Í nýrri færslu á Facebook skrifar Grímur Atlason, framkvæmdarstjóri Geðhjálpar og eiginmaður Helgu Völu Helgadóttur þingmanns Samfylkingarinnar, um grein sem hann las eftir eldri mann á dögunum. Sá gamli var ósáttur við það hvað yngri kynslóðir færu illa með eldri borgara landsins. Grímur bendir á í færslu sinni að maðurinn hafi skautað fram hjá þeirri staðreynd að kynslóðin sem nú er komin á eftirlaun, beri töluverða ábyrgð á því „hvernig er að vera gamall á Íslandi í dag.“ Segir hann að mjög stór hluti þessa fólks hafi talið skynsamlegt að hafa skatta sem lægsta hér á landi. Segir hann að áhrifin komi ávalt betur og betur í ljós. Nefnir Grímur sem dæmi biðina eftir læknisþjónustu og geðþjónustu sem og ástandið á bráðamóttökunni og fleira í þeim dúr. Segir hann að lokum að ástandið haldi áfram að vera svona slæmt, „nema þjóðin átti sig á því að samfélag er þegar öll taka þátt og leggja sanngjarnan skerf til samneyslunnar.“
Færsluna má lesa í heild sinni hér að neðan.
„Ég las grein í blaði á dögunum eftir mann á góðum aldri. Hann var ósáttur við það hvernig við færum með eldri borgara þessa lands – fólkið sem byggði upp landið og samfélagið. Hann var ómyrkur máli og skammaði yngri kynslóðir. Þetta er ekki fyrsta greinin og án efa ekki sú síðasta sem ég les um þetta efni. Margir eru ósáttir við þau sem núna eru á vinnumarkaði og virðast hafa gleymt hinum eldri.