Séra Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti, hefur ákveðið að gefa kost á sér til embættis biskups Íslands.
„Ef ég fæ nægjanlega margar tilnefningar mun ég gefa kost á mér í biskupskjöri,“ sagði Kristján í samtali við mbl.is um málið. „Ég hef sinnt störfum biskups mikið undanfarið og veit því vel út á hvað starfið gengur. Ýmsir prestar hafa komið að máli við mig og bent á að gott væri nú að fá inn mann með reynslu í embættið, enda gefast nú tækifæri til að móta skipulag kirkjunnar sem og hlutverk biskups Íslands.“
Framboð Kristján kemur fáum að óvart en hann hefur verið einn af þeim sem hefur verið orðaður við embættið síðan ljóst var að Agnes Sigurðardóttir myndi hætta sem biskup. Nú eru framboðin fimm talsins og greinilegt að mikil samkeppni er innan kirkjunnar um embættið. Aðrir frambjóðendur eru séra Helga Soffía Konráðsdóttir, sóknarprestur í Háteigskirkju, séra Guðrún Karls Helgudóttir, sóknarprestur í Grafarvogskirkju, séra Ninna Sif Svavarsdóttir, sóknarprestur í Hveragerði, og séra Guðmundur Karl Brynjarsson, prestur í Lindakirkju í Kópavogi.