Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir segir orðróm í gangi um að náttúru- og landverndarsamtök séu ánægð með breytingar sem gerðar hafi verið á lagareldisfrumvarpinu, ósannan. Hvetur hún Íslendinga til að skrifa nafn sitt á undirskriftarlista gegn frumvarpinu.
„Tæplega 7000 manns hafa skrifað undir og nú verður fólk að spíta í lófana og skrifa undir og deila eins og mest það má. Undirskriftalista má finna efst undir færslunni.“ Þetta skifaði leikkonan Steinunn Ólína á Facebook í gær.
Í færslunni hefur hún orð á ákveðnum orðrómi sem hún segir ósannan:
„Heyrst hefur að keyra eigi þetta í gegnum þingið og sá orðrómur gengur meðal stjórnarandstöðu að náttúru- og landverndarsamtök séu ánægð með breytingar þær sem kynntar verði. Það er ósatt með öllu.“
Að lokum hvetur hún alla til að skrifa undir og birtir textann sem fylgir undirskriftarsöfnuninni.
„Þetta má aldrei verða að lögum! Ég hvet alla til að áframsenda á vini og þingmenn alla sem þið getið taggað.
„Við undirrituð skorum á Alþingi Íslendinga að hafna frumvarpi ríkisstjórnarinnar um lagareldi sem kveður á um gefa ótímabundin leyfi til nýtingar auðlinda okkar í íslenskum fjörðum endurgjaldslaust. Frumvarpið heimilar mengandi iðnaðarframleiðslu með sjókvíeldi á viðkvæmustu svæðum við strendur Íslands undir litlu eftirliti og hefur hagsmuni leyfishafa í fyrirrúmi á kostnað almannahagsmuna og náttúru landsins.“.“