Seðlabanki Íslands opinberaði yfirlýsingu Peningastefnunefndar rétt í þessu og var ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. „ Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 9,25%,“ segir í yfirlýsingunni frá nefndinni.
Nefndin bendir á að verðbólga hafi minnkað lítillega í síðastliðnum mánuði og mælst 6,6 prósent, en bendir á að verðbólgan sé enn vel yfir væntingum og því líkur á að hún verði áfram þrálát.
„Nýleg endurskoðun Hagstofu Íslands á þjóðhagsreikningum sýnir að hagvöxtur á síðustu árum var meiri en fyrri tölur bentu til. Spennan í þjóðarbúinu virðist því vera umfram það sem áður var talið. Áfram hægir þó á vexti efnahagsumsvifa enda er taumhald peningastefnunnar töluvert,“ kemur fram í yfirlýsingunni frá Peningastefnunefndinni.
Kjarasamningarnir litlu breytt
Þá hefur óvissan minnkað eftir undirritun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og bundu margir vonir við að Seðlabankinn myndi lækka vexti sökum þessa.
„Spennan í þjóðarbúinu gæti þó leitt til þess að launaskrið verði meira en ella. Einnig gætu aðgerðir í ríkisfjármálum aukið eftirspurn og verðbólguþrýsting,“ segir í yfirlýsingunni.
“Mótun peningastefnunnar á næstunni mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.“