Krónan hefur verið í fararbroddi verslana sem bjóða vörur á „síðasta séns“, ódýrt eða ókeypis og hafa viðbrögðin ekki látið á sér standa. Fjarðarkaup hefur að sama skapi boðið vörur sem nálgast síðasta söludag á góðu verði.
Í Krónunni má stundum fá ávexti og grænmeti endurgjaldslaust og eru það, eðli máls samkvæmt, vörur sem ekki eru lengur upp á sitt besta en má þó vel nýta í ýmsa rétti.
Er þetta liður í því að sporna við matarsóun og þykir mörgum neytendum frábært að verslunin gefi, eða selji á 99 krónur, lúnar vörur í stað þess að henda þeim. Til dæmis fengust 6 Pink Lady epli á 99 krónur í stað 699 króna sem pakkinn kostar alla jafna og þannig sparast 600 krónur. Spínat sem alla jafna kostar 349 krónur fékkst á 99 krónur og svo mætti lengi telja. Það munar um krónurnar.
Vörurnar sem merktar eru „síðasti séns“ fást alla daga í öllum verslunum Krónunnar, að því er fram kemur á Facebook-síðu verslunarkeðjunnar.