamband við konuna. Upp úr því sambandi slitnaði. Lögmaðurinn segist hafa fengið kröfu um að greiða tiltekna fjárhæð til að ná sáttum sem hann hafi alfarið hafnað. Eiginmaðurinn hafnar því að hafa viljað ná peningum af lögmanninum en segist aðeins hafa viljað ná fram réttlæti gagnvart lögmanninum sem hafi splundrað fjölskyldu hans.
Sjá fyrri frétt:
Eiturlyf fyrir 50 milljónir í Vogum – Blásaklaus húsmóðir með tvö kíló af kókaíni í forstofunni