Fimm aðilar voru handteknir í heimahúsi á Akureyri í dag með aðstoð sérsveitar ríkislögreglustjóra.
Rétt í þessu lauk lögreglan á Norðurlandi eystra ásamt sérsveit ríkislögreglustjóra aðgerðum í Glerárhverfi á Akureyri þar sem fimm einstaklingar voru handteknir í heimahúsi. Þetta kemur fram í Facebook-færslu lögreglunnar. Þar kemur fram að tilkynning hefði borist um líkamsárás og hótanir þar sem vopnum var beitt.
Af þeim ástæðum hefði lögreglan vopnast og var nærliggjandi götum lokað á meðan ástandið var tryggt. Voru vakthafandi lögreglumenn sérsveitarinnar einnig kallaðir út og stýrðu þeir handtökum á vettvangi. Að sögn lögreglunnar er máið á frumstigi og getur því ekki veitt frekari upplýsingar að svo stöddu.