Hæstaréttarlögmaðurinn Vilhjálmur H. Vilhjálmsson segir nú að ákvörðunin um að kæra flugmanninn Sólon Guðmundsson fyrir nauðgun, hafi verið tekin áður en hann framdi sjálfsvíg.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður lagði fram nauðgunarkæru fyrir hönd skjólstæðings síns á hendur Sóloni Guðmundssyni, þremur dögum eftir andlát Sólons eða þann 28. ágúst. Samkvæmt tímalínu sem hann sendi á Vísi tók hann málið að sér 25. ágúst, sama dag og Sólon tók sitt eigið líf. Segir hann að ákvörðun um að kæra Sólon hafi verið tekin áður en fregnir bárust af andláti hans en kæran lögð fram nokkrum dögum síðar. Segir Vilhjálmur að konan hafi verið boðuð stuttu síðar í skýrslatöku en vegna mistaka við bókun hjá lögreglunni hafi skýrslatakan verið færð til 2. október.
Mál Sólons hefur vakið mikla athygli í fjölmiðlum eftir að Hödd Vilhjálmsdóttir talsmaður fjölskyldu hans kom fram og sagði frá því og kröfu foreldra hans um að meint einelti á hendur Sóloni verði rannsakað. Vegna umfjöllunarinnar sendi Vilhjálmur frá sér yfirlýsingu þar sem sagði meðal annars að hið meinta nauðgunarbrot hafi átt sér stað í lok júlí á þessu ári. Hafi konan í beinu framhaldi leitað til sálfræðings sem sendi hana á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis.
„Konan hafi svo upplýst Icelandair um hið meinta brot um miðjan ágúst og stuttu síðar lagt fram kæru hjá lögreglu,“ eins og sagði í yfirlýsingu Vilhjálms.
Samkvæmt DV leituðu foreldrar Sólons til Vilhjálms þann 27. ágúst og báðu hann að taka að sér mál látins sonar síns. Hann hafi neitað á grundvelli hagsmunaárekstra og benti þeim á annan lögmann. Í samtali við Mannlíf fyrir þremur dögum sagðist Vilhjálmur ekki hafa vitað af andláti Sólons þegar kæran var lögð fram þann 28. ágúst. Þær fullyrðingar standast hins vegar ekki, miðað við fréttir DV og Vísis. Vilhjálmur neitaði að tjá sig um málið við Mannlíf.
Samkvæmt upplýsingum Mannlífs var lögreglunni ekki kunnugt um kæru á hendur Sóloni 2. september en hugsanlega er það vegna fyrrgreindra mistaka við bókun.
Sjá einnig: Lögreglan staðfesti að engin kæra hafi borist á hendur Sóloni: „Þetta gæti ekki verið skýrara“