Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sér í dag ekkert að því samtali sem átti sér stað á barnum Klaustur í nóvember 2018 þar sem hann ásamt öðrum alþingismönnum voru hljóðritaðir við að tala ósmekklegan máta um konur og fatlað fólk. Hann segir í hlaðvarpsþættinum Ein Pæling að sér þyki samtalið sniðugt eftir hafa lesið handrit sem skrifað var eftir að upptökurnar birtust. Þá telur hann að fjölmiðlar hafi tekið samtalið úr samhengi.
„Ég held að það hafi verið skrifaðir fimm þúsund fréttir um það. Einhvern tímann taldi ég þetta saman, það var einhvers konar hátíð í flokknum, einhvers konar árshátíð akkúrat þegar þetta var í hámæli. Þá var búið að birta á netinu 4500 fréttir. Ég lét taka saman allar fyrirsagnirnar um málið, prenta út fyrirsagnirnar bara á A4 blöðum og límdi þau saman. Svo var renningurinn dreginn út, náði allan salinn og hálfa leið til baka. Ég benti fólkinu á að það myndu líklega ekki allir flokkar, líklega fæstir, lifa af svona tilraun til þess að gera útaf við þá og hrósaði fólkinu fyrir það. Því að fréttirnar af þessu voru náttúrulega yfirgengilegar. Þarna var snúið út úr öllu og það sem var sagt í kaldhæðni til að gera grín að afstöðu einhvers annars var orðið afstöðu þess sem sagði. Allt tekið úr samhengi, þetta var fáránlegt.
Sem betur fer er til handritið, handritið að öllu samtalinu, sem ég las. Ætlaði nú ekki að leggja það á mig á sínum tíma. Svo byrjaði ég að lesa þetta. „Þetta er ekki svo galið samtal, þeir eru nú bara sniðugir þarna.“ Þá kom samhengið miklu betur fram, eins og ég var nú brjálaður þegar þetta var gert. Alþingi lét skrifa þetta allt upp, upprunalegu upptökuna, nema það var búið að eiga við hana á sjö stöðum þá þegar, sáu tæknimennirnir þarna. En þeir skrifuðu þetta allt upp. Gefur allt aðra mynd, allt allt allt aðra mynd en sem var dregin upp í fjölmiðlum.“
Húrrandi klikkuð kunta
Nokkur ummæli sem voru látin falla á barnum er hægt að lesa hér fyrir neðan:
Um Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra Vestmannaeyjabæjar, sagði Bergþór Ólason:
„Nú ætla ég að segja eitt sem er náttúrulega mjög dónalegt, en það fellur hratt á hana. Hún er miklu minna hot í ár en hún var bara fyrir tveimur árum síðan. Það er ótrúlegur munur.“
Um Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sagði Bergþór Ólason:
„Það hefur engin gugga teymt mig meira á asnaeyrunum en hún, sem ég hef ekki fengið að ríða.“ „Þarna loksins kom skrokkur sem typpið á mér dugði í.“
Um Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sagði Gunnar Bragi Sveinsson:
„Henni er bara fokking sama um hvað við erum að gera. Hjólum í helvítis tíkina. Það er bara málið. Af hverju erum við að hlífa henni? Ég er að verða brjálaður! Af hverju erum við að hlífa henni?“
Um Ingu Sæland, alþingismann og formann Flokks fólksins, sagði Bergþór Ólason eftirfarandi:
„[…] þið eruð með þessa húrrandi klikkuðu kuntu sem formann Flokks fólksins, sem þið ráðið ekkert við. Þið ráðið ekkert við hana. Segið mér ef ég hef rangt fyrir mér. Ég mundi ekki ráða við hana, Sigmundur mundi ekki. Hún er fokking tryllt. […]“