Mikil ólga er á Hvammstanga samkvæmt heimildum Mannlífs, vegna óánægju með framkomu sveitarstjórnar Húnaþings vestra gagnvart starfsmönnum sveitarfélagsins.
Mannlíf hafði samband við Grétu Róbertsdóttur eftir ábendingar um umræðu sem í gangi á samfélagsmiðlum en hún segir að sveitarstjórn Húnaþings vestra hafi komið illa fram við móður hennar, rétt fyrir andlát hennar. Móðir hennar hafði unnið fyrir sveitarfélagið í yfir 20 ár, bæði sem gæslumaður í íþróttahúsi skólans á Laugarbakka og sem stuðningsfulltrúi í grunnskólanum á Hvammstanga en hún var ómenntuð. Fyrir nokkrum árum var móðir Grétu sett yfir námsverinu þar sem hún hjálpaði nemendur frá 3ja til 10. bekk en starfinu sinnti hún af heilindum og af metnaði að sögn Grétu.
Launahækkunin
„Árið 2021 fór mamma fram á launahækkun því hún taldi sig vera að vinna umfram það sem hún fékk borgað fyrir. Svarið hjá þáverandi skólastjóra var nei,“ segir Gréta í samtali við Mannlíf og bætti við: „Þá bað hún um starfsmat sem að skólastjórinn mátti ekki neita því um nýtt starf var að ræða. Hún fékk launahækkun umfram það sem hún bað um.“ Segir Gréta að mamma hennar hafi velt því fyrir sér hvort þessi launahækkun hefði farið fyrir brjóstið á þáverandi skólastjóranum en ári síðar var hann byrjaður að vinna hjá sveitarfélaginu sjálfu. Um haustið 2022 var hún boðuð á fund hjá honum. „Hún vissi þegar hún fékk boðið að hann væri að ná sér niður á henni,“ segir Gréta og að hún hefði fengið þær upplýsingar að „sveitarstjórnin hafi falið honum það verkefni að vasast í þessum samningum“ og að sveitarstjórinn hafi samþykkti síðan „þennan gjörning“.
Fundurinn
„Hún fékk tölvupóst hausti 2022 þar sem hún ásamt annarri konu var boðuð á fund niður í ráðhúsi. Þar var henni tilkynnt að þau ætluðu að breyta starfssamningi hennar.“ Gréta sagði að breytingarnar hafi haft í för með sér umtalsverðar breytingar á vinnutíma og launakjörum. Það hafi verið álit mömmu hennar og stéttarfélagsins Samstöðu, sem hún leitaði til, að um uppsögn væri að ræða. „En nei! Þau vildu meina að þetta væri ekki uppsögn heldur bara breyting á starfsamningi og ef hún myndi ekki skrifa undir þennan samning þá þyrfti hún að segja upp sjálf! Þar með myndi hún tapa öllum sínum veikindarétti og til dæmis rétti til atvinnuleysisbóta næstu 3 mánuði,“ segir Gréta. Mamma Grétu hafði verið með starfsamning sem gerði henni kleift að taka launalaust leyfi frá störfum frá 1. maí til 1. september, svo hún gæti sinnt bústörfum en hún var sauðfjárbóndi. „Með þessari breytingu á starfssamningi átti að gera henni ókleift að geta sinnt sínu búi, því henni var bannað að taka launalaust leyfi í maí.“
Gréta segir að orð mömmu hennar hafi verið tekin úr minnispunktum um þá fundi sem hún sótti um málið hjá sveitarfélaginu en þau voru eftirfarandi: „Í gegnum tíðina hef ég afsakað þáverandi skólastjóra bæði í huganum og orði að hann sé svo klaufalegur í samskiptum en er eiginlega komin á þá skoðun að þetta sé ekkert annað en einelti. Og hvert á maður að snúa sér í því? Jú samkvæmt eineltisstefnu Húnaþings er það til yfirmanna. Sennilega erfitt þegar það er um einn af æðstu yfirmönnum sem um ræðir.“
„Mamma talaði um það að verið væri að losa sig við hana. Hún hafði sinnt sínu starfi af metnaði og aldrei gerst brotleg í sínu starfi. Kom vel fram við sína skjólstæðinga og átti gott samband við þá og foreldra þeirra. En ekkert var metið. Hvorki hún né vinnan sem hún lagði fram,“ segir Gréta í samtali við Mannlíf og bætti við að á einum fundi um málið hafi starfsmaður sveitarfélagsins sem um, að „nýta tækifærið til að gera lítið úr henni og hennar starfi.“. „Á einum fundinum vogaði þessi einstaklingur sér að segja við hana: „Maður kemur í manns stað og það verður auðvelt“.“ Enn í dag er ekki búið að ráða starfsmann í námsver skólans að sögn Grétu. „Greinilega ekki jafn auðvelt og hann fullyrti að fylla í hennar skarð!“
Fjölskyldustefna fyrir sumar fjölskyldur
Bætti Gréta því við að sveitarfélagið „monti“ sig af því að vera með fjölskyldustefnu sem felur meðal annars í sér hagræðingu á vinnutíma starfsfólk í samræmi við fjölskylduaðstæður. „En það á greinilega ekki við um allar fjölskyldur,“ segir Gréta og hélt áfram. „Mamma og pabbi voru svo sannarlega fjölskylda og með sauðfjarbúskap. Hún var ráðin inn í vinnu með tilliti til fjölskylduaðstæðna þeirra og erils í sauðburði og myndi það kallast fjölskylduvænt. En að taka það ákvæði í burtu fellur svo sannarlega ekki undir þessa fjölskyldustefnu.“
Gréta er, eins og aðrir í fjölskyldunni, afar ósátt við þessa framkomu gagnvart mömmu hennar. „Þetta ofbeldi að þvinga starfmann til að samþykkja breytingu á samning þegjandi og hljóðlaust eða þá að vera þvingaður til að segja upp sjálfur er til skammar!
Gjörsamlega siðlaust þó það sé kannski löglegt.“
Fullyrðir hún að mál mömmu hennar sé ekki einsdæmi hjá sveitarfélaginu. „Sami leikur hefur verið leikinn aftur og aftur af þessum sama einstakling og sveitarstjórininni virðist vera sama, því þau virðast viðurkenna þessa ofbeldis og eineltismenningu sem er hér. Og það sorglega við þetta er að fólk þorir ekki að stíga fram. Því að ekkert er gert, öllu stungið ofaní skúffu og málin bara þögguð niður.“
Segir Gréta að lokum að hún hafi nýverið fengið þær upplýsingar að undirskriftarlisti sem skilað var inn á skrifstofu Húnaþings vestra um að mamma hennar héldi þessum samningi og þar af leiðandi vinnunni, hefði aldrei borist frá skólanum og í ráðhúsið en að starfsfólk ráðhússins hafi fengið upplýsingar um hann.