Mánudagur 23. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Séra Bjarni Karlsson flutti minningarorð um Þorvald Halldórsson: „Hvar sem hann kom fylgdi sómi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þorvaldur Halldórsson, söngvari var jarðsettur í dag en jarðarförin fór fram í Hallgrímskirkju.

Séra Bjarni Karlsson flutti minningarorð um Þorvald Halldórsson en jarðarför hans fór fram í dag í Hallgrímskirkju. Hægt er að lesa minningarorðin í heild sinni hér fyrir neðan:

Vinur okkar allra, Þorvaldur Halldórsson, var kvaddur hinstu kveðju frá Hallgrímskirkju í dag að viðstöddu fjölmenni. Hér eru minningarorðin sem ég flutti:

Þorvaldur Halldórsson var fæddur á sjúkrahúsi Siglufjarðar þann 29. október árið 1944. Hann var fyrsta barn hjónanna Ásu Jónasdóttur og Halldórs Jóns Þorleifssonar. Fyrir átti Halldór soninn Gest Heiðar sem fæddur var árið ´37. Þorvaldur var á fimmta ári þegar fjölskyldan flutti í eigið húsnæði að Kirkjustíg 5 á Siglufirði, en þá höfðu bæst í systkinahópinn þau Sigríður, Valgerður og Leifur. Í því húsi átti Þorvaldur uppvöxt sinn á ástríku heimili þar sem enn áttu eftir að líta dagsins ljós systkinin Jónas, Þorleifur og Pétur.

Þorvaldur þótti natinn og góður stóri bróðir, ekki síst við Sigríði og Valgerði sem hann tók með í barnamessur og á stúkufundi þegar aldur leyfði. Snemma kom tónlistaráhuginn í ljós því strax á sjöunda ári var Valdi farinn að standa uppi á stúkufundum og leika á munnhörpu sem hann hafði eignast og náð tökum á. Ungur fékk hann tilsögn í píanóleik í tónlistarskólanum í plássinu, en þar sem ekkert píanó var til að æfa sig á milli tíma beið frekara nám uns Sigursveinn D. Kristinsson stofnaði tónskóla sinn á Siglufirði og bauð aðgang að hljóðfærum. Hóf Þorvaldur þá jafnframt að leika á klarinett með lúðrasveitinni. Þegar bræðurnir Leifur og Jónas fóru líka að læra á hljóðfæri færðist mikið líf í litla húsið við Kirkjustíg og muna systurnar mömmu sína vinnandi sín verk í eldhúsinu en með hugann við tónlistina. Væri hún hún ekki fyllilega sátt við útkomuna þegar einhverju lagi lauk kallaði hún: Endurtaka!

Þorvaldur óx úr grasi á síldarárunum og þegar sumarið gekk í garð á Sigló breyttist tilveran heldur betur. Voru börn þá gjarnan send í sveit og þar var Þorvaldur engin undantekning.

- Auglýsing -

Móðurættin var öll á Húsavík en föðurættin heima á Sigló. Sigríði systur hans farast svo orð: „Við systkinin nutum þess að eiga gott frændfólk í nágrenni og áttum þar umhyggju og elsku, til viðbótar við það sem okkur var veitt heima. Þar var lagður grunnur að þeirri umhyggju og elsku sem við systkinin höfum alltaf sýnt hvert öðru. Gestur ólst ekki upp með okkur, en á fullorðinsárum var hann orðinn einn af okkur.“ Að Þorvaldi gengnum eru hin systkinin öll enn á meðal okkar að hálfbróðurnum Gesti Heiðari frátöldum sem lést í apríl 2018. Blessum við minningu hans einnig á þessum degi.

Úr Barnaskólanum hafði leiðin legið í Gagnfræðaskóla Siglufjarðar. Átti Þorvaldur strax gott með nám og ástundun. Að áeggjan skólastjórans tók hann landspróf og fór í Menntaskólann á Akureyri. Tónlistin tók þó alltaf yfir og eftir fyrsta námsvetur þar sem Siglfirska hljómsveitin Fjórir fjörugir var á blússandi siglingu og líka hið svonefnda Busaband í MA var ljóst að hljómsveitalífið var það sem hreif ungan hæfileikamann.

Fyrsta stóra tækifærið fékk Þorvaldur er hann var fenginn til liðs við hljómsveit Hauks Heiðars Ingólfssonar sem á þeim árum hélt uppi stuðinu á Hótel KEA. Tvítugur er hann kominn til liðs við Hljómsveit Ingimars Eydal í Sjallanum. Á sama tíma var Vilhjálmur Vilhjálmsson að bætast í hópinn. Síðar átti Helena Eyjólfsdóttir eftir að standa þar á sviðinu eins og við munum. Á þessum gullaldarárum, þegar enn var síld í sjó og óskalög sjúklinga og sjómanna ómuðu á Gufunni ásamt lögum unga fólksins, var hljómsveit Ingimars Eydal einmitt orðin að stórveldi ekki bara norðan heiða heldur í þjóðarsálinni. Smellurinn Á sjó réði mestum straumhvörfum á landsvísu og kom út á algjörri metsöluplötu hjá SG Hljómplötum. Síðar kom lag Þorvaldar við texta Ómars Ragnarssonar; Ó, hún er svo sæt sem líka seldist í bílförmum á vínyl-plötu. Með Helenu söng Þorvaldur síðar margt eins og allir muna.

- Auglýsing -

Á þessum annasömu árum lágu leiðir Þorvaldar saman við Gunnhildi Hjörleifsdóttur, sem ættuð er frá Hrísey dóttir hjónanna Láru Baldvinsdóttur og Hjörleifs Jóhannssonar. Þau eignuðust saman fjögur börn, Leif árið ´63, Halldór Baldur árið ´67 og Ásu Láru ´73. Árið ´62 höfðu þau eignast stúlkubarn sem lést við fæðingu.

Árið sem Ása Lára fæðist var skilnaður orðinn með Þorvaldi og Gunnhildi. Um tíma kom þá Þorvaldur fram með hljómsveitinni Pónik hér sunnan heiða og einnig með hljómsveit Ólafs Gauks.

Er leiðir hans og Margrétar Scheving lágu saman var hún einstæð móðir með þrjú börn. Foreldrar hennar voru Jónheiður Scheving Steingrímsdóttir og Páll Sveinsson Scheving sem bjuggu í húsinu Hjalla í Vestmannaeyjum og þar hafði hún átt uppeldi ásamt eldri systkinum sínum, Helgu Rósu og Sigurgeir Scheving.

Margrét og Þorvaldur hófu sína samleið 1973 og fóru fljótt að búa í íbúð Margrétar að Skúlaskeiði 36 í Hafnarfirði. Börn hennar af fyrra hjónabandi eru Páll fæddur árið ´63, Viktor fæddur ´64 og Heiðrún árið ´66. Voru þau því öll á grunnskólaaldri þegar Þorvaldur kom inn í þeirra tilveru. Valdi var þannig innréttaður að hann tók virkan þátt í öllu heimilishaldi; matargerð, þrifum og öðru slíku. Þegar fjölskyldan flutti til Eyja eftir gos 1974, þar sem þau bjuggu um árabil, þurfti að byggja upp heimili að nýju og minnist Heiðrún þess þegar Valdi tók sig til og saumaði gardínur í saumavél. Þekkti hún engan karlmann annan sem kunni á saumavél og ekki gleymir hún því er hann saumaði handa henni rúmföt fyrir ein jólin. Já ,Valdi var jafnréttissinnaður og flokkaði verkefni hversdagsinsathafnir daglegs lífs ekki eftir kynferði. Á sólríkum sumardegi, þann 6. júlí 1975, gengu þau Margrét í hjónaband hér í þessu Guðshúsi og var það Karl Sigurbjörnsson, síðar biskup, sem gaf þau saman.

Er gott að mega geta þess að í minningu Ásu Láru, yngstu dóttur Þorvaldar sem með árunum eignaðist gott samband við föður sinn, var heimili Pabba og Grétu alltaf einkar kærleiksríkt og öllum opið sem þurftu.

Annað sem alltaf einkenndi samskipti Valda og Grétu í minningu ungu kynslóðarinnar var það hvað hann var alltaf bálskotinn í henni. Sonurinn Þorvaldur er fæddur árið 1979 og líka hann samsinnir því að á köflum hafi þetta getað verið smá vandræðalegt einkum á unglingsárum, en samt alltaf svo gott. Við sem umgengumst Þorvald og Margréti munum vel hvernig Þorvaldur umbreyttist jafnan þegar hún kom í salinn: Drottningin var mætt, fallegasta konan í húsinu og hún fékk fókusinn.

Árið 1977 höfðu þau umskipti orðið að Þorvaldur og Margrét eignuðust sterka trúarreynslu sem breytti hugarfari þeirra varanlega. Á all löngu tímabili lagði Þorvaldur allan dægurlagaflutning til hliðar en helgaði sig þjónustunni við fagnaðarerindið. Auk þess var hann fagmenntaður jafnt sem rafvirki og smiður svo hann gat alltaf unnið fyrir sér á meðan slitgigtin, sem síðar átti eftir að plaga hann, lét ekki á sér kræla. Eignuðust þau marga góða vini í kristilega starfinu á þessum árum, m.a. sr. Jónas Gíslason og hjónin Gísla Friðgeirsson og Lilju Sigurðardóttur sem störfuðu á vegum KFUM&K, einnig Halldór Lárusson og Árnýju Björgu Blandon, sem um skeið störfuðu í Vestmannaeyjum á vegum samtakanna Ungs fólks með hlutverk ásamt fleira góðu fólki.

Minnast börn Margrétar frá þessum árum að reglulega fylltist stofan á heimilinu, Hjalla við Vestmannabraut 57, af alls konar fólki sem komið var saman í söng og bæn með tilheyrandi gleði og ánægju þannig að ómaði út á götu. Þetta var börnunum, sem voru að stíga inn í unglingsárin, ný upplifun sem oft á tíðum gat verið spennandi en um leið krefjandi. Með þessum breytta lífsstíl foreldranna fylgdu nýjar venjur, upplifanir og reynsla sem litað hafa líf þeirra allra.

Er ótal margs að minnast frá þessum tíma í huga fjölskyldunnar og þegar ég sjálfur kom til prestsstarfa í Eyjum tíu árum eftir að þau fluttu upp á land, ilmaði enn í lífi samfélagsins sagan góða um góðu fréttirnar sem Þorvaldur og Margrét höfðu flutt í tali og tónum svo eftir var tekið.

Árið ´81 var fjölskyldan komin í Kópavoginn. Margrét var við störf sem klinka á tannlæknastofu en Þorvaldur fór til ýmissa starfa, afgreiddi í íþróttavöruverslun eða vann við smíðar og rafvirkjun eftir því sem hentaði meðfram guðfræðinámi við HÍ. Sem fyrr voru mörg járn í eldinum því meðfram brauðstriti, uppeldi og háskólanámi tóku þau hjónin virkan þátt í starfi samtakanna Ungs fólks með hlutverk sem þá var vaxandi þáttur í starfi Grensáskirkju með stuðningi sr. Halldórs Gröndal. Voru þetta miklir gróskutímar í trúarlífi þjóðarinnar líkt og mörg okkar muna, æskulýðsstarf var í örum vexti vítt um land, sunnudagaskólar blómstruðu og gildi kristinnar trúar ekki véfengt sem gildur þáttur í uppeldi og almennri farsæld.

Á þessum árum hófst hið gefandi samstarf Valda og Grétu við hjónin Pál Magnússon og Elvu Dröfn Ingólfsdóttur. Mynduðu þau hljómsveitina Án skilyrða sem náði eyrum ótal margra með kristinni boðun, græðandi og styrkjandi textum og um fram allt einlægum vilja til að segja frá Jesú. Við brúðkaup þessara góðu vina ómaði í fyrsta sinn opinberlega lag Margrétar við 23. Davíðssálm: „Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.“ Sem orðið hefur að lifandi blessun fyrir íslenska þjóð.

Á góðu tímabili voru Þorvaldur og Gréta í samvinnu við sr. Solveigu Láru Guðmundsdóttur í Seltjarnarneskirkju. Þar var líka Eirný Ásgeirsdóttir, vinkona þeirra og sannur stólpi í kirkjustarfi.

Þegar þessi ár eru rædd rifjast upp að Þorvaldur yngri var ekki nema 8 ára þegar hann hóf sinn feril syngjandi uppi á sviði með foreldrum sínum, en í dag starfar hann meðal annars sem söngvari í Þýskalandi.

Um all langt skeið vann Þorvaldur hjá Þýsk/íslenska þar sem vinur þeirra Ómar Kristjánsson var með sína starfsemi. Margrét starfaði þá um tíma á Reykjalundi, líka sem meðferðarfulltrúi á BUGL, síðar var hún sálgæsluþjónn í Laugarneskirkju og í kjölfarið nam hún félagsráðgjöf við HÍ. Allan tímann var hugur og hjarta þó bundið þjónustunni við kirkju Krists í landinu. Ógleymanlegur er í sjóði minninganna sá tími er hjóna-sveitin Án skilyrða fór túrandi um landið haldandi samkomur í kirkjum vítt og breitt í samvinnu við sóknarpresta. Jón Þór Ólafsson og Ólöf Högnadóttir lánuðu sendiferðabílinn sinn og það var stemmning og gleði.

Er Þorvaldur og Gréta komu til Laugarneskirkju tók húsið að ilma af þekkingu þeirra á Drottni. Ógleymanlegar eru kvöldstundirnar Þriðjudagur með Þorvaldi þar sem Gunnar Gunnarsson sat við flygilinn. Á löngu tímabili var starf Vina í Bata sem Margrét stóð að í samvinnu við Margréti Eggertsdóttur og Helgu Hróbjartsdóttur, rekið í beinu framhaldi af söngstund Þorvaldar. Þannig tvinnaðist tilboð um persónulegan vöxt og þroska saman við þátttöku í yndislegri lofgjörð og bæn, svo að á köflum var eiginlega of margt fólk í húsinu.

Um þetta leiti var ég kominn til starfa sem sóknarprestur í Laugarneskirkju og naut þess ómælt að eiga styrk í þeim hjónum á svo mörgum sviðum sem allt miðaði að því einu að lyfta upp nafni Jesú. Þá voru líka Kolaportsmessur að hefja göngu sína í samvinnu Jónu Hrannar Bolladóttur og þeirra hjóna. Hefur Jóna margoft látið þess getið að engar kirkjuklukkur hafi ómað skærar og laðað betur að en Þorvaldur að syngja dægurlög áður en messa skyldi í Kolaportinu. Það sama gilti er kom að hinum mánaðarlegu gospelkvöldum í Hátúni 10 sem þar fóru fram árum saman. Þorvaldur var einfaldlega gild ástæða fyrir góða Íslendinga til þess að mæta á svæðið og láta sjá sig, því um leið og hann birtist birti yfir öllu sama hvernig fólki annars leið. Og þegar hann svo fór aftur að sjást og heyrast í danslagabransanum á Broadway og víðar var honum fagnað eins og týndum syni.

– Tónlist: „Ó, hún er svo sæt“ – Flutningur: Þorvaldur yngri

Þjóðin elskaði Þorvald Halldórsson vegna þess að hann gladdi fólk! Gleðin sem vaknaði í hug og hjarta átti rætur í þeim einlæga áhuga og virðingu sem Þorvaldur sýndi öllu fólki skilyrðislaust. Hvar sem hann kom fylgdi Þorvaldi sómi, ekki bara sá persónulegi sómi og frægðarljómi sem um hann lék, heldur miklu fremur sóminn sem hann bar með sér ómælt handa öllum hinum. Hann horfði á þig og gladdist einlæglega yfir því að einmitt þú værir hér kominn til að vera með. Þess vegna naut hann sín líka vel í kórastarfi og margvíslegum öðrum félagsskap. Þorvaldur sóttist ekki eftir því að vera aðal, hann bara komst ekki hjá því að verða það. Gamlir kórfélagar úr Laugarneskirkju minnast hans með þakklæti og stolti og muna svo vel þessa þætti í fari hans. Og einu gilti hvar Þorvaldur og Gréta fóru um sína daga, hvarvetna skyldi nafn Jesú fá að heyrast og tilboð hans um nýja lífsmöguleika standa opið. Í þessu sambandi nefnir Þorri þátt í lífi föður síns sem hann iðulega varð vitni að hvernig sá gamli átti alltaf afgang handa ungum tónlistarmönnum. Veit ég að þeir eru margir í bransanum sem ungir fengu heiðarlegt pepp frá Þorvaldi Halldórssyni og hvatningu til að láta ekki sitt ljós undir mæliker heldur leyfa því að skína.

Enn á eftir að nefna tvo þætti í þjónustu þeirra Valda og Grétu sem ekki má gleyma: Lútherskar hjónahelgar og hinar svo nefndu Tómasarmessur í Breiðholtskirkju. Á Lúthersku hjónahelgunum áttu þau samstarf við sr. Magnús Björnsson og Guðrúnu Dóru Guðmannsdóttir og sr. Örn Bárð Jónsson, Ólaf Jóhannsson og Þóru Harðardóttur og marga fleiri góða vini. Enn lifir það magnaða starf að ógleymdum öllum kærleikshópunum sem sprottið hafa upp vítt um landið. Árum saman voru Tómasarmessurnar líka fastur liður í kristnilífi höfuðborgarinnar. Dásamlegt tilboð um helgihald þar sem góðu fréttirnar fengu að njóta vafans í anda Tómasar lærisveins sem ekki gat trúað nema fá að spyrja spurninga fyrst. Þar áttu þau samstarf við sr. Gísla Jónasson, Árnýju Albertsdóttur konu hans og ýmsa sem fyrr hafa verið nefndir auk margra annara Krists vina.

Er þau fluttu heimili sitt úr Mosfellsbæ og settust að austur á Selfossi var þess skammt að bíða að tilkynnt væri um nýtt útibú fyrir Vini í bata í bæjarfélaginu. Renna mörg þakkarhug til þeirra hjóna fyrir það frumkvæði. Á þessum árum bjó Leifur sonur Þorvalds ásamt Sigríði konu sinni og þremur börnum á Selfossi og naut fjölskyldan þess nábýlis sannarlega.

Loks skal nefna eina hefð sem Margrét og Þorvaldur varðveittu um sína daga segir helling um þau sjálf. Þau héldu ætíð stóra veislu fyrir sitt fólk á jóladag, og eftir því sem barnabörnunum fjölgaði var borðið bara stækkað og meira sett í pottinn. Borið var fram hangiket með öllu tilheyrandi auk sviðasultu og rófustöppu að fornum sið – en líka kjúklingur og franskar sem Þorvaldur steikti í forláta djúpsteikingarpotti sem hann alltaf átti. Gamla hefðin var fín og góð en það sem gerði útslagið var þessi dýrlegi kjúlli, frönskurnar hans afa og kokteilsósan sem skilyrðislaust fylgdi með. Minnast öll sem nutu þessarar árlegu veislu hve vel allt fór saman á einu stóru borði; hangikjöt, kjúklingur og sviðasulta með tilheyrandi rófustöppu, uppstúf, frönskum, hrásalati, kokteilsósu og öllu hinu. – Og ef við hugsum út í það þá voru það nákvæmlega þessir þættir sem gerðu það að verkum að fólk elskaði og treysti Þorvaldi Halldórssyni. – Hann unni hefðinni og virti hana mikils en skildi jafnframt hvernig fólki leið. Hann vissi hvað það þurfti og langaði að fá að heyra. Þorvaldur var poppari af Guðs náð. – Á næsta ári komum við á náttbuxum! Sögðu systkinin hvert við annað er þau kvöddust og rúlluðu pakksödd og sæl til síns heima.

Og ekki gleymist að í jóladagsveislunni bar Margrét fram heimalagaða vanilluísinn handa fólkinu sínu sem allir elskuðu – rétt eins og hún alltaf stóð við hlið Þorvaldi á sviði mannlífsins, miðlandi fúslega þeim ríku gæðum sem hún átti og breytt hafa lífi svo margra til hins betra. Á sviði kirkju og kristni birtu Valdi og Gréta þá kirkju sem hvorki treystir skrúða né skrúðmælgi heldur miðlar ást Jesú á öllu fólki án skilyrða.

Árið 1986 hafði mikið reiðarslag skollið á Þorvaldi og fólki hans öllu er sonurinn Halldór Baldur tók sitt eigið líf rétt tvítugur að aldri. Hafði Þorvaldur þá tekið þá afstöðu sem ekki var enn orðin algeng að fela ekki sannleikann heldur ræða heiðarlega um sjálfsvíg í tengslum við sorg. Vitum við sem til þekktum að er Leifur sonur Þorvaldar tók líf sitt frá konu og börnum árið 2016 var sem brysti sálarstrengur í hjarta hans. Áfram var hann ljúfur og góður í allri framgöngu, en félagsþrekið var ekki samt sem áður og aldurinn farinn að segja til sín. Festu þau Margrét sér brátt hentugt húsnæði í Torrevieja á Spáni þangað sem þau fluttu árið 2019. Þar átti Viktor sonur Margrétar þá lögheimili sitt ásamt Eydnu konu sinni og dótturinni Maríu. Nutu þau hjónin nábýlis við ástvini í mildara loftslagi sem gerði heilsu þeirra beggja gott. Þá fundu þau gott og græðandi kirkjusamfélag sem þeim var kært.

Heilsu Þorvaldar hrakaði hin síðari ár uns hann greindist með krabbamein skömmu fyrir andlát sitt þann 5. ágúst sl.

Nú er kveðjustund.

Þorvaldur, far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. Amen.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -