Seltjarnarnesbær ætlar sér að taka lóð sína á Orkureitnum svokallaða á Eiðisgranda, þegar samningur við Orkuna rennur út 2029.
Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri Seltjarnarness, staðfesti við Mannlíf að Seltjarnarnes ætlaði sér að fara aðra leið í lóðamálum en Reykjavíkurborg, með því að taka lóðina af bensínstöð Orkunnar á Eiðisgranda, þegar samningurinn rennur út 2029. Hyggst bærinn byggja íbúðir á lóðinni.
Í Kastljósi í gærkvöldi var sagt frá umdeildum samningi Reykjavíkurborgar við olíufélögin um lóðamál en Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sagði borgarbúa eiga skilið útskýringu á „gjafagjörningi sem fram fór þegar olíufélögunum voru afhentar bensínstöðvarlóðirnar á silfurfati.“
„Við eigum lóðina,“ sagði Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri Seltjarnaness í samtali við Mannlíf og bætti við: „Þetta er bara eins og hver annar leigusamningur“. Aðspurður hvort bærinn væri þannig að fara alveg öfuga leið við Reykjavíkurbæ í þessum málum, játaði Þór því. „Já, það er algjörlega þannig.“
Á vef Reykjavíkurborgar er fullyrðing Kastljóss um að byggja bætti um 700 íbúðir á reitum olíufélaganna, mótmælt og staðhæft að þær séu um það bil 450. Svo virðist sem fullyrðing Reykjavíkurborgar stangist á við fullyringar borgarinnar frá júní árið 2021 en þá var sagt frá áætlun borgarinnar um fækkun bensínstöðva en þar segir Dagur B. Eggertsson, þáverandi borgarstjóri, að byggja mætti um 700 til 800 íbúðir á umræddum lóðum.