Þriðjudagur 18. febrúar, 2025
6.8 C
Reykjavik

Segir Evrópu muni beygja sig undir vilja Bandaríkjanna: „Nú vill húsbóndinn blóðmjólka leiguliðann“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ef Bandaríkin hætta stuðningi við Úkraínu munu Evrópuríkin ekki geta tekið yfir hlutverk þeirra. Þetta vita allir, Úkraínumenn allra helst. Líka nágrannaríkin, sem treysta á hervernd Bandaríkjanna og vita mæta vel að Evrópu hefur hvorki herstyrk né hergagnaframleiðslu til að verja sig í alvöru átökum. Og þá skiptir engu þótt Selenskí leggi til evrópskan fjölþjóðlegan her sem sprytti upp úr her Úkraínu. Evrópa er svo óralangt frá því að geta tekið umræðu um slíkt að þetta er í raun fásinna.“ Færsla Gunnars Smára Egilssonar hefst á þennan máta en hana birti hann í dag á Facebook. Þar fer hann yfir ástandið í austur og vesturhveli jarðar, spennuna á milli Bandaríkjanna og Evrópuríkja í sambandi við stríðið í Úkraínu.

Gunnar Smári segir því næst frá því sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hyggst gera gagnvart Evrópu:

„Ríkin austar í álfunni hafa flest í reynd fallist á að nota allt að 4% af landsframleiðslu til að kaupa vopn frá Bandaríkjunum í skiptum fyrir hervernd. Þetta er hinn nýi díll Trump. 5% af landsframleiðslu í hernað (225 milljarðar kr. á íslenskan mælikvarða) og þar af 4% (180 milljarðar kr. á íslenskan mælikvarða) til að kaupa bandarísk hergögn, til að efla atvinnulíf vestra. Planið hjá Trump er að selja Evrópu gamla draslið svo hergagnaiðnaðurinn geti búið til nýjasta nýtt fyrir bandaríska herinn. Ríkin vestar, sem hafa enga ástæðu til að óttast innrás frá Rússum finnst þetta skiljanlega vondur díll. Þau geta vonast til að Bandaríkin gangi ekki úr Nató, vonast til að þau verði ekki neydd til að lama velferðarkerfi sín til að hafa efni á stórfelldri hernaðaruppbyggingu, reynt að framlengja óbreytt ástand í trausti þess að Trump deyji og enginn jafn slæmur eða verri komi í staðinn. Það er óskhyggja.“

Segir hann ennfremur að Trump sé að boða stefnubreytingu gagnvart Evrópu:

„Trump er að boða stefnubreytingu gagnvart Evrópu sem nýtur almenns stuðnings hernaðar-kapítalismans í USA. Val Vestur-Evrópu er þá að taka upp friðarstefnu sem kallar ekki á hernaðaruppbyggingu til að sækja að eða verjast Rússum og öðrum andstæðingum Bandaríkjanna. En Evrópu er líka ófær um það. Í raun er pólitíkin í álfunni í stórtjóni, er að falla saman vegna vantrausts á stjórnvöldum og vangetu þeirra til að stýra samfélögunum í takt við vilja og væntingar almennings.“

Sósíalistaforinginn segir einnig í færslunni að Bandaríkin séu í raun með haustak á Úkraínu:

- Auglýsing -

„Úkraínumenn hafa þegar lofað Bandaríkjamönnum auðlindum í skiptum fyrir þá aðstoð sem þeir hafa þegar fengið, en hafa ekki mikið meira að bjóða. Bandaríkjastjórn hefur gefið út að hún vilji stöðva stuðning við stríð sem getur ekki unnist. Og það sem meira er; gefið út að Úkraína muni ekki ganga í Nató. Og ef Bandaríkin vilja ekki að Úkraína gangi í Nató þá gengur Úkraína ekki í Nató. Það vita allir.“

Í lokakafla færslunnar byrjar Gunnar Smári á að hæðast að íslenskum ráðamönnum:

„Samt láta íslenskir ráðherrar eins og þeir geti lagt herskáar línur í öryggismálum Evrópu sem ganga þvert á stefnu Bandaríkjanna. Og þeir láta mynda sig með ráðafólki á Norðurlöndunum og frá Eystrasaltsríkjunum, líklega til að fólk haldi að þar fari nýr harðkjarni Evrópu sem muni styðja Úkraínu til fullnaðarsigurs yfir Rússum á vígvellinum. Þetta er allt helber óskhyggja og innantómt þvaður. Stríðið í Úkraínu hefur í reynd alla tíð verið átök milli Rússa og Bandaríkjanna. Þetta eru átök hervelda um yfirráðasvæði. Evrópa hefur fylgt með sem leppríki Bandaríkjanna og er í reynd ekkert annað.“

- Auglýsing -

Að endingu segir Gunnar Smári að Evrópa muni beygja sig undir vilja Bandaríkjamanna:

„Og nú vill húsbóndinn blóðmjólka leiguliðann, láta hann borga nýjar innréttingar á herrasetrinu. Í stað þess að rísa upp og mynda eigin öryggis- og varnarstefnu mun Evrópa beygja sig undir vilja Bandaríkjanna, ekki bara varðandi hernaðarútgjöld heldur sætta sig líka við nýlendustefnu Bandaríkjanna gagnvart Grænlandi, Gaza og öðrum svæðum sem þau ætla að sölsa undir sig.“

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -