Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum, vill kenna skorti á kristindómsfræðslu og vöntun á biblíusögulestri um kvíða ungs fólks í dag. Þetta hafði vígslubiskupinn á orði í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.
„Ef við horfum á síðustu tuttugu árin hefur náttúrulega heil kynslóð vaxið úr grasi sem hefur ekki lært til dæmis neinar biblíusögur eða fengið neina kristindómsfræðslu og þá kannski veit ungt fólk ekki að kirkjan er að bjóða upp á þetta og fylla upp í þessa andlegu þörf sem þau eru að leita eftir,“ sagði vígslubiskup meðal annars í þættinum.
Í nýjum þjóðarpúlsi Gallup kom fram að einungis þriðjungur Íslendinga ber mikið traust til Þjóðkirkjunnar. 36 prósent bera lítið traust til kirkjunnar, eða rúmlega þriðjungur. Sérstaka athygli vekur að aðeins fimmtán prósent svarenda sögðust ánægðir með störf Agnesar M. Sigurðardóttur biskups, á meðan 27 prósent voru óánægð með störf hennar í æðsta embætti kirkjunnar.
Solveig Lára var ekki í vafa um að þetta mætti skýra með vanþekkingu fólks á starfi Þjóðkirkjunnar. Auk þess að vera vígslubiskup á Hólum er Solveig Lára staðgengill Agnesar biskups.
Í samhengi við niðurstöður Gallup sagði Solveig Lára að raunin væri sú að traust almennings á opinberum stofnunum hefði minnkað mjög allt frá efnahagshruninu. Hún telur ástæðu til að efnt verði til nýrrar könnunar þar sem traust fólks til stofnana almennt verði kannað.
Sagðist hún fullviss um að það væri ekki fólkið sem raunverulega hafi verið í tengslum við Þjóðkirkjuna og þurft að leita til hennar sem lýsti yfir litlu trausti til stofnunarinnar.
Minnir þessi orðræða Solveigar Láru um margt á orð Agnesar biskups frá árinu 2019, þegar hún sagði að minnkandi traust til Þjóðkirkjunnar mætti rekja til siðrofs í samfélaginu.