Sigríður Dögg Arnardóttir, eða Sigga Dögg eins og hún er alltaf kölluð, er í helgarviðtali Mannlífs. Hún hefur verið í þungamiðjunni á heitri og oft óvæginni samfélagsumræðu undanfarið. Sú umræða fór af stað eftir að Sigga Dögg hafði sótt námskeið um fyrirbæri sem kallast „breath play“ og deilt upplýsingum af námskeiðinu sem henni þótti bæði áhugaverðar og mikilvægar, á Instagram-síðu sinni. Hún sagði unglinga oft spyrja um kyrkingar í kynfræðslu; eitt af fjölmörgum atriðum sem spurt er um á námskeiðum hennar og hún stígur inn í með krökkunum á grundvelli samþykkis og fræðslu.
Það fárviðri sem fór í hönd í kjölfar þessa náði ákveðnum hápunkti í Kastljósþætti þar sem Sigga Dögg mætti Hönnu Björgu Vilhjálmsóttur, sem sakaði hana um að kenna börnum kyrkingar og normalísera ofbeldishegðun.
Kýlin eru bara sprengd
Hvað finnst Siggu Dögg um það að umræðan virðist alltaf springa svona í loft upp? Að það verði gjarnan til þessar fylkingar og pólarísering?
„Ég held að þetta sé bara fasinn sem við erum í sem samfélag, út af metoo og öllu þessu. Kýlin eru þarna og þau eru bara sprengd. Þannig fjarlægjum við bólur. Þetta hlýtur að vera okkar lærdómsfasi núna; að til að taka á stóru málunum, eða litlu öngum stóru málanna, þá þurfum við svolítið að fara og springa vel og duglega, leyfa öllu að flæða út og sjá svo hver staðan sé.
Ég var einu sinni með innvortis blæðingu og læknirinn sagði þetta: „Við vitum ekkert hvað við erum að díla við, fyrr en við förum inn í þig. Þá kemur margt í ljós.“
Þetta er pínu það. Við erum í svo miklu uppgjöri og þetta er alltaf þannig að unga og eldri kynslóðin tekst á. Ég er mjög tæp á að teljast sem unga kynslóðin. Ég er að verða fertug sko, ég er eitís-krakki. Það er alveg svona stretching it að hafa mig sem ungu kynslóðina, því ég myndi segja að það væru krakkar sem eru núna í háskólanum. Það er í rauninni unga kynslóðin, sem er þessi millenials og er meðvituð um jörðina. Ég ólst ekkert upp við neitt rosalega umhverfismeðvitund.
Ef við horfum á kynslóðina fyrir ofan mig, þá er það kynslóð sem elst upp við ákveðna velmegun. Hún elst upp við kaupmátt, að fara til útlanda. Kannski svona fyrsta kynslóðin sem er ekki amma og afi sem passa, heldur amma og afi sem djamma og eru í golfi. Það er allt í einu þannig að sextíu er nýja fimmtíu. Það er svo margt breytt á einni kynslóð. Þannig að eins og ég upplifi það, þá er kynslóð foreldra minna mjög ólík kynslóð foreldra sinna og svo finn ég að mín kynslóð og hvernig við til dæmis erum í uppeldi, er allt öðruvísi en kynslóðin fyrir ofan mig að miklu leyti, sem ól upp mína kynslóð. Þannig að þetta eru rosa átök á mjög skömmum tíma; í hugmyndafræði, þankagangi og nálgun. Alveg eins og mín kynslóð pirrar sig á tvítugum krökkum: „Guð, þau eru svo mikil snjókorn“ og „þau eru svo kvíðin þessi elsku blóm.“ Maður heyrir þetta – það eru alltaf kynslóðaátök. Það hefur alltaf verið og mun alltaf verða. Það kemur mér ekki á óvart að það birtist líka hér. Eðlilega birtist það hér.
„Þau eru meira á bremsunni en fyrri kynslóðir“
Það er til tölfræði um það að mín kynslóð og kannski fólk sem er fimm, sex árum eldri en ég, er með frekar háan meðalfjölda bólfélaga. Svo var aldur við fyrstu samfarir skoðaður.
Þegar þetta var síðan skoðað aftur hafði aldur við fyrstu samfarir farið upp á við. Þannig að unglingar í dag eru eldri þegar þau stunda fyrst samfarir en þau voru fyrir 20 til 30 árum síðan. Það er bara þróunin í vestrænum heimi; aldur við fyrstu samfarir fer upp á við, sem er bara jákvætt.
Þegar ég er að kenna, eins og uppi í HR, eða í framhaldsskólum, þá finnur maður að það er allt önnur stemning í tengslum við kynlíf. Mér finnst eins og fólk sem vinnur ekki við þetta tali um að unga kynslóðin sé svo klámvædd, sé bara í einhverju eins og kyrkingum og bara sofandi hjá úti um allt. Þegar raunin er sú, og við höfum bandaríska og evrópska tölfræði um það, að ungt fólk í dag á færri bólfélaga heldur en eldri kynslóðin, er með meiri kvíða fyrir því að sofa hjá og stundar minna kynlíf en eldri kynslóðir, meðal annars út af ótta við ofbeldi. Ótta við það að verða fyrir ofbeldi. Þetta er svolítið áhugavert. Við ætlum þeim að vera svo klámvædd og sjúk en þau eru meira á bremsunni en fyrri kynslóðir.“
Helgarviðtalið við Siggu Dögg má lesa í heild sinni hér.