„Nú vilja allir fulltrúar í borgarráði fjarlægja styttuna af sr. Friðrik Friðrikssyni, eftir Sigurjón Ólafsson, sem staðið hefur við Lækjargötu í Reykjavík í 70 ár. Ástæðan er sú að gefið hefur verið í skyn að sr. Friðrik hafi á einhvern hátt haft óeðlilegan áhuga á drengjum,“ ritar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins og fyrrum forsætisráðherra gagnrýnir ákvörðun borgarráðs að fjarlægja eigi styttu séra Friðriks í aðsendri grein sem birtist á Viljanum.
Sigmundur Davíð bendir á að við upphaf umræðunnar hafi hann ekki beinlínis verið sakaður um neitt en sitthvað verið gefið í skyn.
„Þá var farið að leita að hlutum eða atburðum og tengja þá saman. Hlutir sem höfðu verið fyrir allra augum fengu nýja merkingu.“
Máli sínu til stuðnings nefnir hann þrjú dæmi:
„Bent var á að stofnandi KFUM hefði knúsað unga drengi og klappað þeim. Einn þeirra sem höfðu upplifað það sagði að sér hefði þótt það afar óþægilegt. Annar sagði að sér hefði þótt gott að vera sýnd slík hlýja. Ástæðulaust er að rengja upplifun þeirra.
Dregið var fram að í fórum Sr. Friðriks hefðu verið myndaalbúm (sem nú eru á safni) þar sem væri m.a. að finna myndir af nöktum drengjum í sumarbúðum KFUM í Danmörku. Sömu myndir var að finna í öðrum myndaalbúmum.
Loks var mikið mál gert úr því að sr. Friðrik hefði átt styttu af nöktum dreng sem Tove Ólafsson (kona Sigurjóns) tálgaði og gaf honum. Eigandinn grínaðist með það í viðtali að strákurinn væri stundum óþægur. “
Sigmundur Davíð vill meina að þessi atriði á langri ævi séra Friðriks hafi þannig verið dregin saman og gefin ný merking.
„Eins og þekkt er vilja foreldrar, ömmur, afar og ekki hvað síst frænkur, knúsa börn og klappa til að sýna þeim væntumþykju. Þótt það sé jafnan eins fjarri því að vera kynferðislegt og hugsast getur finnst krökkum þetta ekki alltaf skemmtilegt. Rannsóknir sýna þó að börn hafi gott af því að vera sýnd nánd og væntumþykja,“ bendir Sigmundur Davíð á og vill þá að fólk hugleiði eftirfarandi:
„Er hugsanlegt að atlot hins barnlausa sr. Friðriks hafi verið af sama toga?“
Sjálfur segist Sigmundur Davíð ekki vita svarið en að honum hefði örugglega þótt klapp frá óskyldum manni óþægilegt en útlokar ekki að einhverjum gæti þótt þau góð: „ … En það er ekki víst að það sama hafi átt við alla, t.d. stráka sem e.t.v. skorti hlýju heima hjá sér.“
Sigmundur vill ekki meina að hann sé að afsaka sekan mann, heldur að benda á að hvorki hann sé aðrir hafi hugmynd um sekt hans eða kenndir. Eina sem vitað sé er að hann hafi ekki verið sakaður um barnaníð.
„Engu að síður stendur til að fella styttuna og dæma þannig löngu látinn mann sekan.“
Að endingu skrifar Sigmundur Davíð um málið:
„Það er verið að fórna gildum sem eru til þess fallin að vernda núlifandi fólk og kynslóðir framtíðarinnar.“
Hér má lesa færslu Sigmundar Davíðs í heild