Sanna Magdalena Mörtudóttir segir að ekki sé hugað að öllum íbúum Reykjavíkurborgar, hinir fátæku sitji á hakanum.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, Sanna Magdalena Mörtudóttir, skrifaði færslu á Facebook þar sem hún fór yfir fund borgarstjórnar Reykjavíkur um fátækt og ójöfnuð sem haldinn var á dögunum en þar barst talið að fátækt barna. „Ég hélt að umræðan um slíkt yrði auðveldari með tímanum en það er ekkert auðvelt við það að ræða um fátækt og birtingarmyndir hennar,“ skrifar Sanna og fer svo yfir skilaboð hennar á fundinum.
Segir Sanna að á síðasta borgarstjórnarfundi hafi fulltrúar meirihlutans dregið upp mynd af Reykjavíkurborg þar sem Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, hafi látið eftirfarandi orð falla: „Þetta er jafnaðarborg, þetta er velferðarborg og þetta er borg sem hugsar til framtíðar, mjög langrar framtíðar.“ Segir hún Dag einnig hafa talað um að taka þurfi ákvarðanir út frá staðreyndum og gögnum. Þá vitnar hún einnig í Heiðu Björg Hilmisdóttur, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, sem sagði meðal annars: „Núna erum við stödd hér á áratug uppbyggingar húsnæðis, það er hugað að öllum íbúum borgarinnar, ólíkum hópum.“
Sanna segir þetta ósatt. „Slíkt er fjarri lagi þar sem stór hópur er sífellt skilinn eftir í húsnæðiskrísu. Svo ég vísi í tölur og gögn þá bíða nú 691 eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði vegna mjög erfiðra félagslegra- og fjárhagslegra aðstæðna og þurfa að gera ráð fyrir því að bíða í um 16 mánuði eftir viðeigandi húsnæði.“ Bætir hún svo við: „Og þá hef ég ekki nefnt þau sem búa við skort og erfiðar og hættulegar húsnæðisaðstæður en komast þó ekki inn á þennan biðlista. Ekki metinn í nægilega mikilli þörf, þó að þau séu fátæk. Veruleikinn sem blasir við okkur er andstæða borgar sem hugar að öllum íbúum borgarinnar.“