Halla Tómasdóttir segir einhver þeirra fimm forsetaefna sem tóku þátt í kappræðum Stöðvar 2 í gær, með henni, sé að ljúga því að þau hafi ekki tröll á sínum snærum sem notaðir séu til að ata aur á aðra frambjóðendur.
Heimir Már Karlsson, sem stjórnaði kappræðunum spurði forsetaefnin sex hvort það væru nettröll á þeirra snærum sem ati aur á aðra. Ekkert þeirra vildi gangast við slíkt.
Arnar Þór Jónsson kvaðst hafa beðið stuðningsmenn sína, skriflega, um að grafa ekki undan öðrum frambjóðendum því óábyrgt sé að dreifa kjaftasögum. Jóni Gnarr fannst spurningin kjánaleg. „Nei, hvernig dettur þér það í hug? Og þó svo að einhver sé með tröll á sínum snærum myndi hann ekki viðurkenna það fyrir þér,“ sagði Jón og hló. Þá
Þá sagði Halla Hrund ekki kannast við nein tröll nema þau sem búi í fjöllunum.
Halla Tómasdóttir neitaði því einnig en bætti við: „Það eru augljóslega einhver tröll því ég held að allir sem hér standa hafi orðið fyrir þeim. Það er einhver sem segir ekki satt um það.“
Þau Katrín Jakobsdóttir og Baldur Þórhallsson sögðust bæði tala fyrir málefnalegri umræðu í sínum stuðningshópum. „Einhvers staðar leynast tröllin en þau munu frjósa þegar sólin kemur upp,“ sagði Baldur.
Mannlíf sendi tölvupóst á Höllu Tómasdóttur og spurði hana nánar út í orð hennar og vildi vita hvaða frambjóðanda hún væri að tala um. Vigdís Jóhannsdóttir, kosningastjóri Höllu svaraði um hæl: „Þykist vita að þið blaðamenn sjáið og heyrið það sama og öll framboðsteymin. Við erum með fullan fókus á okkar framboði og tókum ákvörðun um að vera alltaf þar þegar Halla gaf kost á sér. Það þýðir að við setjum ekki orku í að ræða önnur framboð.“