„Var Jesús eingetinn? Mér er drullusama en mér er alveg ljóst eftir samleið mína með honum í lífinu að hann er svo sannarlega einstakur sonur Guðs því hann hefur breytt mannkynssögunni og hefur alla daga áhrif á mína sögu,“ segir séra Jóna Hrönn Bolladóttir, sóknarprestur í Vídalínskirkju. „Það eftirminnilegasta eftir öll þessi ár í starfi er að sjá svo margt fólk rísa á fætur í eigin lífi þrátt fyrir bylmingshögg örlaganna. Ég hef stöðugt og ítrekað orðið vitni að upprisukraftinum eins og hann birtist í raunverulegri reynslu.“
Skírdagurinn. Föstudagurinn langi. Páskarnir. Reis Jesú upp frá dauðum?
„Augljóslega reis hann upp því annars værum við ekki að ræða þetta tvö þúsund árum síðar. Ef hann væri bara grafinn og gleymdur væru ekki milljónir manna í vitundarsambandi við hann um allan heim. Það hefur eitthvað stórkostlegt gerst. Ég gæti ekki hafa staðið við líkbörur í yfir þrjátíu ár nema vegna þess að ég á upprisutrú í hjarta mínu. Upprisa Jesú er ekki bókstafleg gagnreynd þekking heldur Guðsþekking. Hún er reynslan af mætti lífisins í veruleikanum, hvernig ljós himnanna mætir fólki í erfiðleikum, þjáningu, vonleysi og missi. Þetta blasir við mér í daglegu lífi, ekki síst í gegnum sálgæsluna. Ég ætla að fá að eiga þá trú að Guð leiði okkur í gegnum dánarheiminn og inn í sitt eilífa ljós. Þannig bið ég fyrir öllum sem ég jarða. Ég trúi á hinn upp risna frelsara Jesú Krist og blygðast mín ekki fyrir það.
Hvaða félagslegu og tilfinningalegu áhrif má það hafa að Guðs syni skuli hafa verið þröngvað og hann níddur með nákvæmlega sama hætti og líkin sem nú blasa við í Úkraínu? Hvers konar átrúnaður er það? Grátandi, handónýtur Guð sem hrópar í ýtrustu neyð nakinn og upp hengdur til háðungar í allra augsýn: Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig!? Trúin er ekki heimsk. Biblían gefur engar myndir af sjálfri upprisunni. Engar bókstafslýsingar handa trúarþjösnurum að tönglast á eða andtrúardólgum að hæðast að.“
Jesús fæddist ekki í Betlehem
Hver er skoðun sóknarprestsins varðandi faðerni Jesú? Var Jesús eingetinn sonur Guðs eða góður maður með mikinn boðskap?
„Þetta er mikilvæg spurning í dag en fyrir tvö hundruð árum hefði ekki þurft að spyrja hennar vegna þess að fyrirbærið bókstafstrú hefur ekki verið vandamál nema þessi síðustu árhundruð. Alveg þar til nútíminn kom til sögunnar skildi fólk eðli helgisagnanna, að þær eru ekki bókstaflegar heldur fjalla þær um hið ósegjanlega í raunveruleikanum. Adam og Eva eru ekki bókstaflegar eða sögulegar persónur. Þau eru táknmyndir fyrir mannkynið og mannleg kjör. Nói var aldrei í örkinni og Jesús fæddist ekki í Betlehem. Helgisagnir eru miklu stærri en okkar hugmyndir um raunveruleikann. Þær eru mikilvægur hluti af langtímaminni mannkyns og fjalla um ýmis aðalatriði sem ekki mega gleymast þótt annað fyrnist. Hversu mikils virði er að Guðs sonur hafi fæðst inn í óstabílt ástarsamband og faðerni hans verið í uppnámi? Hvaða félagslegu afleiðingar hefur átrúnaður þar sem guðinn fæðist í hendur valdalauss fólks sem býr á merkingarlausum stað eins og Nasaret var og þegar barnið á að koma í heiminn er það á hrakhólum vegna valdníðslu yfirvalda og fjölskyldan endar sem ólöglegir innflytjendur í Afríku? Aldrei hafa fleiri börn verið á flótta í veröldinni en einmitt þessa páska. Var Jesús eingetinn? Mér er drullusama en mér er alveg ljóst eftir samleið mína með honum í lífinu að hann er svo sannarlega einstakur sonur Guðs því hann hefur breytt mannkynssögunni og hefur alla daga áhrif á mína sögu.“
Andardráttur trúarinnar er bænin
Hvað er Guð í huga Jónu Hrannar?
„Sem trúaðri manneskju er mér hollt að segja: Ef Guð er til þá eru allar mínar hugmyndir um hann ranghugmyndir. Það skýrist af því að tungumálið okkar og myndirnar sem við búum til í eigin höfði eru ekkert nema spegilmyndir af okkar eigin skynjun. Hvað sem mér kynni að detta í hug að segja um Guð myndi aldrei námunda sannleikann. „Mínir vegir eru ofar ykkar vegum og mínar hugsanir ofar ykkar hugsunum“ segir Guð hjá spámanninum Jesaja. Ég held að við verðum að slaka á með allar hugmyndir og kenningar um Guð. Trúin er ekki það að trúa einhverju upp á Guð. Trúin er reynslan af því að Guð hafi trú á fólki og öllu sem lifir. Trúin er ekki að höndla sannleikann heldur bæn um það að mega vera höndluð af sannleikanum. Andardráttur trúarinnar er bænin. Mín skynjun af nærveru Guðs er fyrst og fremst í bænasamfélagi og fyrirbænaþjónustu. Ég hef tilheyrt bænahópi kvenna í fjórtán ár í Vídalínskirkju og við höfum komið saman vikulega. Þótt flest viki til hliðar féllu þessar stundir aldrei niður í COVID. Ég veit í hjarta mér að allar þessar konur sem þarna koma saman hafa verið kallað af Guði til þjónustu. Bænin breytir ekki Guði en hún breytir þeim sem biður. Það að biðja stöðugt fyrir fólki í samfélagi við aðra veitir manni þekkingu á eðli Guðsríkis. Guðsþekking er hagnýt þekking. Það skiptir mig óendanlega miklu máli að vita að það er beðið fyrir mér. Án fyrirbænar myndi ég ekki treysta mér til starfa.“
Kartöflur og helgihald
Jóna Hrönn Bolladóttir fæddist í Hrísey 21. júlí árið 1964 og er dóttir hjónanna Bolla Þóris Gústavssonar, fyrrum vígslubiskups að Hólum í Hjaltadal, og Matthildar Jónsdóttur hárgreiðslumeistara og húsmóður. Jóna Hrönn er ein af sex systkinum og þegar hún var tveggja ára flutti fjölskyldan að Laufási við Eyjafjörð.
„Ég get aldrei fullþakkað að hafa fengið að alast upp á slíkum stað sem ilmaði af fegurð og sögu. Það er magnað að fá að alast upp í íslenskri sveit, vera í tengslum við náttúruna, sinna dýrunum og taka þátt í því að hjálpast að. Uppvöxtur minn mótaðist meðal annars af því að sitja á kartöfluvélinni á vorin og standa á henni á haustin þegar uppskeran kom því að pabbi ræktaði kartöflur í því skyni að auka tekjurnar því að prestslaunin voru lág og börnin mörg. Ég lyfti ekki lóðum á unglingsárum en ég lyfti ótöldum pokum af vörubílspöllum og var alveg nautsterk. Það má segja um heimilislífið í Laufási að við vorum öll að vasast í þeim verkefnum sem komu upp. Ég fylgdi meðal annars pabba töluvert í hans starfi, lék á gítar í sunnudagaskólanum og fór með honum á snjóþungum vetrum til messu svo hann hefði einhvern til að ýta bílnum ef hann festist í snjó. Þannig snerist æska mín nokkuð jafnt um kartöflur og helgihald.“
Jóna Hrönn rifjar upp hvernig trúin hafi orðið eðlilegur hluti af daglegu lífi. Laufás er kirkjustaður og hún hafði þann starfa að sýna kirkjuna og þrífa hana ásamt móður sinni. Messukaffi og erfidrykkjur voru líka haldnar heima í stofu.
