Bubbi Morthens segir Sjálfstæðismenn beita Svandísi Svavarsdóttur ofbeldi vegna hvalveiðibannsins.
Söngvaskáldið stóryrta, Bubbi Morthens tekur upp hanskann fyrir Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra í færslu á Facebook. Þar segir hann Sjálfstæðismenn „hamast eins og naut í flagi“ við að reyna að snúa ráðherrann frá því að banna hvalveiðar. Segir hann að Svandís hafi sýnt kjark og þor undanfarin ár en að hann skilji líka „ef hún bognar undan því ofbeldi sem er verið að beita hana og leyfa drápin á ný.“ Í færslunni svarar hann svo gamalli spurningu sem hann spurði í frægu lagi. „Er Nauðsinlegt að skjóta þá svarið er tært NEI.“ Að lokum segir Bubbi að slagorð allra flokka í komandi kosningum ætti að vera kærleikur, samúð og samkennd.
Færsluna má lesa hér að neðan:
„Sjálfstæðsmenn hamast eins og Naut í flagi að reyna að snúa Svandís Svavarsdóttir frá því að að hafa stöðvað dráp á hvölum,útgerðin sem á Morgunblaðið hefur notað blaðið grímulaust í áróðri sínum fyrir hvaladrápum og vilja ráðherra úr embæti.Svandís hefur kjark og þor sem fáir hafa sínt undanfarinn ár,en eg skil líka ef hún bognar undan því ofbeldi sem er verið að beita hana og leyfi drápin á ný.En eg trúi ekki öðru en þetta sé þá seinasta vertíðinn sem við þurfum að lifa þá skömm að kristján Loftsson fái að stunda þetta prívart mál sitt undir væng floks sem er orðin svo lítill að skjólið er nánast horfið.Er Nauðsinlegt að skjóta þá svarið er tært NEI. Kærleikur samúð og samkend ætti að vera slagorð allra flokka í komandi kosningum.“