Laugardagur 21. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Séra Davíð Þór Jónsson: „Kynferðisofbeldi í ísraelskum fangelsum er kerfisbundið og viðtekið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Samstöðukór fyrir frjálsri Palestínu söng fyrir framan dómsmálaráðuneytið í fyrrdag. Séra Davíð Þór Jónsson flutti ávarp um Ísraelsk fangelsi áður en kórinn söng.

Samstöðukór fyrir frjálsri Palestínu.
Ljósmynd: Facebook

Félagið Ísland-Palestína birti í gær ljósmyndir og ávarp sem séra Davíð Þór Jónsson fór með þegar samstöðukór fyrir frjálsri Palestínu söng fyrir utan Dómsmálaráðuneytið í fyrradag. Ráðuneytið fer meðal annars með málefni fangelsa á Íslandi en af því tilefni fjallaði ávarpið um ísraelsk fangelsi.

Samstöðukór fyrir frjálsri Palestínu.
Ljósmynd: Facebook

Hér má lesa ávarp séra Davíðs Þórs í heild sinni:

„Í dag syngjum við fyrir frjálsri Palestínu fyrir utan Dómsmálaráðuneytið, ráðuneytið sem fer meðal annars með málefni fangelsa á Íslandi. Af því tilefni er yfirlýsing dagsins um ísraelsk fangelsi.

Síðustu 12 mánuði hefur Ísrael breytt fangelsum sínum, sem þá þegar voru hryllileg, í pyntingardýflissur fyrir Palestínumenn. Alræmdasta dæmi þess er Sde Teiman-fangelsið. Heilbrigðisstarfsmönnum, kennurum, blaðamönnum og þúsundum óbreyttra borgara hefur verið rænt af Gaza og þau fangelsuð í Sde Teiman. Fólk fær engar upplýsingar um hvort ástvinir þeirra eða ættingjar eru fangelsuð þar. Í Sde Teiman hverfur fólk inn í svarthol.
Þau sem lifa af og er sleppt lýsa kerfisbundnum pyntingum; líkamlegum, andlegum og kynferðislegum. Þessar lýsingar hafa fengist staðfestar af aðilum á borð við CNN, New York Times, ísraelsku mannréttindasamtökunum B’tsalem og uppljóstrurum sem starfa í fangabúðunum, en þúsundir ísraelskra hermanna hafa starfað þar. Fangar eru neyddir til þess að halda sömu stöðu klukkutímum saman og ef þeir fipast er þeim refsað með barsmíðum. Fangar eru vaktir eftir lítinn svefn þegar hundum er sigað á þá. Í Sde Teiman fá ólærðir heilbrigðisnemar að framkvæma aðgerðir án deyfingar eða búnaðar. Ísraelskur læknir sem vann í Sde Teiman sagði algengt að taka þyrfti hendur af palestínskum föngum vegna þess að handjárnin eru viljandi höfð svo þröng að þau stoppa allt blóðflæði. Fangar fá hvorki athvarf frá sumarhitanum né vetrarkuldanum. Ísraelar svelta fanga og þurfa tíu fangar að deila matarskammti sem rétt nægir fyrir einn. Rafbyssum er ítrekað beitt á kynfæri fanga. Afmennskun Palestínumanna gengur hvergi lengra en í Sde Teiman og í öðrum ísraelskum fangelsum.

Í lok júli voru níu fangaverðir handteknir í Sde Teiman eftir að Palestínumaður var fluttur þaðan á sjúkrahús með brotin rifbein og rifinn endaþarm eftir alvarlega hópnauðgun af þeirra hálfu. Ísraelskir stjórnmálamenn fordæmu handtökunar og í kjölfarið braust hópur Ísraela inn í Beit Lid-fangelsið þar sem sökudólgarnir voru vistaðir til þess að frelsa þá. Þeim var á endanum sleppt og kærurnar felldar niður. Nokkrum dögum seinna var myndbandinu af hópnauðguninni lekið. Myndbandið sýnir þaulæfða gjörð, bæði hvernig fórnarlambið er valið og hvernig fangaverðirnir skýla hver öðrum svo að ekki sé hægt að bera kennsl á þá. Þessir ofbeldismenn ganga frjálsir í dag og er reglulega boðið í ísraelska spjallþætti, ekki sem óþokkum heldur sem hetjum. Kynferðisofbeldi í ísraelskum fangelsum á hendur Palestínumönnum, körlum, konum og börnum, er kerfisbundið og viðtekið, gerendurnir bæði konur og karlar. Það er undantekning ef palestínskir fangar eru ekki beittir kynferðisofbeldi.
Hægt er að handtaka alla Palestínumenn fyrir það eitt að vera Palestínumenn. Og vegna þess að enginn getur staðist stanslausar kvalir og pyntingar játa flestir á endanum að tilheyra andspyrnuhópum. Það er búið að afnema öll réttindi í ísraelskum fangelsum og hafa fangaverðir fengið leyfi til að halda pyntingum sínum áfram frá þjóðaröryggisráðherra Ísraels, Itamar Ben-Gvir, sem segir að allir palestínskir fangar séu „sori mannkyns“. Palestínskur fangi lýsir því þegar hann var pyntaður að einn hermaður hafi montað sig af því að Itamar Ben-Gvir væri að horfa á þá í beinu streymi. Þetta er lýsandi fyrir það með hversu mikilli vitneskju og samþykki ísraelskra stjórnvalda fangar í ísraelskum fangelsum eru beittir ofbeldi.
Í september úrskurðaði Hæstiréttur Ísraels að Sde Teiman yrði ekki lokað. Samfélag sem upphefur pyntara og nauðgara eins og hetjur getur ekki fengið að tilheyra alþjóðasamfélaginu. Samfélag sem neitar að loka pyntingardýflissunum sínum getur ekki fengið að tilheyra alþjóðasamfélaginu. Samfélag þar sem hermenn krefjast þess að fá að nauðga óvinum sínum má ekki fá að tilheyra alþjóðasamfélaginu. Það brýtur gegnum öllu okkar siðferði og gildum og við krefjumst réttlætis fyrir Palestínumenn. Þessi stutti texti reifar aðeins brot af þeim glæpum sem fá að viðgangast í ísraelskum fangelsum. Við krefjum þig, Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra, um að beita þér fyrir því að ríkisstjórn Íslands framfylgi eftirfarandi kröfum:
● Að styðja kæru Suður-Afríku á hendur Ísraelsríkis fyrir brot á Sáttmála Sameinuðu
   þjóðanna gegn þjóðarmorði.
● Að slíta stjórnmálasamstarfi Íslands við Ísrael.
● Að Alþingi Íslands samþykki þingsályktunartillögu um viðskiptaþvinganir gagnvart
   Ísrael og að ríkisstjórnin setji þær þvinganir á eins fljótt og auðið er.
Samstöðukór fyrir frjálsri Palestínu“
Samstöðukór fyrir frjálsri Palestínu.
Ljósmynd: Facebook

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -