Þriðjudagur 29. október, 2024
6.4 C
Reykjavik

Samskiptaörðugleikar og óraunhæfar kröfur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fjölskyldan er lifandi fyrirbæri. Hún vex þegar nýir einstaklingar koma til sögunnar og dregst saman þegar ástvinir hverfa á braut. Í raun er réttast að tala um fjölskyldur, frekar en fjölskyldu, þar sem samsetning þeirra er fjölbreyttari en nokkru sinni fyrr. Allar eiga þær það þó sameiginlegt að ganga í gegnum erfiða tíma og krefjandi áskoranir.

Verst þegar fólk kemur of seint

„Það er mjög algengt að annar aðilinn sé búinn að tala um það lengi að aðstoðar sé þörf en að makinn átti sig ekki á alvarleika málsins. Það er ekki fyrr en það kemur í ráðgjöf að fólk uppgötvar hversu alvarlegt ástandið er,“ segir Ragnheiður Kristín Björnsdóttir, hjúkrunar- og fjölskyldufræðingur, sem sérhæfir sig í parasamböndum. Hún segir vanda fólks oftast byggja á samskipta- og virðingarleysi en hraðinn í þjóðfélaginu geri það að verkum að fólk gefi sér ekki tíma til að rækta sambandið við makann. „Það heldur að makinn verði alltaf þarna og fer að forgangsraða rangt,“ segir hún. Fólk sé upptekið við að koma sér þaki yfir höfuðið og ala upp börnin en þegar hægir á liggi sú spurning í loftinu hvort fólk eigi eitthvað sameiginlegt lengur. Þá sé fólk oft löngu búið að tapa nándinni í sambandinu.

„Mér finnst við bæði vera að fá unga fólkið sem er undir mikilli pressu og svo fólk á miðjum aldri, segir Ragnheiður. Til að byrja með svífi unga fólkið um á bleiku skýi ástarinnar, svo komi skuldbindingarnar; þak yfir höfuðið og börn, og allt í einu sé fólk farið að spyrja sig að því hvort það hafi farið of hratt í sambandið. Margt geti spilað þar inn í, t.d. einhver persónueinkenni eða hegðun hjá makanum sem viðkomandi kann ekki við.

Verst sé þó þegar fólk er að koma allt of seint. „Makinn hefur kannski átt við einhverja erfiðleika að stríða og upplifir að hann hafi ekki fengið stuðning á sínum erfiðasta tíma í lífinu. Það kann að vera sökum vinnu hins aðilans … og það deyr bara eitthvað. Þegar allt er yfirstaðið rankar makinn við sér og uppgötvar að hann vill ekki missa viðkomandi en þá er það stundum orðið of seint af því að þú varst ekki til staðar þegar þörf var á.“ Ragnheiður segir hæglega hægt að vinna skaða á sambandinu sem erfitt er að laga en það sé oft ekki fyrr en þriðji aðili er kominn í málið að fólk fari að hlusta.

- Auglýsing -

„Ég segi oft við foreldra: Þorið að vera foreldrar“

Ragnheiður segir samskiptavandamál eina stærstu ástæðu þess að fólk leitar sér aðstoðar en hann geti verið milli ólíkra einstaklinga; innan fjölskyldunnar, við tengdafjölskylduna og svona mætti áfram telja. Stundum séu málin komin í þvílíkt óefni að fólk sé hætt að mæta í fjölskylduboð. Þá segir hún stjúpfjölskylduna mikla áskorun en það hafi m.a. aukist að foreldrar séu að láta afstöðu barna á unglingsaldri hafa áhrif á hegðun sína eftir skilnað.

„Mér finnst orðið meira um að eldri börn séu að skipta sér af; pabbi og mamma megi ekki hitt og þetta. Þau eru búin að vera ein og nýi makinn kannski ekki viðurkenndur og allt reynt til að stía þeim í sundur. Mér finnst [unglingarnir] hafa orðið allt of mikil áhrif; fólk setur ekki sjálft sig í forgang heldur leyfir þeim að ráða. Og það leyfir stjúpforeldrinu kannski ekki að taka þátt í uppeldinu,“ segir Ragnheiður. Hún segir afar mikilvægt að fólk sé samstiga og mikilvægt að leyfa makanum að vera þátttakandi í uppeldinu.

- Auglýsing -

En hvað veldur?

„Þetta er oft samviskubit yfir skilnaðinum … samviskubit og meðvirkni. Ég segi oft við foreldra: Þorið að vera foreldrar. Það er það besta sem við gerum fyrir börnin okkar; að veita þeim ramma en á kærleiksríkan hátt.“ Ragnheiður segist verða töluvert vör við það að börn séu ekki látin axla neina ábyrgð. „Ég held að kynslóðin núna ætli að vera ofboðslega góð við börnin sín og gerir jafnvel of mikið, sem letur börnin til sjálfstæðis. Við ætlum að vera svo góð en það snýst upp í andhverfu sína. Við þurfum að vera til staðar en við þurfum líka að leyfa þeim að standa á eigin fótum.“ Hún segir hjón stundum ósammála um hvernig nálgast beri uppeldið að þessu leyti, ekki síst í stjúpsamböndum.

„Að elska er ákvörðun og maður þarf að vinna í því að halda ástinni við.“

Ragnheiður segir nokkuð um að fólk leiti aðstoðar vegna hegðunarvandamála barna. Oftar en ekki megi rekja hegðunina til vanlíðunar og erfitt sé fyrir foreldra að horfa upp á börnin sín en geta ekki hjálpað.

„Streita getur verið af hinu góða en hún getur líka verið hættuleg heilsunni“

Spurð að því hvort hún verði vör við nýjan hugsunarhátt þegar kemur að parasambandinu; hvort fólk sjái fyrir sér að eiga í mörgum langtímasamböndum yfir ævina, svarar Ragnheiður neitandi. Fólk á miðjum aldri velti fyrir sér framhaldinu, það geri kröfur um hamingju og vellíðan, en yfirleitt sé markmiðið að bjarga sambandinu sem það sé í. Hún segir margan vandann mega rekja til hraðans og álagsins í nútímasamfélagi. Kulnun sé ekki eitthvað sem sé bundið við vinnustaðinn, heldur eigi erfiðleikar heima við og í einkalífinu einnig sinn þátt í að fólk brenni út.

„Þegar þetta leggst saman þá er voðinn vís,“ segir Ragnheiður. „Streita getur verið af hinu góða en hún getur líka verið hættuleg heilsunni og það getur tekið tvö til þrjú ár að vinna sig út úr kulnun. Ónæmiskerfið hrynur og það er ekkert grín. Fólk þarf að hafa vit fyrir sjálfu sér.“

En hvernig geta meðferðaraðilar hjálpað?

Hvað varðar parasambandið segir Ragnheiður allar björgunaraðgerðir fyrst og fremst snúast um vilja parsins. „Ég bið fólk að skoða hug sinn og til hvers það er komið og hvað það vill fá aðstoð við. Fólk þarf að vera í þessu af heilum hug. Ég kem ekki með töfrasprota en ég get leiðbeint fólki gegnum dimman dal. Vinnan liggur hjá því sjálfu. Að elska er ákvörðun og maður þarf að vinna í því að halda ástinni við. Maður þarf að vanda sig og hlúa að sambandinu; þetta er vinna alla tíð, því neistinn getur slokknað og hann gerir það. Og stundum veit fólk ekki hvernig það á að kveikja hann aftur en það er hægt.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -