Séra Davíð Þór Jónsson, prestur í Lauganeskirkju hæðist að viðbrögðunum við færslu hans frá í gær.
Í gær sagði Mannlíf frá færslu sem Davíð Þór skrifaði á Facebook í gær en þar skammast hann út í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur en þó sérstaklega beindi hann orðum sínum að Vinstri grænum. Sagði hann að það væri sérstakur staður í helvíti fyrir fólk sem selur sál sína fyrir völd og vegtyllur en í færslunni var hann að gagnrýna þá ákvörðun Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra að senda hátt í 300 flóttamenn, konur og börn aftur til Grikklands þar sem aðstæður eru ekki mönnum bjóðandi. Viðbrögðin við færslunni voru að margra mati ansi sérstök en Davíð Þór var sagður hafa hótað Vinstri grænum vist í helvíti og steig til að mynda Orri Páll Jóhannsson, þingmaður Vinstri grænna, fram og sagði „með þessum ummælum er verið að ala á hatursorðræðu í samfélaginu sem er eitt stærsta mein okkar samtíma. Það er grafalvarlegt að þjóðkirkjan taki þátt í slíku,“ í samtali við Fréttablaðið. Þá sagði biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir að orð Davíðs stangist á við siðareglur presta.
Sjá einnig: Séra Davíð Þór kallar ríkisstjórn Katrínar fasistastjórn: „Þau eru einfaldlega sek eins og syndin“
Hér er færsla Davíðs Þórs þar sem hann hæðist að viðbrögðum Vinstri grænna:
„Jesús: Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér flytjið langar bænir að yfirskini og hlunnfarið ekkjur og hafið af þeim heimili þeirra. Þér munuð fá því þyngri dóm.
Farísei: Með þessum ummælum er verið að ala á hatursorðræðu í samfélaginu sem er eitt stærsta mein okkar samtíma.“
Fyrir þá sem áttuðu sig ekki á tilvísunina hans Davíðs í upprunalegu færslunni skal upplýsast að Madeleine K. Albright, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna sagði í ræðu árið 2006 að það væri „sérstakur staður í helvíti fyrir konur sem hjálpa ekki öðrum konum.“ Þá sögðu bæði séra Martin Luther King og John F. Kennedy bandaríkjaforseti, svipaðar setningar í ræðum sínum og vitnuðu þannig hálfpartinn í ljóð Dante, Hinn guðdómlegi gleðileikur en King sagði árið 1967: „Heitustu staðir helvítis eru fráteknir fyrir þá sem halda hlutleysi sínu á tímum siðferðiskreppu.“