Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-3.4 C
Reykjavik

Samstöðu- og friðarstund í Laugarneskirkju: „Er að reyna að finna réttlætiskenndinni farveg“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sunnudaginn 17. desember verður haldin samstöðu- og friðarstund í Laugarneskirkju þar sem sérstaklega verður minnst á öll þau börn sem látist hafa í átökum Ísraelsmanna og Hamas-liða.

Klukkan 17:00 verður haldin samstöðu- og friðarstund í Laugarneskirkju, til að minnast þeirra barna sem látist hafa frá 7. október fyrir botni Miðjarðarhafs en talið er að 35 börn hafi látist í árás Hamas-liða á Ísrael en að minnsta kosti 8.000 börn eru talin hafa látist í hefndarárásum ísraelska hersins. Í viðburðalýsingunni á Facebook segir: „Við komum saman þann þriðja í aðventu og minnumst allra barna sem myrt hafa verið í stríðsátökum, sameinumst í sorg okkar, eigum samfélag, kveikjum ljós í mesta myrkrinu. Lifandi ljósin minna á heilagleika hvers einasta lífs og að ekkert geti nokkurn tímann réttlætt stríðsátök þar sem börn eru drepin.“ Um er að ræða þvertrúarlegan viðburð þar sem allir eru velkomnir. Þau Eyrún Björk Jóhannsdóttir og Séra Hjalti Jón Sverrisson flytja ávarp en fjallgöngu- og útivistarhópurinn Áning flytur tónlist.

Mannlíf heyrði í þeim Hjalta Jóni og Eyrúnu og spurði þau nánar út í viðburðinn.

Séra Hjalti Jón sagði að ákall hafi komið frá íbúum í Laugarneshverfi um að minnast barnanna sem myrt hafa verið í átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs undanfarna tvo mánuði.

„Þegar ákall kom frá íbúum í Laugarneshverfi um að skapa saman stund fyrir samfélag, til að minnast allra þeirra barna sem hafa látist í stríðsátökum í undanfarnar vikur, saklaus börn til að mynda um helmingur þess óhugsandi fjölda sem látið hefur lífið á Gaza undanfarnar vikur, þá vildum við í Laugarneskirkju að sjálfsögðu verða við því enda sameinumst við í bæn um frið í öllum heimi og að öll börn upplifi vernd og öryggi alla sunnudaga í helgihaldi okkar eins og í öðrum kirkjum landsins. Núna á sunnudaginn ætlum við að eiga saman þvertrúarlegt samfélag á forsendum sálgæslunnar, skapa rými til að finna og ávarpa þær djúpu tilfinningar sorgar sem öll finna. Sækja kraftinn og samstöðuna sem samfélag gefur til að halda áfram að láta okkur mannréttindi allra varða og halda áfram að vona og keppast eftir friði á jörðu.“

Eyrún Björk er ein af þeim sem leitaði til Hjalta Jóns, í von um að hægt væri að finna stað og stund fyrir sorgina sem fylgir þegar hryllingur eins og sá sem á sér stað á Gaza, stendur yfir.

- Auglýsing -
Eyrún Björk
Ljósmynd: Aðsend

„Ég leitaði til Hjalta og Laugarneskirkju því ég finn sterka þörf fyrir því að hleypa út þeirri gríðarlega sterku sorgartilfinningu sem hefur hlaðist upp innra með mér undanfarnar vikur. Það er mjög erfitt að horfa upp á þann hrylling sem gengur yfir fólkið á Gaza, sér í lagi öll þessi börn, eiginlega í rauntíma í beinni á netinu. Ég er að reyna að finna réttlætiskenndinni og samkenndinni farveg með friðsælum mótmælum og með því að finna styrk í samfélaginu, líkt og ég vonast til að finna og gefa á viðburði sem þessum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -