Blaðamaður hitti séra Auði Eiri Vilhjálmsdóttur á kaffihúsi, en hún var tilbúin til þess að fara yfir málin augliti til auglitis, í tengslum við þær ásakanir sem á hana, stúlknaheimilið Bjarg og starfskonur heimilisins hafa verið bornar í gegnum tíðina. Hún hefur hingað til lítið tjáð sig um frásagnir stúlknanna af Bjargi og tengdra aðila, þegar eftir því hefur verið leitað. Hún hefur þó svarað því til að ásakanirnar hafi verið ósannar; uppspuni frá rótum. Hún heldur því enn statt og stöðugt fram í dag, en segist ekki skilja hvers vegna fólki myndi detta í hug að segja ósatt um svo alvarleg mál.
Í nýjasta tölublaði Mannlífs er að finna frásögn Sonju Ingvadóttur, sem dvaldi á Bjargi á árunum 1965 til 1967. Hún ber heimilið, forsvarsmenn þess og ekki síst séra Auði Eiri þungum sökum.
Í blaðinu er einnig brot úr viðtali við séra Auði Eiri, þar sem hún svarar spurningum blaðamanns um ásakanirnar.
Viðtalið birtist nú á vef Mannlífs í heild sinni.
Fannst vanta stúlknaheimili
Um tilurð Bjargs segir séra Auður Eir að henni hafi þótt vanta slíkt heimili fyrir stúlkur á Íslandi. „Ég var lögreglukona í Kvenlögreglunni og fannst að það þyrfti að gera eitthvað í þessum málum. Stúlkur voru sendar til Danmerkur á upptökuheimili, svo mér fannst nauðsynlegt að það væri heimili hérna og það ætti að vera í bænum – þetta var skólaheimili – svo þær gætu komið inn og farið svo bara út í sama umhverfi, þegar þær væru búnar að átta sig á því að það væri bara ansi gott að vera í skóla. Þannig kom það til.“
Aðspurð segist séra Auður Eir ekki kannast við það að upphaflega hafi staðið til að opna annars konar heimili, áður en Hjálpræðisherinn fékk verkefnið í hendurnar og skapaði Bjarg. Hún segir verkefnið strax hafa komið til hennar og Hjálpræðishersins.
Talið berst að þeim ásökunum sem bornar hafa verið á Bjarg, séra Auði Eiri og starfskonurnar í gegnum tíðina. Séra Auður Eir nefnir þá dómsmálið; kærumálið sem fór þannig að ekki kom til opinberrar málshöfðunar, vegna ónógra sannana.
„Fyrir mér eru þetta bara málalok og ég veit að það er rétt niðurstaða og er í þeirri aðstöðu að geta vitað það, því ég sá þetta sjálf. Svo fyrir mér er þetta bara búið mál.“
Aðspurð hvort ásakanir stúlknanna af Bjargi, sem hafa komið fram í gegnum tíðina, séu þá með öllu ósannar segir hún svo vera. „Já.“
Þegar blaðamaður spyr séra Auði Eiri hvort hún hafi gert sér það í hugarlund í gegnum tíðina hvers vegna þetta hafi farið eins og það fór segir hún svo ekki vera.
„Alls ekki, nei. Það væri bara tilgangslaust fyrir mig að vera að velta því fyrir mér, ég hef ekki hugmynd um það.“
Segir heimildirnar ósannar
Sögurnar sem komið hafa fram um Bjarg eru margar. Þegar blaðamaður minnist á sögu Marion Gray, sem ef til vill hefur hvað mest verið fjallað um, spyr séra Auður Eir hvort blaðamaður viti hvað Marion Gray sagði. Blaðamaður játar því.
„Fyrirgefðu, þá verð ég að spyrja þig, ert þú með aðgang að dómsskjölunum?“ Blaðamaður segir svo ekki vera, en bendir á að Marion Gray hafi sjálf sagt sögu sína í viðtali á sínum tíma.
„Já, í blöðunum? Allt í lagi. Nei, ég er bara að spyrja, af því að ég spurði þig hvaða heimildir þú hefðir. Af því að ég er að segja að þetta séu ósannar heimildir. Þess vegna spyr ég þig: Hvaða heimildir eru það?“
Líkt og áður sagði kom Marion Gray fram í viðtali á sínum tíma, en auk þess töluðu aðstandendur hennar og nærstaddir um mál hennar, til að mynda löngu síðar þegar DV gerði úttekt á málinu. Séra Auður Eir játar því. „Algjörlega.“
Maður veltir fyrir sér hvaðan svona kemur.
„Já, maður veltir því fyrir sér. Auðvitað veltir maður því fyrir sér. Hvernig í ósköpunum kemur þetta? Ég veit það ekki. Þú veist það ekki. Hver veit það?“
Í skýrslu vistheimilanefndar, sem og í eldri frásögnum kemur meðal annars fram að stúlkurnar voru sagðar hafa mátt þola harðræði og bæði andlegt og líkamlegt ofbeldi. Í sumum tilfellum kynferðislegt. Blaðamaður spyr séra Auði Eiri hvernig hún svari því.
„Ég segi: Það var ekki.“
Sonja Ingvadóttir segir í viðtali sínu að séra Auður Eir hafi sagt að það ætti að ala stúlkurnar á Bjargi í þrælsótta. Þegar það er nefnt við séra Auði Eiri segist hún ekki hafa sagt það.
„Aldrei nokkurn tíma. Og ég hef ekki hugsað það.“
Hún er þá spurð hvernig hún hafi litið á stúlkurnar; hvernig hún hafi viljað að uppeldi þeirra yrði háttað og hvernig komið yrði fram við þær.
„Bara af virðingu. Ég var þess handviss að það myndi geta hjálpað þeim svo mikið að komast aftur inn í nám, svo þær gætu haldið áfram í skólanum og lifað lífi sínu eins og þær vildu sjálfar.“
Segist ekki hafa ráðið neinu um Upptökuheimilið
Stúlkur sem dvöldu á Bjargi og starfskonur á Upptökuheimilinu í Kópavogi hafa sagt bæði séra Auði Eiri og aðrar starfskonur hafa sent stúlkurnar í einangrun þar. Aðspurð segist séra Auður Eir aldrei hafa sent stúlkurnar í einangrun.
Hún segir stúlkurnar hafa verið sendar þangað til að mynda þegar eitthvað hafi komið upp á í hópnum.
„Já, það þarf að gera svoleiðis. Þetta er í rauninni bara eins og gerist, þegar krakkar eru teknir út úr skólastofunni. Það þarf bara stundum að leysa upp hópa. Því þetta þarf að vera þolanlegt, hvort sem maður er í vinnu eða skóla. Það þarf að vera þolanlegt að vera þar. Bara eins og á blaðinu hjá þér eða í kirkjunni hjá mér. Það verður að vera hægt að vera og það þarf stundum bara að gera eitthvað, þótt það sé voða leiðinlegt. Og einhver sem gerir eitthvað, það er ekki gott fólk. Það þykir ekki vera gott fólk sem tekur til einhverra ráða. En það verður bara að gera það.“
Blaðamaður spyr séra Auði Eiri þá út í aðstæður stúlknanna þegar þær dvöldu á Upptökuheimilinu.
„Ég held að þær hafi bara verið þar. Á vegum Upptökuheimilisins og þeirra sem stjórnuðu þar. Þá voru þær á þeirra vegum, ekki mínum. Ekki Bjargs.“
Sonja, ásamt öðrum stúlkum, hefur lýst vistinni á Upptökuheimilinu sem afar slæmri og lítilsvirðandi, þar sem þær voru hafðar í einangrun svo dögum skipti, með ekkert við að vera. Þær, sem og starfskonur Upptökuheimilisins hafa sakað starfskonur Bjargs um að hafa óskað eftir slíkri einangrun, þar á meðal séra Auði Eiri.
„Já, þær verða bara að gera það og tala við Upptökuheimilið. Ég held það bara. En þegar þær eru þar, þá eru þær á vegum Upptökuheimilisins.“
Séra Auður Eir segir samband sitt við starfskonur Upptökuheimilisins hafa verið ágætt.
„Eðlilegt, fannst mér. Þær voru þarna og þetta heimili var opið til þess að stúlkurnar fengju að vera þar stundarkorn. Það var ekkert, hvorki eitt eða neitt. Þetta var bara svona venjulegt og venjuleg samtöl sem við áttum. „Nú er Sigga komin, nú sækjum við Siggu,“ og svo framvegis. “
Séra Auður Eir þvertekur fyrir það að hafa fyrirskipað að stúlkur væru látnar dvelja á Upptökuheimilinu í viku í litlu herbergi með járnrúmi, þar sem glugginn var spenntur aftur.
„Ég hef ekki sagt það.“
Þú baðst ekki um neitt slíkt?
„Nei.“
„Við ákváðum ekki hverjir áttu að vera á Bjargi“
Sonja segir séra Auði Eiri hafa sagt við hana að hún ætti ekkert að vera að hugsa um móður sína; henni þætti ekkert vænt um dótturina lengur.
„Ég hef aldrei sagt þetta,“ svarar séra Auður Eir þegar það er borið undir hana.
Þegar Sonja yfirgaf Bjarg segir hún séra Auði Eiri hafa hótað henni því að ef hún yrði ófrísk og eignaðist barn, yrði hún send í fangelsi til 25 ára aldurs. Séra Auður Eir gengst ekki við þessu.
„Ég hef bara aldrei sagt þetta. Aldrei.“
Aðspurð hvers vegna hún haldi að þetta sé borið upp á hana segist hún ekki vita það. „Og þú veist það ekki heldur. Líklega veit enginn það. Það er það sem við ekki vitum.“
Forstöðukonan á Upptökuheimilinu í Kópavogi hefur sagt að séra Auður Eir hafi viljað vera harðari í vist stúlknanna á Upptökuheimilinu heldur en hún sjálf.
„Þetta er ekki rétt,“ segir séra Auður Eir þegar blaðamaður ber þetta undir hana. Hún segir það heldur ekki rétt að stúlka hafi verið lokuð inni á Bjargi í níu mánuði eftir að hún var orðin sjálfráða, líkt og Sonja hefur lýst.
„Við ákveðum ekki hverjir áttu að vera á Bjargi og hverjir ekki. Það voru barnaverndarnefndirnar. Svo það er algjörlega útilokað að við höfum ráðstafað einni eða annarri stúlku. Þær voru, eins og þú veist af rannsóknarvinnunni þinni, vistaðar af barnaverndarnefndinni og barnaverndarnefndirnar ákváðu hvenær þær komu og hvenær þær fóru.“
Séra Auður Eir segir það ekki rétt að forsvarsmenn Bjargs hafi hreinlega leitað að stúlkum og beðið um þær inn á heimilið.
„Þetta er bara svo fjarri. Bara algjörlega fjarri.“
Aðspurð hvort heimilið hafi grætt á stúlkunum segir hún svo ekki vera. Hún segir þá peninga sem fengust greiddir með hverri stúlku eingöngu hafa farið í uppihald þeirrar sömu stúlku. „Algjörlega.“
„Fullkomlega, algjörlega og óafturkallanlega viss“
Talið berst að ásökunum um kynferðislegt ofbeldi, til að mynda það að stúlkurnar hafi verið kysstar góða nótt og tungum jafnvel þröngvað upp í munn þeirra, meðal annars af forstöðukonunni Önnu Onu, líkt og Sonja lýsir sjálf.
„Ég segi að ég sé áreiðanlega, fullkomlega og óafturkallanlega sannfærð um að þetta sé uppspuni.“
Séra Auður Eir svarar þessari spurningu ákveðið og afdráttarlaust og blaðamaður hefur á orði hve viss hún virðist.
Séra Auður Eir segist algjörlega viss í sinni sök og talar um ósannsögli sem hugsanlega geti lagt líf fólks í rúst. Hún spyr hvað manneskja eigi að gera sem sé ásökuð um brot. „Hvað á að gera með svona ásakanir?“
Blaðamaður spyr hvað séra Auði Eiri finnist sjálfri.
„Svo ég tali nú bara um þetta mál þá er ég fullkomlega, algjörlega og óafturkallanlega viss um að þessar konur hafa aldrei beitt þessar stúlkur kynferðislegri áreitni. Þetta eru hryllilegustu ásakanirnar vegna þess að kynferðisofbeldi leggur auðvitað líf fólks í rúst. En ásakanir um kynferðisofbeldi gera það líka. Og ég held að þegar við hugsum um svona, verðum við eiginlega að reyna að setja okkur í spor. Eins og þú sjálf, ef þetta væri raunveruleikinn þinn, að þú værir ásökuð, ekki um þjófnað í búð heldur um kynferðisofbeldi. Ég held að þér þætti það ekki skemmtilegt.“
Blaðamaður bendir þá á fjöldann; allar þær stúlkur, konur, sem hafi stigið fram og fólkið sem hafi vitnað um málið. Hvernig geti staðið á því að þær séu svona margar.
„Þær hafa ekki allar vitnað um þetta. Þú hefur bara talað við þær sem hafa vitnað um það. Sumar þeirra hafa sagt að þetta var ekki svona. Það var aldrei neitt kynferðislegt áreiti. Þú hefur bara ekki hitt þær. Ég hef hitt þær.“
Séra Auður Eir er spurð hvernig geti staðið á því að konurnar virðist sannarlega hafa verið í einhvers konar áfalli og átt erfitt eftir dvölina, sem aðstandendur og aðrir tengdir hafa einnig vitnað um. Líkt og áður hefur komið fram hefur líf sumra þeirra verið sorgarsaga og endað illa í sumum tilfellum.
Hún segist ekki vita hvernig standi á því. „Ég bara hef ekki hugmynd um það.“
Séra Auður Eir segist ekki kannast við nokkurs konar ofbeldi innan Hjálpræðishersins.
„Alls ekki. Því fer öldungis fjarri. Nú er ég svona jafn viss og ég var um kynferðisáreitnina. Nei, öldungis ekki.“ Hún er ekki lengur innvinkluð í Hjálpræðisherinn og segir nokkuð langt síðan hún hætti þar. Hún segir ekkert sérstakt hafa valdið því að hún hætti þar, annað en að hún hafi haft önnur verkefni. Ekkert hafi gengið þar á.
„Nei, það er ekkert sem ég hef upp á Hjálpræðisherinn að klaga. Eða Hjálpræðisherinn upp á mig að klaga. Ekkert slíkt.“
Þegar blaðamaður hefur á orði að margir hafi talað um að hún sjálf hafi haft töluvert um rekstur Bjargs að segja, segir hún það ekki rétt.
„Þessu var stjórnað af þeim starfskonum sem þarna voru og svo yfirstjórn Hjálpræðishersins. Ég var ekki í yfirstjórn Hjálpræðishersins. Ég var í stjórn heimilisins,“ segir hún þegar hún er beðin um að lýsa stjórnarfyrirkomulaginu.
„Ég réð svosem ekki neinu. Ekki þannig. Þetta var á vegum Hjálpræðishersins og ég var hluti af Hjálpræðishernum. Ég var hluti af heimilinu. En ég var ekki aðalatriði í þessari stjórn.“
Hún segist ekki hafa ráðið á bak við tjöldin, líkt og margir hafa lýst.
„Nei. Ég gerði það ekki.“ Hún segir engar ákvarðanir hafa verið í hennar höndum.
Tengsl við menntamálaráðherra og barnaverndarnefnd
Samtalið berst að þeirri niðurstöðu að ekki var höfðað formlegt mál á hendur Bjargi á sínum tíma. Menntamálaráðuneytið var yfir vistheimilum og átti þátt í þeirri ákvörðun, enda fór málið meðal annars inn í ráðuneytið þegar það var rannsakað og fór á milli embætta.
Og menntamálaráðherra á þessum tíma er föðurbróðir þinn.
„Já.“
Blaðamaður bendir á að fólk hafi velt fyrir sér þessum tengslum. Hvort þau hafi eitthvað haft um málið að segja. Aðspurð hvað henni finnist um það svarar séra Auður Eir:
„Ekkert. Það hefur áreiðanlega ekki neitt að segja. Engan veginn. Þó ekki væri. Því svona mál verða bara að hafa sinn gang. Það verður að reka svona mál til þrautar, allra aðila vegna. Þannig að það er útilokað. Þetta er bara þannig.“
Málið fór á sínum tíma í gegnum barnavernd, hvar móðurbróðir séra Auðar Eirar, séra Gunnar Árnason sat.
Aðspurð um mat hennar á því hvort mennirnir tveir hafi verið til þess fallnir að gæta hlutleysis í störfum sínum, vegna þess að hún hafi verið náfrænka þeirra, segir hún:
„Ég segi að það sé áreiðanlegt og ég er fullviss um að þeir hafi ekki beitt sér á nokkurn einasta máta til þess að hlífa frænku sinni, enda ekki nokkur einasta ástæða til þess. Það hefði verið bara skelfilegt. Skelfilegt fyrir mig og skelfilegt fyrir þá, held ég. Svona mál verða að ganga fyrir sig. Ég er mjög glöð yfir því að þetta bara gekk sinn gang og fékk þessa niðurstöðu vegna þess að ég er sannfærð um, eins og ég hef sagt áður í viðtalinu, að þetta er rétt niðurstaða. Og ég er svona að velta því fyrir mér af hverju er alltaf verið að taka þetta upp aftur.“
Hvað heldur þú?
Séra Auður Eir lækkar róminn. „Fólk hefur svo gaman að þessu.“
Fólk hefur gaman af þessu?
„Já. Sjáðu bara allt umtalið sem kemur hvorki mér eða þér við. Allt umtalið í þjóðfélaginu. Hvernig fólk talar hvert um annað. Ég bara held að það verði okkur að falli ef við höldum þessu áfram. Við eigum ekki að tala svona hvort um annað. Við eigum ekki að vera að segja hluti sem við höfum ekki neina einustu hugmynd um. Það er hættulegt fyrir okkur sem þjóðfélag.“
Finnst þér þetta hafa verið þannig?
„Það finnst mér. Af hverju ert þú að taka þetta upp?“
Vistheimilanefnd
Séra Auður Eir vill vita hvort blaðamaður treysti ekki dómsniðurstöðunni.
Blaðamaður bendir séra Auði Eiri á, sem hún veit, að vistheimilanefnd taldi í skýrslu sinni, eftir úttekt, rannsóknir og viðtöl, að líklegra en ekki hafi verið að stúlkurnar á Bjargi hafi mátt þola ofbeldi og illa meðferð meðan þær dvöldu þar. Séra Auður Eir spyr hvaðan sú setning komi, sem blaðamaður svarar sem er, að komi úr skýrslu vistheimilanefndar.
„Já, frá Róbert Spanó. Já. Takk fyrir að segja þetta.“
Blaðamaður furðar sig á þökkunum.
Hvað áttu við?
„Vegna þess að fyrir mér er þetta svo lögfræðileg spurning, hvort vistheimilanefnd hefur lögfræðilegan rétt til að vefengja niðurstöðu dóms. Þetta er lögfræðileg spurning. Gífurlega alvarleg spurning. Ég bara þakka þér hjartanlega fyrir að segja þetta.“
Að vistheimilanefnd hafi komist að þessari niðurstöðu?
„Já. Mörgum árum eftir dómsniðurstöðu.“
Blaðamaður bendir á rannsóknarvinnu vistheimilanefndar og það að tekin hafi verið viðtöl við málsaðila; forstöðukonuna á Upptökuheimilinu, starfsfólk, séra Auði Eiri sjálfa, við konur sem dvöldu á Bjargi.
„Þetta er frelsi.“
Séra Auður Eir brosir allt í einu breitt.
„Takk.“
Hún teygir handleggina út hvorn í sína áttina á borðinu sem við sitjum við og hallar höfðinu aftur á bak. Hún hleypir út andardrætti, eins og hún sé fegin. Svo lítur hún aftur á blaðamann og klappar höndunum saman.
Hún segir það allt í lagi að blaðamaður viti ekki hvers vegna hún þakki honum fyrir með slíkum tilþrifum.
„Ég er að þakka þér fyrir það að hafa trú á vistheimilanefnd, frekar heldur en dómi héraðsdóms.“
Hún flissar.
Hún segir blaðamann taka málið upp á grundvelli vistheimilanefndar.
„Mér finnst það. Ég held að þú gerir það. Ég held að þú, já, þú vitnar í vistheimilanefndina fram yfir dóminn. Mér finnst það. Gerirðu það ekki? Er þetta misskilningur hjá mér?“
Séra Auður Eir spyr hvort það klingi engum bjöllum hjá blaðamanni að ástæða hafi verið talin til áframhaldandi rannsóknar vistheimilanefndar eftir að dómur var fallinn, eins og hún orðar það. Hvort það klingi engum bjöllum um réttarkerfið.
Blaðamaður bendir séra Auði Eiri á að hægt sé að taka mál upp aftur síðar ef rökstudd ástæða þyki til þess.
„Fínt, fínt, fínt. Ég þarf ekki… Þetta er bara fínt, takk fyrir bara. Ég segi bara takk innilega fyrir.“
„Þær eru allar að segja ósatt“
Konurnar halda þessu til streitu, svona löngu síðar. Eru þær allar að segja ósatt?
„Þessar ásakanir sem þú last fyrir mig eru rangar.“
Þannig að þær eru allar að segja ósatt?
„Þær eru allar að segja ósatt.“
Aðspurð hvort einhverjir annmarkar hafi verið á starfsemi Bjargs segir hún:
„Bara eins og eru í öllum samskiptum. Það eru bara annmarkar í samskiptum fólks, það verður ekki hjá því komist.“
Eitthvað sem hugsanlega gæti talist til andlegs ofbeldis?
„Nei.“
Hún segist ekki telja að neinu hafi verið við upprunalega niðurstöðu ríkissaksóknara að bæta á sínum tíma, þegar málið var látið niður falla.
„Nei, engu. Af því að ég álít að þetta þjóðfélag sem við búum í sé gott. Við verðum að standa vörð um það og réttlæti þessa þjóðfélags.
Aðspurð hvort hún sjái eftir einhverju segir hún svo ekki vera.
„Nei. Það held ég ekki. Ég gæti kannski ekki alveg sungið eins og Edith Piaf, „Non, je ne regrette rien“.“
Hún hlær.
„Nei, ég taldi að það væri rétt að stofna þetta heimili. Það var kannski vitlaust. En ég taldi það vera rétt og ég gekkst fyrir því.“
Aðspurð hvers vegna það gæti hafa verið vitlaust segir hún:
„Þessar stúlkur sem voru þar, margar hverjar, telja sig hafa orðið miklu óhamingjusamari á eftir.“
Skilurðu eitthvað í því?
„Ég harma það, vegna þess að ég held að þær hefðu getað orðið hamingjusamar. Ég held að þetta hefði átt að geta orðið þeim til gleði.“
Hvers vegna heldurðu að það hafi ekki gerst?
„Ég veit það ekki. Og ég veit ekki hvernig ég gæti vitað það.“
„Hrikalegur áfellisdómur þessarar nefndar“
„Við getum ekki haft þjóðfélag sem er að drepast úr kjaftagangi,“ segir Séra Auður Eir. „Þetta fer með okkur, þetta eyðileggur okkur. Hvað eigum við að gera? Við, fólkið í vesturbænum og austurbænum, við bara verðum að treysta á ykkur, fólkið sem er að skrifa. Við verðum að treysta því. Eins og ég sá, þegar fólkið talaði við mig. Daginn út og daginn inn hringdi fólk í mig og skrifaði svo eitthvað endemis kjaftæði. Mogginn var eina blaðið sem aldrei fór með falsfréttir. Mér finnst það voða gaman, þegar ég les Moggann á morgnana. Það er dásamlegt.“
Hún heldur áfram. „Dómurinn sagði að það var engin ástæða til að fara lengra með málið. Var það kannski af því að Gunnar var móðurbróðir minn og Gylfi var föðurbróðir minn? Það er hrikalegur dómur að segja það. Það er hrikalegur dómur.
Hugsaðu um þig. Þú ert eitthvað og það er sagt að það sé af því að hún Sigríður sé móðursystir þín. Það er hrikalegt. Það er hrikalegur dómur. Hérna kemur svo Róbert Spanó og segir: „Það eru meiri en minni líkindi á því að þetta hafi verið satt, allt þetta sem var sagt.“ Það er agalegur dómur. Hrikalegur áfellisdómur þessarar nefndar. Það verður bara að hafa það, ég verð bara að lifa við þetta og ég get vel lifað við þetta en þetta er hrikalegur dómur fyrir þetta þjóðfélag, finnst mér.
Ég veit ekki af hverju þessar stelpur segja þetta, ég hef ekki hugmynd um það. Þú veist það ekki. Enginn veit það. Eða, ég veit ekki hvort einhver veit það – en ég veit það ekki. Ekki veist þú það. En þú ætlar samt að segja það. Þú veist ekki hvort það er satt. Eigum við öll rétt á rödd okkar, eigum við öll rétt á að segja bara eitthvað, eins og fólk skrifar á samfélagsmiðlana? Eigum við öll rétt á að skrifa bara eitthvað um hvert annað?“