Tilefni aukinnar öryggisgæslu í hringferð þingflokks Sjálfstæðisflokksins var viðvera ráðherra ríkisstjórnar Íslands. Þetta kemur fram í svari lögreglunnar til Mannlífs.
Morgunblaðið sagði frá því í gær að lögreglan hafi fylgt Sjálfstæðisflokknum í hringferð flokksins um landið en nú stendur kjördæmavika yfir. Ekki hefur lögreglan gert þetta síðustu ár, í hringferðum flokksins.
Mannlíf sendi fyrirspurn á ríkislögreglustjóraembættið, um ástæður þessa fyrirkomulags. Svar samskiptastjóra ríkislögreglustjóra var eftirhljóðandi:
„Tilefni aukinnar öryggisgæslu í hringferð þingflokksins var viðvera ráðherra ríkisstjórnar Íslands. Ákvörðun ríkislögreglustjóra byggir á fyrirliggjandi upplýsingum sem koma víða að; af opnum miðlum, stjórnsýslu, lögreglu og einstaklingum. Út frá greiningu á þeim upplýsingum eru öryggisráðstafanir vegna öryggis ráðherra ríkisstjórnar Íslands ákveðnar.“
Í svari lögreglunnar kemur einnig fram að sérsveitin hafi í sumum tilfellum verið við öryggisgæslu í ferðinni. „Flokknum var ekki fylgt allan hringinn, á nokkrum viðkomustöðum ferðarinnar voru almennir lögreglumenn með aukna öryggisgæslu á fundarstað og í einhverjum tilvikum voru sérsveitarmenn við öryggisgæslu.“