„Hvern messudag í Laufásskirkju útbjó mamma veislu fyrir alla sveitina. Þar voru maregns- og marsipantertur sem mamma hafði bakað og pabbi hafði skreytt af því hann var svo flinkur í höndunum. Svo bakaði hún alltaf gerbollur og bar fram með bláberja- og rabarbarasultu sem hún hafði búið til og alltaf voru fyrir hendi í búrinu.
Það var ekki alltaf auðvelt að vera dóttir prestsins af því að hann hafði svo mikla sérstöðu í sveitinni og hlutverk hans var ólíkt mörgum öðrum. Stundum var manni strítt á því að eiga pabba sem ynni ekki neitt en væri alltaf í sparifötunum.
Í barnaskóla las maður bláu og bleiku bókina í kristinfræði og ég drakk í mig biblíusögunar og fékk alltaf hæstu einkunn þar. Það er svo skrýtið að Jesús hefur verið órjúfanlegur hluti af lífi mínu alla tíð og boðskapur hans hefur fylgt mér frá ungaaldri.
Ég á sterka minningu af því að það dó lítill drengur og það hafði mikil áhrif á okkur systkinin og ég man eftir mér fara aftur og aftur til að standa við litla gröf í kirkjugarðinum sem klædd hafði verið svo fallega með greni. Ég man hvað ég fann mikið til. Það hafði mikil áhrif á mig að sjá foreldra mína vera að hjálpa fólkinu í þessum aðstæðum. Pabbi að semja ræðu og tala til fólksins og mamma að undirbúa móttökuna og senda okkur í alls kyns verkefni. Ég veit að svona stundir, sem voru ekki fáar, höfðu djúpstæð áhrif á okkur öll börnin á heimilinu. Svo var maður með í kaffinu eftir athöfn að hjálpa til. Maður skynjaði sorgarþungann og fann gildi þess að standa saman og hlúa að. Gildi sálgæslunnar tók sér bólstað í manni. Ég held að svona stundir séu ástæðan fyrir því að helmingurinn af þessum systkinahópi fór í prestskap.“
Jeppi á Fjalli
Svo varð prestsdóttirin unglingur. Hún segir að unglingsárin hafi verið góð ekki síst vegna þess að hún ákvað að drekka ekki áfengi á unglingsaldri; segir að hún hafi verið svo mikill brjálæðingur að það hefði getað farið illa.
„Mér datt ýmislegt í hug og hafði gaman af að vera innan um fólk og skemmta mér. Ég fór í Menntaskólann á Akureyri og það verður að viðurkennast að ég sinnti náminu ekki vel en ég var þeim mun duglegri í félagslífinu,“ segir Jóna Hrönn og hlær. „Mitt stóra áhugamál á menntaskólaárunum var leikfélagið og ég bæði lék og sat í stjórn félagsins. Þetta voru gríðarskemmtileg verkefni og eftir á sá ég hve mikil menntun var fólgin í því að starfa undir stjórn fólks eins og Ragnheiðar Steindórsdóttur leikkonu og Jónasar Jónassonar útvarpsmanns en við fengum alltaf menntað leikhúsfólk sem verkstjóra í leikfélagi MA.
Ég hafði tekið þá ákvörðun sjö ára gömul að ég skyldi verða prestur og ég man eftir því að tilkynna pabba og einhverjum hópi presta þessa fyrirætlun mína en á þeim tíma sem ég sagði þetta var engin kona prestur og ég virði það alltaf við pabba hvað hann tók þessu ljúflega og enginn viðstaddra hafði orð á neinum hindrunum. Þremur árum síðar var fyrsta konan vígð svo ekki þurfti ég að ryðja brautina. Stafið í LMA hafði þau áhrif að hjá mér kviknaði draumur um að kannski gæti ég bara orðið leikkona enda átti ég stórkostlega fyrirmynd í afasystur minni, Emillíu Jónasdóttur, sem ég dáði mjög líkt og þjóðin öll. Hún var okkar fyrsta Soffía frænka. Leiklistaráhuginn var svo mikill að eftir stúdent ákvað ég að fara á lýðháskóla í Ósló þar sem boðið var upp á leiklistarbraut. Hápunktur tímans þar var þegar ég var valin til að leika Jeppa á Fjalli þar sem ég bæði röflaði, drakk og söng. Það var mikið hlegið í sýningunni því Jebbi á Fjalli var auðvitað enn kostulegri í flutningi þessarar þybbnu íslensku sveitastelpu. Ég er alltaf þakklát fyrir þennan tíma. Síðan flutti ég til Reykjavíkur og fór að vinna á Kleppi og sótti kvöldtíma í leiklistarskóla Helga Skúlasonar. Það var magnað nám. En niðurstaðan varð nú samt sú að ég fór ekki í leiklist heldur í guðfræðinám við HÍ.“
Ástin
Jóna Hrönn segist hafa séð eiginmann sinn, séra Bjarna Karlsson, í fyrsta skipti þar sem hann stóð við syðri stigann í aðalbyggingu Háskólans fyrsta daginn í guðfræðináminu. „Ég man meðal annars hvernig hann var klæddur: Í brúnar flauelsbuxur, rúllukragabol, í sandölum og með íþróttapeysu bundna um herðarnar og ég hugsaði: Hversu hallærislegur getur maður verið? En mér fannst hann líka sjarmerandi af því að hann var svo öruggur með sig með fallegt bros og ég vissi strax að við ættum eftir að verða vinir. En ég vissi líka að mig dauðlangaði að stríða honum sem varð raunin því að fyrsta veturinn í guðfræðideildinni var ég sístríðandi KFUM-drengnum Bjarna. Eftir veturinn unnum við saman í sumarbúðum á Snæfellsnesi og um haustið varð ekki aftur snúið. Ég hef alla tíð dáðst að því í fari Bjarna hvað hann er sífellt glaður. Hann vaknar ekki eins og ég í misjöfnu skapi á morgnana. Nei, hann er alltaf til í næsta dag fullur af áhuga fyrir lífinu og samferðafólkinu.“
Hvað er ástin í huga sóknarprestsins?
„Ég tel ástina vera sterkasta og mikilvægasta aflið í heiminum. Gunnar Hersveinn segir í einni bók sinni að andstæða ástar sé ekki hatur heldur skeytingarleysi. Ég er svo innilega sammála því. Hugsið ykkur ef Evrópubúar ákvæðu núna að taka ekki á móti flóttamönnum frá Úkraínu. Í því ljósi blasir við að skeytingarleysi er einmitt andstæða ástar. Gunnar segir líka að skeytingarlaust samfélag sé eins og hurðarlaust helvíti. Ég hallast að því. Kristur sendir stöðug skilaboð í boðskap sínum í þá veru að við skulum þjóna hvert öðru. Ástin er að þjóna öðrum. Þannig er það í hjónabandinu. Fólk sem vill þjóna hvert öðru, ekki bara taka til sín heldur skiptast á gæðum og vera raunverulega vitni að lífi hvort annars, finnur hjónasælu. Þar verður ekki bara ást í samskiptum heldur enn fremur trúnaður og virðing sem nærist í nánum tengslum. Hvað er ást? Ást er vinna, gleðirík og grjóthörð vinna.“
Prestshjónin búa við barnalán. Eiga þrjú börn. „Elstur er Andri sem starfar sem sálfræðingur í Reykjavík. Kona hans er Unnur Bryndís Guðmundsdóttir sem starfar sem sjúkraþjálfi. Önnur er Matthildur Bjarnadóttir sem er prestur og heldur meðal annars utan um verkefnið Örninn sem er starf fyrir börn og unglinga sem hafa orðið fyrir missi. Þar höfum við fjölskyldan verið sjálfboðaliðar sem hefur verið dýrmætt fyrir okkur. Maðurinn hennar er Daði Guðjónsson kennari. Yngstur er Bolli Már sem vinnur við auglýsinga- og efnisgerð meðal annars hjá auglýsingastofunni Pipar. Maki hans er Berglind Halla Elíasdóttir leikkona. Öll hafa börnin fært okkur barnabörn. Þau eru orðin fimm talsins og eru í raun okkar stóra áhugamál og þakkarefni.“
Upprisukrafturinn
Ferill sóknarprestsins er fjölbreyttur. Jóna Hrönn starfaði sem æskulýðsfulltrúi við Laugarneskirkju meðan á guðfræðináminu stóð. Hún vígðist síðan til prestsþjónustu í Vestmannaeyjum árið 1991 og svo starfaði hún sem prestur við Dómkirkjuna í Reykjavík í hálfu starfi árið 1998 og í hálfu starfi sem miðborgarprestur KFUM/K til ársins 2001. Þá var hún var í fullu starfi sem miðborgarprestur þjóðkirkjunnar frá 2001 til 2005. Árið 2005 var hún svo ráðin sóknarprestur Garðaprestakalls í Garðabæ og Álftanesi.“
Hvað er eftirminnilegast frá ferlinum?
„Eitt það dýrmætasta á starfsferli mínum var það að fá að hefja mína prestsþjónustu í Vestmannaeyjum. Eyjamenn urðu mínir helstu lærimeistarar í sálgæslufræðum vegna þess að ungur prestur var óreyndur á sviði mannlegra harmleikja. Hver Eyjamaðurinn af öðrum leiddi mig í gegnum sársaukafull embættisverk, viturt fólk sem mótast hafði af því að búa á þessum berskjaldaða stað. Þar varð ég aftur og aftur vitni að því hvernig lifa skuli af.
Það eftirminnilegasta eftir öll þessi ár í starfi er að sjá svo margt fólk rísa á fætur í eigin lífi þrátt fyrir bylmingshögg örlaganna. Ég hef stöðugt og ítrekað orðið vitni að upprisukraftinum eins og hann birtist í raunverulegri reynslu. Enn frekar undrast ég hvernig fólk fer að því að nýta sársauka sinn og þjáningu til að styrkja aðra þegar það kemur út úr dýpstu þjáningu og hefur borið gæfu til að hlusta eftir anda Guðs og verður síðan farvegur hugmynda að starfi eða verkefnum sem verður til ríkulegrar blessunar fyrir aðra. Af ótal dæmum ætla ég bara nefna hér vinkonu mína Heiðrúnu Jensdóttur sem fékk mig til liðs við sig að stofna Örninn, starf fyrir börn og unglinga sem hafa misst náinn ástvin. Á stuttum tíma hefur þetta starf borið mikinn ávöxt í samvinnu við hóp af sjálfboðaliðum. Bara í síðasta mánuði kom til mín kona með hugmynd sem ég veit að er frá Guði og við erum farnar á stað að vinna með efnið.“
Jóna Hrönn var Miðborgarprestur árið 1998-2005. Hvað er eftirminnilegast frá þeim tíma?
„Ástandið var slæmt í miðbænum um síðustu aldamót. Ég man að það fór um mig hrollur þegar vinnuveitendur mínir fóru fram á að keypt yrði fyrir mig sérstök slysatrygging á meðan ég gegndi þessu embætti. Ég varð aldrei fyrir líkamstjóni í starfinu en margoft var ég óttaslegin og mér var hótað.
Á þessum árum var mikil unglingadrykkja í miðborginni og hörð fíkniefni flæddu yfir. Þá voru líka opnaðir nokkrir nektardansstaðir og þeim fylgdi mikil þjáning og sorg. Líkt og í Erninum í dag voru magnaðir sjálfboðaliðar sem komu til samstarfs við mig hverja helgi á efri hæðinni í Austurstræti 20 þar sem Miðborgarstarfið hafði afdrep. Árið 2001 fórum við í það að innrétta neðri hæð hússins sem kaffihús sem fékk nafnið Ömmukaffi. Þetta var kostnaðarsamt verkefni enda var þetta fullbúið kaffihús sem hafði ásýnd heimilis eldri konu. Hugmyndin var að hluta til fengin frá finnsku kirkjunni en einnig frá þeim fjölmörgu unglingum sem höfðu sagt okkur að þeir ættu alltaf afdrep hjá ömmu sinni þegar allt annað þryti. Um helgar komu að meðaltali 50–100 unglingar til okkar í Ömmukaffi. Á daginn var rekið venjulegt kaffihús sem átti marga fastagesti því veitingar voru ljúffengar og staðurinn bar með sér yfirbragð manngæsku og trúar.
