Sigga Dögg kynfræðingur segist mjög hugsi yfir stöðu leigjenda á húsnæðismarkaðnum á Íslandi og leitar svara hjá Pírötum.
Sigga Dögg skrifaði færslu á Facebook þar sem hún fer yfir það hversu erfitt það sé að vera á leigumarkaði á Íslandi í dag en hún segist kjósa að leigja. „Eina sem ég vil er bara góður langtímaleigusamningur og gott samband við leigusala.“ Segist hún hafa allskonar reynslu af leigumarkaðnum og oftast sé það jákvæð reynsla. „Nema hvað. Mér blöskrar svo ákvæðin sem sett eru á leigjendur með notkun á rýminu þeirra,“ skrifar Sigga Dögg og útskýrir að hún búi í stóru húsnæði en að hún megi ekki leigja út herbergi sem stendur autt, vegna ákvæðis um það í leigusamningnum. Bætir hún við: „Þannig að í húsnæðisskorti sem nú, sem áður, einkennir íslenskan markað þá má ekki fullnýta húsnæði sem stendur til boða. Af hverju ekki?“
Því næst segist Sigga Dögg hafa kíkt í Alþingisbækur frá árinu 1939 „til að læra af sögunni“, en þar mátti finna þras um húsnæðisskort. Þar lagði einhver til að eigendur stórra húsnæða mætti framleigja herbergi, annars greiða stóreignarskatt. „Nú er ég ekki að leggja til aukinn skatt (og þó…!) en frekar að við skoðum aðeins stöðuna á leigumarkaði og hættum að líta á það fólk sem drasl sem þráir ekki að fá húsnæðislán hjá bankanum,“ skrifaði Sigga Dögg og bætti við: „Svo hef ég allskonar tilgátur um fátæktarskömm íslendinga og sögubækurnar renna heldur betur sterkum stoðum undir þá tilgátu og setur flottræfilshátt í gott samhengi.“
Að lokum hlekkjar hún tvo Pírata í færsluna og spyr þá hvort hvort þau geti „tekið snúning. Ég er nefnilega pínu brjáluð.“
Björn Leví Gunnarsson svaraði kallinu: „Vandamálið við þetta allt er hvernig séreignastefnan og lífeyriskerfið fléttast saman. Núverandi lífeyriskerfi gerir ráð fyrir því að fólk búi í skuldlausu eigin húsnæði því lífeyrir á að duga ágætlega sem framfærsla án húsnæðiskostnaðar. Þannig að hversu mikið sem fólk vill hafa virkan leigumarkað, þá er aldrei gert ráð fyrir því sem framtíðarúrræði fyrir neinn. Ef það á að breytast þá þarf eitthvað að breytast samhliða í lífeyriskerfinu.“
Sigga Dögg svaraði: „Ah þannig það verður landflótti um sextugt. Got it. En annars er leigumarkaðurinn marglaga og svarið og spurningin dýpri en bara lífeyrissjóðamál – ekki satt? Ekki þarf fyrir utan að èg verð líklegast komin með húsbílahverfi þegar èg kemst á hin langþràðaeftirlaunaspena.“
Og Björn Leví svaraði aftur: „Það er einmitt það sem er að gerast. Það er þessi rörsýn sem verður að laga einhvern vegin, en það þýðir að lífeyriskerfið verður að taka tillit til þess einhvern vegin. Kannski „húsnæðislífeyrir“ sem væri einhvers konar hliðstæða þess að safna upp í eigið húsnæði.“
Sjá má færsluna hér fyrir neðan.