Fimmtudagur 26. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Sigríður Dögg svarar gagnrýninni: „Starfslok Hjálmars vel ígrunduð“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigríður Dögg Auðunsdóttir segir að styrktarsjóður Blaðamannafélagsins hafa verið á leið í þrot, þess vegna þurfi að skerða réttindi veikra blaðamanna.

Undanfarið hefur stjórn Blaðamannafélags Íslands með formaður þess, Sigríður Dögg Auðunsdóttir, sætt gagnrýni frá eldri blaðamönnum félagsins en Hjálmar Jónsson, fyrrum framkvæmdarstjóri félagsins skrifaði opið bréf til félaga BÍ og birti í nokkrum miðlum, þar á meðal hjá Mannlífi. Þar fer hann mikinn og gagnrýnir stjórn félagsins og formann þess harðlega. Þá gagnrýndi elsti núlifandi blaðamaðurinn, Fríða Björnsdóttir bæði Sigríði Dögg og stjórnina í viðtali við Mannlíf. Gagnrýndu þau bæði til að mynda lagabreytingar sem kynntar voru á aðalfundi BÍ í apríl á þessu ári og verður kosið um á framhaldsaðalfundi næstkomandi miðvikudag. Þar kveður á um að þeir félagsmenn sem hætt hafa störfum sem blaðamenn vegna aldurs eða örorku, missi atkvæðisrétt sinn á fundum félagsins.
Þá hafa þau einnig gagnrýnt að kaffihittingur í húsakynnum félagsins hafi verið úthýst en þar hafa eldri félagsmenn í bland við yngri hist um áraraðir á föstudögum og fengið sér kaffi og kruðerí og borið saman bækur sínar. Hjálmar hefur jafnvel gengið svo langt að tala um að ofangreind mál séu hefndaraðgerðir vegna gagnrýni hans á störfum Sigríðar Daggar.

Einnig snéri gagnrýni Hjálmars að skerðingu sjúkradagpeninga en í bréfi sínu sagði hann meðal annars: „Ekkert í fjárhagsstöðu Blaðamannafélagsins réttlætir að ráðast með þessum hætti á kjör þeirra sem þurfa á sjúkradagpeningum að halda vegna langvarandi veikinda. Við áttum, þegar ég lét af störfum, yfir 100 milljónir króna í varasjóði og félagssjóður skilaði alltaf góðum afgangi meðan ég hélt um stjórnartaumana.“

Ekki hefndaraðgerðir

Varðandi ásökun Hjálmar sum hefndaraðgerðir svarar Sigríður Dögg:

„Einróma ákvörðun stjórnar BÍ um starfslok Hjálmars Jónssonar átti sér langan aðdraganda og var vel ígrunduð. Í aðdragandanum hafði verið rætt við Hjálmar um að til stæði að ráða nýjan framkvæmdastjóra, m.a. þar sem hann var sjálfur að nálgast starfslok vegna aldurs. Var honum boðið að halda áfram störfum fyrir félagið, á óbreyttum kjörum en í öðru hlutverki. Hann vildi ekki verða við þeim óskum stjórnar og var það meðal annars vegna þess að hann átti ekki áfram að fara með fjárráð fyrir hönd félagsins. Það virtist hann ekki geta sætt sig við. Varð það þá óhjákvæmileg og einróma niðurstaða stjórnar að Hjálmar þyrfti að ljúka störfum fyrir félagið. Sú ákvörðun kom einnig til vegna tregðu hans við að framfylgja stefnubreytingum og ákvörðunum stjórnar, vanvirðandi framgöngu hans gagnvart stjórnarmönnum og starfsfólki, skorts á upplýsingum um fjármál og rekstur félagsins og höfnun á að formaður félagsins fengi skoðunaraðgang að reikningum félagsins til að rækja mætti eftirlitshlutverk stjórnar.“ 

- Auglýsing -

Sigríður Dögg heldur áfram: „Ýmsar lagabreytingatillögur liggja fyrir framhaldsaðalfundi BÍ og voru þær kynntar á aðalfundi í apríl síðastliðnum. Tillögurnar eru lagðar fram samkvæmt einróma ákvörðun stjórnar félagsins. Ein af þeim snýr að félagsréttindum biðfélaga og lífeyrisþega, þ.e. kjörgengi og atkvæðisrétt. Lengi hefur ríkt óvissa um atkvæðisrétt í félaginu og tímabært að skilgreina betur í lögum félagsins. Meginþorri stéttarfélaga hefur það að reglu að takmarka eða afnema jafnvel félagsréttindi félaga láti þeir af störfum vegna aldurs. Vegna öldrunar þjóðarinnar eykst hlutfall lífeyrisþega af félagsmönnum stöðugt og óeðlilegt að mati stjórnar að hópur sem ekki greiðir til félagsins hafi atkvæðisrétt um málefni félagsins, hver er þar í forsvari og hvernig kjaramálum er háttað, þó sami hópur njóti annarra félagsréttinda. Blaðamannafélag Íslands er bæði stéttarfélag og fagfélag og mat stjórnar að það skuli vera starfandi blaðamenn sem hafi atkvæðisrétt um hvernig félagið beitir sér sem slíkt.“

Enn hægt að kíkja í kaffi

Hvers vegna var kaffistofunni lokað? 

