Jón Þór Ólafsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, segist tilbúinn að veðja stórum upphæðum á að Samfylkingin muni fara í samstarf við Sjálfstæðisflokkinn undir stjórn Kristrúnar Frostadóttur. Næsta víst er að Kristrún verði næsti formaður Samfylkingarinnar, enda ein í framboði. Jón Þór telur svo gott sem öruggt að fyrr en seinna muni Kristrún mynda ríkisstjórn ásamt Sjálfstæðisflokknum.
Hann segir þetta ósköp einfalt reikningsdæmi. „Hægri krati + Samstöðustjórnmál = Samfylkingin styður Sjálfstæðisflokkinn aftur til valda og Samfylkingarfólk fær að borða skít í 4 ár – Sorglegt en líklega satt.“
Hann segist tilbúinn að veðja upp á þetta. „Ég skal taka veðmáli 1 á móti 10 að XD verður ekki útilokað fyrir næstu kosningar eins og síðast ef hún verður formaður XS “
Jón Þór bætir svo við að eftirfarandi tilvitnun í Kristrúnu í viðtali við Kjarnann segi allt sem segja þarf.
„- Viðbót –
Var að rekast á þetta nýja viðtal við Kristrúnu á Kjarnanum. Hún segir:
„Að hún sé þeirra skoðunar að það sé ekki skynsamlegt að móta fyrirfram einhverskonar stjórnarsamstarf áður en kosið sé. […] Það sem gerist oft í þessari útilokunarpólitík er að það fer allt að snúast um hina flokkanna. Þá sem eru útilokaðir. […] Það er auðvitað alveg augljóst að það eru sumir flokkar sem eru að fara að verða erfiðari en aðrir í slíku samstarfi. En ég sé ekki ástæðu fyrir því að fara í stórar yfirlýsingar hvað það varðar.““