Í starfi mínu sem miðborgarprestur horfði ég oft til Kolaportsins og velti því fyrir mér hvort hægt væri að koma til samstarfs við það mikla mannlífstorg. Ég vandi þangað komur mínar um helgar og fann innra með mér að vissulega ætti kirkjan þar erindi. Svo þegar ég kom að máli við Jónu Ásgrímsdóttur, sem þá rak kaffihúsið á svæðinu, og bar undir hana þá hugmynd að hafa guðsþjónustur í kaffihúsinu hjá henni tók hún mér afar vel. Ég fékk með mér presta, djákna og tónlistarfólk til að þjóna við athafnirnar. Bjarni minn var ævinlega með mér í þessu helgihaldi og einnig Þorvaldur Halldórsson tónlistarmaður og Ragnheiður Sverrisdóttir djákni auk annara. Mér þykir óendanlega vænt um það að Bjarni og Ragnheiður skuli halda utan um þessar messur núna 22 árum seinna ásamt Guðrúnu Árnýju Karlsdóttur tónlistarmanni. Og eitt verð ég að segja til viðbótar: Ég lærði að biðja í Kolaportinu. Hvergi hefur mér reynst auðveldara að bera þar upp bænarefni. Þar ríkir mikil samstaða og kliðurinn og köllin um kartöflur og hákarl til sölu er eðlileg staðfesting á því að það skiptir máli að taka þátt í lífinu og að veruleikinn sjálfur er hinn rétti vettvangur bænarinnar. Mitt í hinu lifaða lífi er hjartsláttur trúarinnar heitur og ör í Kolaportsmessunum.“
Barna- og unglingastarf
Jóna Hrönn hefur í gegnum árin lagt mikla áherslu á barna- og unglingastarf.
„Leiðin að hjarta safnaðarins er í gegnum barna- og unglingastarf. Kirkja sem sinnir ekki þeim þáttum deyr rétt eins og kirkja þar sem ekki er iðkað bænalíf.
Við lifum í samfélagi þar sem sigurvegaramenning ræður ríkjum. Ég óttast þær einhliða áherslur. Það er mikilvægt að vera í íþróttum og hreyfa sig og það að vera hluti af liðsheild er uppbyggileg reynsla. En áherslan á afburðina og það að skara fram úr í samanburði við aðra verður oft fyrirferðamikil. Börn þurfa að geta komið á stað þar sem þau þurfa ekki að keppa eða vera „betri en“ heldur mega hvíla í þeirri reynslu að vera dýrmæt, elskuð og einstök í sjálfu sér.
Kristið æskulýðsstarf leggur áherslu á dýrmæti einstaklingsins og fegurðina í samskiptum. Þar ríkir hvatning til að sýna náungakærleika og varðveita heilbrigð og sveigjanleg persónumörk. Það hvernig kristin trú hefur verið töluð niður í samfélagi okkar og gerð að vandamáli í opinbera rýminu er mikið menningarslys byggt á þröngu heimildavali og skorti á félagslegu innsæi. Vitaskuld þarf æskulýðsstarf kirkjunnar aðhald og siðareglur líkt og allt starf með ungu fólki en það þarf víðáttumikla vanþekkingu til að sjá ekki hvernig félagsauður vex og hrokinn í samfélaginu minnkar við það að meistarinn frá Nasaret sé sýnilegur á torginu.“
Fæðing. Dauði. Hver er tilgangur lífsins?
„Við erum eina dýrategundin sem getur dáið af tilgangsleysi. Það er erfitt og ógerlegt að finna tilgang lífsins ef frumþarfir okkar fá ekki að blómstra: Að eiga tengsl við aðra og njóta frelsis til athafna eru hinar félagslegu forsendur alls tilgangs. Eins mun fólk sem ekki ræktar þakklæti í hjarta aldrei geta fundið fullnægjandi tilgang með lífi sínu. Það getur orðið ánægt á köflum en það verður aldrei hamingjusamt. Tilgang lífsins finna þau sem af öllu hjarta spyrja spurningarinnar hver er tilgangur lífsins?“