- Auglýsing -

Sigríður Dögg: „Þetta er ekki rétt. Lífeyrisþegar í Blaðamannafélaginu hafa mætt í föstudagskaffi nær því alla föstudaga frá áramótum þótt stór hluti þeirra hafi kosið að hittast annars staðar. Öll eru að sjálfsögðu velkomin áfram í föstudagskaffi í Síðumúlann eins og starfsfólk skrifstofu hefur ítrekað. Þá eiga lífeyrisþegar eins og aðrir félagsmenn kost á að nýta húsnæði félagsins til funda- og veisluhalda.“

Af hverju ákvað stjórnin að breyta lögum um eldri félagsmenn og atkvæðarétt þeirra?  Fyrirfinnst dæmi um slíkt í öðrum stéttarfélögum?

„Lög og reglur meginþorra stéttarfélaga gera ráð fyrir því að félagsréttindi fólks skerðist þegar það hættir störfum vegna aldurs. Í mörgum félögum er það jafnvel svo að fólk missir öll félagsréttindi sjálfkrafa við að hætta að greiða í sjóði. skv. athugun sem gerð var á u.þ.b. fimmtíu félögum halda lífeyrisþegar einvörðungu atkvæðisrétti í örfáum þeirra eftir starfslok. Í þeim félögum sem að lífeyrisþegar halda atkvæðisrétti er iðulega sérstaklega tekið fram í lögum að atkvæðisrétturinn nái þó ekki til kjaramála. Þá er hlutfall lífeyrisþega talsvert lægra hjá þeim félögum sem heimila áframhaldandi atkvæðisrétt eða 1 – 2% eftir eftirgrennslan. Til samanburðar er hlutfallið hjá BÍ um 15%. Ekkert stéttarfélag sem BÍ gerði athugun á veitir lífeyrisþegum áframhaldandi sjóðaaðild og styrki úr sjúkrasjóðum eftir að hætt er að greiða iðgjöld í sjóðina.“ 

Bætir hún við:

„Samkvæmt lagabreytingartillögu stjórnar BÍ halda þeir félagar sem hafa hætt störfum sökum aldurs tillögurétti sínum og málfrelsi á aðalfundum. Auk þess er fyrirhugað að stofna sérstaka lífeyrisdeild eins og þekkist hjá öðrum stéttarfélögum til að taka málefni eldri félagsmanna fastari tökum.“

Styrktarsjóðurinn stefndi í þrot

Af hverju stendur til að skerða réttindi veikra blaðamanna? 

Sigríður Dögg: „Styrktarsjóður BÍ hefur verið rekinn með alls 60 milljón króna halla á síðustu 10 árum með þeim afleiðingum að gengið hafði svo verulega á eigið fé sjóðsins að hann hefði tæmst á árinu 2024 ef ekki hefði verið gripið til ráðstafana. Til að setja þessa upphæð í samhengi eru iðgjöld í sjóðinn um 40 milljónir árlega. Önnur stéttarfélög miða t.a.m. við að styrktar- og sjúkrasjóðir eigi alltaf minnst þrefalt iðgjald ársins í sjóðnum til að mæta óvæntum sveiflum.“

Við þetta bætir Sigríður Dögg:

„Þær breytingar sem gerðar hafa verið á úthlutunarreglum og tóku gildi í júní sl. miða að því að koma rekstri sjóðsins í sjálfbært horf svo hann geti áfram gagnast félagsmönnum BÍ, einkum ef þeir lenda í langvarandi veikindum. Án breytinganna hefði sjóðurinn farið í þrot. Við útfærslu breyttra úthlutunarregla var leitað til tryggingastærðfræðings sem hefur áratuga reynslu af því að meta gjaldþol sambærilegra sjóða og farið að ráðleggingum hans.

Stjórn styrktarsjóðs og stjórn BÍ kynnti sér jafnframt ítarlega hvaða reglur gilda um greiðslur úr sjóðum annarra stéttarfélaga. Af þeim tugum stéttarfélaga sem skoðuð voru var einungis eitt sem greiðir styrki til lífeyrisþega til lengri tíma en fárra mánaða eða missera – og þá í 5 ár eftir starfslok.“

Að lokum bendir Sigríður Dögg á að breytingarnar séu ekki afturvirkar.

„Til að rétta við hallarekstur sem hefur verið á sjóðnum nær sleitulaust frá árinu 2014 þurfti því miður að skerða lengd tímabils sjúkradagpeninga. Hins vegar var það ekki gert afturvirkt eins og haldið hefur verið fram. Stjórn BÍ styrkti sjóðinn um 25 milljónir úr varasjóði félagsins á þessu ári til þess að koma í veg fyrir að hann færi í þrot, til viðbótar við þær 10 milljónir sem hún lagði sjóðnum til á síðasta ári. Gætt var að því að félagsmenn héldu áþekkum réttindum og þekkist hjá öðrum stéttarfélögum en veikindaréttur blaðamanna er nokkuð rýmri en almennt þekkist á almennum vinnumarkaði. Það ætti að vera öllum ljóst að ekki gengur til lengdar að leggja sjóðnum til tugi milljóna árlega án þess að stefna rekstri félagsins í heild sinni í hættu. Breytingarnar ná einungis til þeirra umsókna sem bárust eftir að reglunum var breytt. Þær eru ekki afturvirkar.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -