Vigfús Bjarni Albertsson prestur segist afar þakklátur fyrir að vera aftur farinn að sinna daglegum störfum eftir að hafa fengið hjartaáfall. Vigfús, sem er nýjasti gesturinn í hlaðvarpsþætti Sölva Tryggvasonar, hefur í áraraðir unnið við að aðstoða fólk á erfiðustu stundum lífsins.
„Það bilaði ósælaloka og varð hjartaáfall á sama tíma og ég sit uppi með þó nokkuð mikla skerðingu eftir það. En ég er þakklátur fyrir að vera enn starfandi og geta sinnt öllum helstu verkefnum. Maður gerir sitt besta til að vera í æðruleysi, en það er samt ekki eitthvað sem er hægt að þvinga fram. Æðruleysi er auðvitað æskileg niðurstaða þegar fólk fer í gegnum erfiðleika, en það getur tekið tíma að setjast inn í það og ná alvöru úrvinnslu. Maður þvingar ekki fram æðruleysi, en getur hægt og rólega náð því,“ sagði Vigfús Bjarni við Sölva.
Í þættinum ræðir presturinn einnig um dómhörku og nefnir útrýmingarbúðirnar Auschwitz í þeim efnum en talið er að rúmlega milljón einstaklingar hafi látist í Auschwitz á fimm ára tímabili.
„Það er oft horft á hlutina þannig að það sé bara einhver einn vondur aðili sem beri ábyrgð á einhverju slæmu, en ef við förum dýpra og skoðum skugga samfélagsins er myndin oft önnur. Bara í Auschwitz fangabúðunum unnu 20 þúsund Þjóðverjar. Þegar það var farið að leita að nasistunum eftir seinni heimstyrjöldina var byrjað að reyna að finna skrímsli með horn og hala, en þá fannst enginn. Þegar því var breytt yfir í að leita að venjulegum fjölskyldufeðrum komu þeir í ljós hver á fætur öðrum. Ég veit að þetta er ögrandi umræða, en það er gott að spyrja sig áður en maður dæmir aðra hart hvort að maður sjálfur sé fullkominn. Við þurfum að horfast í augu við okkar eigin skugga áður en við förum í að dæma alla aðra.“