Kristinn Hrafnsson segir stjórnmálamenn og blaðamenn básúna óstaðfestum fregnum úr ranni Ísraelshers, um hroðaverk Hamas-liða. Segir slátrun framundan á Gaza.
Ritstjóri Wikileaks, Kristinn Hrafnsson skrifar kjarnyrtann pistil á Facebook í dag þar sem hann talar um áróðurstaktík Ísraelsmanna. „Hryllingurinn í útrás Hamas frá Gaza er ekki alveg talin duga til þjóðarmorðs á Palesínumönnum,“ segir hann og segir að vegna þess þurfi að „auka við hryllingssöguna“ og nefnir dæmi um óstaðfestar fregnir sem blaðamenn dreifi „af áfergju“. „Sögurnar af því að Hamas hafi skorið höfuð af börnum hafa nú farið á flug og eru heimildarmennirnir úr ísraelska hernum. Blaðamenn hafa ekki séð nein slík ummerki, þó að þeir hafi fengið aðgang að vettvangi voðaverkanna og viðurkenna því (þeir heiðarlegustu) að þetta sé óstaðfest. Það skiptir engu máli – þessu er kastað í forsíðuuppslætti með stríðsfyrirsögnum,“ skrifaði Kristinn og hélt áfram: „Stjórnmálamenn Vesturlanda eta þetta upp og básúna, allt til Hvíta hússins. Biden Bandaríkjaforseti vísaði til hryllilegra sagna af slátrun barna sem minntu á óhæfuverk ISIS.“
Og Kristinn segir að samanburðurinn við ISIS sé ekki nægur og því hafi þurft að draga inn eitthvað enn verra og nefnir orð Bandaríkjaforseta um að um sé að ræða versta mannskaða Gyðinga á einum degi síðan í Helförinni, sem dæmi. Þá hafi það ekki heldur verið nóg, heldur hafi háttsettur aðili í Ísraelshers sagt að nú væru Ísraelar að upplifa bæði þeirra 11. september og þeirra Pearl Harbour. Þá segir Kristinn að alls hafi 1200 Ísraelar verið drepnir síðan á laugardaginn og 1500 Palestínumenn. „Það mun ekki duga. Sé miðað við tölu látinna á liðinum árum verður að drepa a.m.k. 20 Palestínumenn fyrir hvern og einn Ísraela.“
Næstu orð ritstjórans eru hrollvekjandi: „Hundruð þúsunda hermanna hafa raðað sér upp í kringum gaddavírsgirðinguna sem umlykur Gaza og bíða eftir grænu ljósi til að gera allsherjarárás á svæðið þar sem yfir 2,2 milljónir manna búa – helmingurinn börn. Slátrun er í undirbúningi, bara spurning hvenær, því fyrst á að svelta fólkið. Þar er nú vatnslaust og matur á þrotum.“ Segir hann síðustu „stórslátrun“ á fólki á Gaza hafi verið árið 2014 þegar 2250 Palestínumenn, þar af 2/3 óbreyttir borgarar, voru drepnir á móti 71 Ísraela. „Munið að í hugum stjórnenda Vesturlanda skiptir líf Palestínumanns a.m.k. tuttugu sinnum minna máli en líf Ísraelsmanns.“