Laugardagur 21. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Séra Jóna Hrönn: „Ég man eftir mér fara til að standa við litla gröf í kirkjugarðinum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þessi grein er brot úr viðtali Svövu Jónsdóttur við séra Jónu Hrönn Bolladóttur. Viðtalið má í heild sinni lesa hér

 

Jóna Hrönn Bolladóttir fæddist í Hrísey 21. júlí árið 1964 og er dóttir hjónanna Bolla Þóris Gústavssonar, fyrrum vígslubiskups að Hólum í Hjaltadal, og Matthildar Jónsdóttur hárgreiðslumeistara og húsmóður. Jóna Hrönn er ein af sex systkinum og þegar hún var tveggja ára flutti fjölskyldan að Laufási við Eyjafjörð.

„Ég get aldrei fullþakkað að hafa fengið að alast upp á slíkum stað sem ilmaði af fegurð og sögu. Það er magnað að fá að alast upp í íslenskri sveit, vera í tengslum við náttúruna, sinna dýrunum og taka þátt í því að hjálpast að. Uppvöxtur minn mótaðist meðal annars af því að sitja á kartöfluvélinni á vorin og standa á henni á haustin þegar uppskeran kom því að pabbi ræktaði kartöflur í því skyni að auka tekjurnar því að prestslaunin voru lág og börnin mörg. Ég lyfti ekki lóðum á unglingsárum en ég lyfti ótöldum pokum af vörubílspöllum og var alveg nautsterk. Það má segja um heimilislífið í Laufási að við vorum öll að vasast í þeim verkefnum sem komu upp. Ég fylgdi meðal annars pabba töluvert í hans starfi, lék á gítar í sunnudagaskólanum og fór með honum á snjóþungum vetrum til messu svo hann hefði einhvern til að ýta bílnum ef hann festist í snjó. Þannig snerist æska mín nokkuð jafnt um kartöflur og helgihald.“

Jóna Hrönn rifjar upp hvernig trúin hafi orðið eðlilegur hluti af daglegu lífi. Laufás er kirkjustaður og hún hafði þann starfa að sýna kirkjuna og þrífa hana ásamt móður sinni. Messukaffi og erfidrykkjur voru líka haldnar heima í stofu.

„Hvern messudag í Laufásskirkju útbjó mamma veislu fyrir alla sveitina. Þar voru maregns- og marsipantertur sem mamma hafði bakað og pabbi hafði skreytt af því hann var svo flinkur í höndunum. Svo bakaði hún alltaf gerbollur og bar fram með bláberja- og rabarbarasultu sem hún hafði búið til og alltaf voru fyrir hendi í búrinu.

- Auglýsing -

Það var ekki alltaf auðvelt að vera dóttir prestsins af því að hann hafði svo mikla sérstöðu í sveitinni og hlutverk hans var ólíkt mörgum öðrum. Stundum var manni strítt á því að eiga pabba sem ynni ekki neitt en væri alltaf í sparifötunum.

Í barnaskóla las maður bláu og bleiku bókina í kristinfræði og ég drakk í mig biblíusögunar og fékk alltaf hæstu einkunn þar. Það er svo skrýtið að Jesús hefur verið órjúfanlegur hluti af lífi mínu alla tíð og boðskapur hans hefur fylgt mér frá ungaaldri.

Ég á sterka minningu af því að það dó lítill drengur og það hafði mikil áhrif á okkur systkinin og ég man eftir mér fara aftur og aftur til að standa við litla gröf í kirkjugarðinum sem klædd hafði verið svo fallega með greni. Ég man hvað ég fann mikið til. Það hafði mikil áhrif á mig að sjá foreldra mína vera að hjálpa fólkinu í þessum aðstæðum. Pabbi að semja ræðu og tala til fólksins og mamma að undirbúa móttökuna og senda okkur í alls kyns verkefni. Ég veit að svona stundir, sem voru ekki fáar, höfðu djúpstæð áhrif á okkur öll börnin á heimilinu. Svo var maður með í kaffinu eftir athöfn að hjálpa til. Maður skynjaði sorgarþungann og fann gildi þess að standa saman og hlúa að. Gildi sálgæslunnar tók sér bólstað í manni. Ég held að svona stundir séu ástæðan fyrir því að helmingurinn af þessum systkinahópi fór í prestskap.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -