- Auglýsing -
„Sá sem á ekki landið sitt, á ekki neitt!
Frá 2018, lögðu VG á ráðin með að selja landið undan okkur með gjafakvótagjörningum samanber lagareldisfrumvarpið, með fyrirætlunum um að breyta fjörðunum okkar vestan lands og austan í grútarpolla með þrautpíndum eldisfiski og sláturhúsaiðnaði og afurðapökkunnarverksmiðjum. Gáfu gírugum mönnum Norðanlands heldur betur undir fótinn með að fara eins að í Eyjafirði, Ólafsfirði og víðar. Elskurnar mínar! Allt er fallt! Gjöriði svo vel! Árnar, firðina, hafið sjálft! Eftir hverju sælist þið og hvað fáum við fyrir greiðann? OK! Viljiði fjöllin? Mokið þeim burt!“ Þannig hefst hvöss Facebook-færsla Steinunnar Ólínu Þorsteinsdóttur sem hún birti í gær.
Næst telur leikkonan ástsæla upp nokkur atriði sem hún segir hafa versnað frá 2018:
„Frá 2018 hafa innviðir hrunið, almannaþjónusta versnað, húsnæðismarkaðurinn komist mjúklega í hendur leigu og eignarhaldsfélaga og eftirlitsstofnanir verið niður tættar svo brunaútsalan og náttúruspjöllin megi ganga sem greiðst og hraðast. VG kom Bjarna Benediktssyni í embætti forsætisráðherra í óþökk þjóðarinnar, manni sem aldrei hefði náð kosningu í slíkt embætti, sem ætlar nú að koma fjárlögum sínum í gegn hvað sem það kostar.
Hafiði lesið það plagg? Það plagg þolir bæði bið og yfirlegu.
VG er loks núna nóg boðið og þolir ekki við. Það var mikið segi ég nú bara og sér er nú hvert langlundargeðið.“
Að lokum segir hún að margir voni að Vinstri græn hætti fyrir fullt og allt á þingi.
„Ég held að margir voni að VG pakki nú bara saman fyrir fullt og allt. VG var aldrei neitt nema leiktjöld. VG sem sagðist ætla að standa vörð um náttúru landsins en skila okkur særðu og hoggnu búi sem aldrei hefur mengað meira en nú.
Að standa vörð um eigur okkar er aðalatriði í næstu kosningum. Við verðum að girða fyrir bullið. Hvaða flokkur ætlar að vernda landið fyrir þeim sem eiga ekkert nema ágirndina í brjósti sér?
Sá sem á ekki landið sitt, á ekki neitt.“