Atli Þór Fanndal segir að Hildur Sverrisdóttir sé að rugla í almenningi um sakleysi Bjarna Benediktssonar.
Framkvæmdarstjóri Íslandsdeildar Transparency International, Atli Þór Fanndal vandar ekki Hildi Sverrisdóttur, þingfloksformann Sjálfstæðisflokksins, kveðjurnar í nýrri Facebook-færslu. Segir blaðamaðurinn fyrrverandi að Hildur hafi afsakað Bjarna Benediktsson í morgunútvarpinu á Rás 1, „á launum hjá almenningi.“ Segir hann Hildi hafa í heilt ár gert lítið úr þætti Bjarna í sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. „Hún hefur farið með sömu tugguna svona átta hundruð sinnum.“ Þá hæðist Atli Þór að fjölmiðlum fyrir að bjóða Hildi ítrekað í viðtöl vegna málsins en segir svo að málið sé ekki flókið: „Hildur er að rugla í þér. Bjarni ber ábyrgð á sölunni. Hann ber lagalega ábyrgð og pólitíska.“
Atli Þór segir aukreitis að það í málinu sé ekki flókin lögfræði. „Keypt undirlægjuálit Bankasýslu um að ekki megi birta kaupendalista á uppruna sinn til tilrauna til yfirhylminga.“
Að lokum segir Atli Þór að Bjarni hafi gert helling rangt við söluna. „Það sem hefur komið fram er að Bjarni sinnti ekki skyldum sínum, lagði ekki mat á tilboðin, kostaði almenning milljarða og hefur tafið málið og neitað að taka ábyrgð.“
Hér má sjá færsluna:
„Hildur Sverrisdóttir, afsakandi Bjarna Benediktssonar á launum hjá almenningi, er viðmælandi í morgunútvarpinu á Rás 1. Hún hefur farið með sömu tugguna svona átta hundruð sinnum. Hildur hefur í rúmt ár sagt aftur og aftur og aftur að hún ætli að sjálfsögðu ekki að gera lítið úr málinu en gerir svo lítið úr málinu.