Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-3.4 C
Reykjavik

Segir Bjarna Benediktsson vera með vopnaða lífverði á Alþingi: „Svona elur á ótta og sundrungu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lögfræðingurinn Katrín Oddsdóttir er yfir sig hneyksluð á vopnaleitinni sem almenningur þarf að fara í gegnum ætli hann sér að heimsækja nýtt hús Alþingis við Tjarnargötu. Þá bendir hún einnig á að Bjarni Benediktsson sé með vopnaða lífverði innandyra á þinginu.

Í færslu sem Katrín Oddsdóttir birti á Facebook, sem hún kallar „Hið skíthrædda Alþingi,“ segir hún frá fundi sem hún hafi átt með þingkonu í nýbyggingunni Smiðja við Tjarnargötu. Var lögfræðingurinn allt annað en sáttur við það hvernig tekið er á móti almenningi í húsinu.

„HIÐ SKÍTHRÆDDA ALÞINGI!

Ég átti fund með þingmanni í morgun. Hún bauð mér og vinkonu minni sem ég er að aðstoða að hitta sig í nýbyggingunni Smiðju við Tjarnargötu.

Skemmst er frá því að segja að innganga mín í þetta glænýja hús (sem ég og hinir skattgreiðendur vorum að byggja okkur) olli mér slíkum vonbrigðum að ég er enn djúpmóðguð, nú sjö klukkustundum síðar.

Okkur fannst reyndar þessi öryggisinngangur og vopnaleitin í kjölfarið báðum svo undarleg að vinkonan tók þetta myndskeið af mér að reyna að komast á fund með þessum blessaða kjörna fulltrúa. Svipurinn á mér í blálokin á þessu myndbandi segir meira en þúsund orð um hversu fráleitt mér fannst þetta allt saman.“ Þannig hefst færsla Katrínar en með henni fylgdi myndband sem hægt er að sjá fyrir neðan texta fréttarinnar.

- Auglýsing -

Katrín heldur áfram: „Ég var í svo vondu skapi eftir að hafa komið inn í húsið með þessum hætti að það litaði allan fundinn. Þingkonan sem ég var að hitta var jafn hissa á þessu og ég og sagði mér að upphaflega hefði staðið til að neðsta hæð hússins væri opin almenningi og hönnun þess hafi tekið mið af þeirri fallegu pælingu. Slíkt er fyrirkomulagið t.d. í Ráðhúsinu sem stendur hinum megin við götuna og hvar ég get farið inn án þess að komið sé fram við mig eins og grunaðan hryðjuverkamann. Hver er munurinn?“

Segir Katrín að svona móttaka hafi mun meiri áhrif á fólk en almennt.

„Þetta hefur miklu meiri áhrif en fólk heldur kannski almennt því það hvernig er tekið á móti fólki gefur tóninn um alla upplifun eftir það. Ég fór að hugsa um kenningar Foucault um hvernig hægt sé að nota uppbyggingu á rýmum til að ná stjórn á fólki. Hvernig fór hönnunin frá því að vera öllum opin og yfir í að verða eins og ég væri að fara inn yfir landamæri Schengen? Erum við í alvörunni orðin svona hrædd? Hvers konar lög skrifar fólk sem lætur leita að vopnum á gestum þess?“

- Auglýsing -

Katrín segir næst í færslunni frá furðulegri staðreynd um forsætisráðherrann sem hún heyrði frá þingkonunni:

„Þar sem ég tuðaði yfir þessu í byrjun fundar af nokkru offorsi sagði þingkonan mér að önnur birtingarmynd óttans væri sú staðreynd að nú valsaði forsætisráðherra um með vopnaða lífverði, INNANHÚSS í Alþingi! Heldur Bjarni Ben í alvöru að einhver þingmaður eða starfsmaður Alþingis ætli að gera tilraun til að vega hann?“

Segist hún ekki geta sest niður sem jafningi með þingmanni sem hefur látið leita á henni.

„Svona óhófleg eftirlitsháttsemi elur á ótta og sundrungu. Ég get ekki sest sem jafningi niður með þingmanni sem hefur látið leita á mér til að ég fengi að setjast í þetta sæti.

Ég er gjarnan kölluð sem gestur fyrir þingnefndir til að gefa álit en ég mun ekki gera það framar ef það krefst þessarar framkomu gagnvart mér.“

Því næst beinir Katrín orðum sínum að fötluðum og aðgangi þeirra að húsinu.

„Ég var mjög fundsetin (sbr. andsetin) í dag og endaði daginn á fundi með einum af mínum bestu mönnum sem er Rúnar Björn Herrera Þorkelsson formaður NPA miðstöðvarinnar. Rúnar notar öflugan rafmagnshjólastól til að komast sinna leiða og þegar ég sýndi honum þetta snúningshylki sem fólki er gert að standa inni í til að fá að koma inn í þetta blessaða hús, fór hann einfaldlega að hlægja yfir fáranleikanum hvað aðgengistakmarkanir varðar.

Væntanlega er einhver bakdyrainngangur sem Rúnar og annað fatlað fólk getur fengið að skjótast inn um, líkt og þjófar að nóttu. Það væri líka ágætismyndlíking fyrir það hvernig komið er fram við fatlað fólk á þessu landi. Þetta er nú einu sinni sá þjóðfélagshópur þar sem það þykir einfaldlega norm að þú farir á biðlista til að fá nauðsynlega grunnþjónustu.“

Nefnir hún annað dæmi um „ömurlegan öryggiskúltur“ hjá stofnunum á Íslandi:

„Og ef þið hélduð að þessum ranti lyki hér í dag elskurnar, þá ónei – ég er ekki búin!

Önnur vinkona mín á aldraðan föður sem þurfti að leita á bráðamóttöku fyrir nokkrum dögum. Ekki var ljóst hvað var að honum en þó lág fyrir að það var alvarlegt miðað við einkennin. Tvær dætur hans voru staddar hjá honum þegar greina átti frá stöðunni en þá sagði heilbrigðisstarfsmaðurinn að aðeins einn aðstandandi mætti vera viðstaddur. Þegar þær sögðust vilja vera báðar var hótað að kalla á öryggisvörð. Fólkið sem vinnur þessi mikilvægu störf er svo gjörsamlega búið á því af álaginu sem því er gert að vinna undir, að það er líka farið að leita í þennan ömurlega öryggiskúltur sem hefur hingað til ekki einkennt okkar land. Nú virðist hann sækja í sig veðrið af áður óþekktum krafti og ég held að þetta sé stórhættuleg þróun fyrir friðsælasta land í heimi.“

Að lokum spyr Katrín:

„Við hvað erum við svona hrædd? Af hverju má þingkonan sem þekkir mig mætavel, og er að bjóða mér á sinn fund vegna máls sem varða almenning, ekki bara hleypa mér inn í húsið?

Á sama tíma og forseti landsins biður okkur að að nota kærleikann sem vopn, horfast í augu og knúsast eru stofnanir landsins að að koma upp vopnaleit eins og það sé einhvers konar norm. Þetta er mikil og heimskuleg þversögn hjá sjálfu Alþingi – staðnum þar sem lögin, og þar með friðurinn, ættu að eiga sitt lögheimili.“

Hér má sjá myndbandið:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -