Björn Birgisson veltir fyrir sér sérkennilegri stöðu sem Bjarni Benediktsson er kominn í varðandi dómsmálarastöðuna.
Í nýrri færslu spáir hinn skeleggi samfélagsrýnir, Björn Birgisson, í þá erfiðu stöðu sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra virðist kominn í innan Sjálfstæðisflokksins. Guðrún Hafsteinsdóttir, fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis hefði átti að taka við Jóni Gunnarssyni sem dómsmálaráðherra, í mars síðastliðnum, líkt og lofað var við endurnýjun núverandi ríkisstjórnarstarfs en enn hefur það ekki orðið að veruleika. Björn velti fyrir sér ástæðunni og bendir á ansi snúna stöðu sem Bjarni er kominn í. Færsluna má lesa hér:
„Við endurnýjun núverandi ríkisstjórnarsamstarfs var ákveðið að Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra ætti að víkja og Guðrún Hafsteinsdóttir, fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis, taka við embætti hans.
Rætt var um að skiptin yrðu í mars síðastliðnum en nú er kominn miður apríl og ekkert gerist í málinu.
Guðrún Hafsteinsdóttir hefur minnt fremur máttleysislega á þessi áform, en engu er líkara en að Bjarni Benediktsson ætli sér ekki að standa við þessa hugmynd sína.
Jón Gunnarsson hefur verið margspurður um þessi skipti og bregst alltaf við eins og hann komi af fjöllum og er augljóslega ekkert á þeim buxunum að víkja úr embætti.
Bjarni Benediktsson svarar bara út og suður ef á þetta er minnst.
Sögusagnir ganga um að Jón Gunnarsson hafi haft í hótunum um að segja af sér þingmennsku ef staðið verði við áformin um ráðherraskiptin, enda kæmu þau út fyrir hann sem vantraust innan úr flokknum á störf hans, þeim sama flokki og einmitt varði hann gegn vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar fyrir skömmu.
Ef sú saga er tekin aðeins lengra – og krydduð eins og góð kjaftasaga – þá dettur lögfræðingurinn Arnar Þór Jónsson inn á þing ef Jón hættir þingmennsku, sömuleiðis er Arnar Þór einnig varamaður fyrir Bjarna Benediktsson, Bryndísi Haraldsdóttur og Óla Björn Kárason.
Innkoma Arnars Þórs Jónssonar sem aðalmanns á Alþingi væri flokknum algjör hneisa og slæmur þyrnir í augum.
Skömmu eftir páska krafðist Arnar Þór Jónsson nefnilega þess að allir forustumenn Sjálfstæðisflokksins segðu af sér vegna svika við stefnu sína og hugsjónir með því að framselja sjálfstæði þjóðarinnar til Evrópusambandsisins með samþykkt bókunar númer 35 við EES-samninginn.
Hann lagði til að nafni flokksins verði breytt!
Sjálfstæðisflokkurinn verði bara Flokkurinn!
Bjarni Benediktsson formaður er augljóslega kominn í mjög sérkennilega stöðu og það er augljóst að hann gerir ekkert sem verður þess valdandi að Arnar Þór Jónsson detti inn á þing!
Hann gæti rekið Arnar Þór úr flokknum, en eftir sem áður væri hann fyrsti varaþingmaður flokksins í kjördæmi formannsins!
Eitthvað af ofanskráðu er í hálfgerðum kjaftasögustíl, en annað ekki.
Svolítið eins og nokkuð spennandi krimmi sem vantar bara lokakaflann í!
Hver fellur áður en tjaldið fellur?“