Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-3.4 C
Reykjavik

Siðfræðingur um Hemma Gunn í Skaupinu: „Þarna vakna ótal spurningar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Siðfræðingur segir að verkefnið framundan varðandi gervigreindina, sé að samfélagið komi sér saman um siðferðileg viðmið um hvernig við ætlum að lifa með þessari nýju tækni. Segir innkoma Hemma Gunn í Skaupinu hafa í raun verið virðingarvott.

Henry Alexander Henrysson, siðfræðingur og doktor í heimsspeki, sagðist hafa búist við því strax að atriðið í Áramótaskaupinu þar sem Hermann Gunnarsson birtist með hjálp gervigreindarinnar, að atriðið yrði umdeilt. Mannlíf ræddi við Henry og spurði hann nokkurra spurninga um atriðið og gervigreindartæknina.

Henry Alexander Henrysson
Ljósmynd: henryalexander.is

Mannlíf spurði fyrst hvað Henry þætti um að það að Hermann Gunnarsson hafi verið notaður í þessu samhengi, verandi látinn og því ófær um að gefa leyfi og að ekki hafi allir fjölskyldumeðlimir hans hafi vitað af þessu fyrirfram.

Henry: „Maður bjóst nú strax við að þetta yrði býsna umdeilt atriði. Eins og kom á daginn er flóknara heldur en að segja það að fá leyfi frá fjölskyldunni þar sem ekki er auðvelt að skilgreina nákvæmlega hverja ber að biðja um leyfi. Líklega er það einfaldlega óraunhæft og eitthvað sem við verðum að hugsa um enda verður það bara auðveldara og auðveldara að láta tæknina aðstoða okkur með svona atriði þar sem látnir einstaklingar koma við sögu.“

Þá spurði Mannlíf hvort það sé munur á að nota þessa tækni til að herma eftir látnum manni og svo lifandi, hvort sem það sé gert í þökk eða óþökk þess lifandi og þá í hverju sá munur felist.
Henry: „Vandamálið felst í því að það er algjör grundvallarmunur á því að nota tæknina þegar um látinn einstakling er að ræða eða lifandi. Lifandi einstaklingur hefur allt önnur tækifæri til að svara fyrir sig eða standa á rétti sínum. Og það er líka grundvallarmunur á því að nýta þessa tækni eða einfaldlega fá leikara til að leika persónuna, eins og hefur verið gert í Skaupinu frá ómuna tíð.“

Að lokum spurði Mannlíf Henry hvort samhengið skipti máli, að þarna hafi verið um skemmtiþátt að ræða og hvort allt sé leyfilegt í gríni.

Henry: „Auðvitað skiptir samhengið máli þegar maður veltir því fyrir sér hvort eitthvað sé siðferðilega ámælisvert. Það hefði til dæmis verið stórkostlega ámælisvert, og líklega lögbrot, ef látinn einstaklingur væri settur inn í einhvers konar auglýsingu. Hér var um skemmtiþátt að ræða og atriðið með Hemma Gunn í raun og veru smekklega unnið og í hans anda, ef svo má segja. Ég hugsa að fólk hefði tekið þessu verr ef atriðið hefði verið mjólkað og haft of langt.

Að vissu leyti er allt leyfilegt í gríni og við verðum að hafa aðra mælikvarða reiðubúna þegar við veltum fyrir okkur hvort eitthvað sé siðferðilega ámælisvert. Hugleikur Dagsson má til dæmis spila á alls konar smekkleysi opinberlega – og gerir það frábærlega – sem ég gæti sjálfur ekki gert þegar ég tjái mig. Við skulum svo ekki gleyma því að þetta var ekki brandari í Skaupinu á kostnað Hemma Gunn á nokkurn hátt heldur fremur einhvers konar virðingarvottur. Stærri siðferðilegar spurningar munu vakna ef atriði verður búið til þar sem í anda Skaupsins er gert grín að látinni persónu með því að láta hana – í vissum skilningi – leika sjálfa sig.“

Henry bætti svo við sínum pælingum siðferðið á bakvið málið og segir að nú þurfi samfélagið að koma sér saman um viðmið hvað siðferðið snertir, varðandi tæknina sem er komin til að vera, svo allt „fari bara ekki í vitleysu.“

- Auglýsing -

„Stóra spurningin núna er hins vegar ekki hvað mér finnst. Siðferði er ekki eitthvað sem einstaklingar ákveða fyrir aðra. Verkefnið framundan er að samfélagið komi sér saman um siðferðileg viðmið um hvernig við ætlum að lifa með þessari nýju tækni sem, eins og við höfum séð, getur fært okkur látna einstaklinga inn í alls konar miðla og umhverfi. Tæknilega væri hægt að láta frábæra listamenn, sem mikið myndefni er til af, í raun leika að eilífu. Þarna vakna ótal spurningar um réttindi látinni einstaklinga og skyldur okkar við þá.

Ennþá er gerð svona myndefnis ekki fyrir nema örfáa aðila og á meðan höfum við skjól til að taka þessa umræðu. Fljótlega verður þetta hins vegar svo aðgengilegt að það verður ómögulegt að fylgjast með eða hafa yfirsýn yfir allt það efni sem skapað er. Og þá þarf samfélagið að vera tilbúið með bæði siðferðilegan ramma, og löggjöf byggða á þessum ramma, til þess að þetta fari bara ekki í vitleysu, svo maður tali bara hreint út. Ein afleiðing af innleiðingu þessarar tækni er mögulega sú að leikarar hætti að koma við sögu í Skaupinu í atriðum sem byggja á opinberum persónum. Við látum þær bara sjálfar segja og syngja það sem höfundum finnst skondið. Kröfur og verkföll handritshöfunda og leikara í Bandaríkjunum á síðasta ári voru ekki bara út í bláinn heldur svör við nýjum veruleika.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -