Laugardagur 28. desember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Sigríður notar hugvíkkandi efni til að vinna á áföllum: „Er búin að fara í gegnum allt snjóflóðið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigríður Rannveig Jónsdóttir er nýjasti gestur hlaðvarpsþáttarins Mannlífið. Hún hefur gengið í gegnum ótrúlegar raunir á lífsleiðinni en í janúar árið 1995 missti hún unga dóttur sína í snóflóðinu í Súðavík sem og tengdaforeldra. Hér er brot úr seinni hluta viðtalsins:

Sigríður Rannveig hefur notast við allskyns aðferðir við að vinna úr áföllum sem hún hefur lent í á lífsleiðinni en hún hefur verið greind með áfallastreituröskun. Hefur hún meðal annars notað málaralistina til að hjálpa sér í sorginni, höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun og hugleiðslu en hún hefur einnig notast við svokölluð ferðalög með hjálp hugvíkkandi efna.

„Já, það er sem sagt þessi hugvíkkandi efni,“ segir Sigríður Rannveig brosandi við Reyni Trausta, og heldur áfram: „Sem hefur verið svolítið í umræðunni og ég var búin að lesa mér svolítið til um þetta og hafði mikinn áhuga á þessu. Fyrir ári síðan, í október í fyrra, þá komst ég í kynni við hóp af fólki, sem hefur verið að hjálpa fólki að fara í svona ferðalög eins og við köllum það. Þá ferðu í innra ferðalag, með innra sjálfinu. Og þar hefurðu aðgang að áföllunum þínum sem þú hefur kannski ekki aðgang að í daglega lífinu. Þú hefur ekki aðgang að þessu með því að fara til sálfræðings vegna þess að þú ert alltaf að vinna með toppinn á ísjakanum. En þarna fór ég gjörsamlega inn í kerfið.“

Reynir spyr Sigríði Rannveigu hvað nákvæmlega það sé sem hún geri í þessu „ferðalagi“.

Sigríður Rannveig svarar: „Ég er með fagaðila í kringum mig, fólk sem er með mikla reynslu af að hjálpa. Og ég er látin liggja á dýnu og jarðtengingamottu, því þessi jarðtenging skiptir máli. Og ég ræð hvort ég sé með svona augnlepp eða ekki. Og síðan byrjar ferðalagið. Þegar þessi hugvíkkandi efni eru byrjuð að virka, þá fer það ekkert á milli mála. Og þú getur farið inn á mjög góðan stað og þú getur líka farið á mjög slæman stað en það sem hefur reynst mér best er að reyna að vera óttalaus, fara inn í styrknum og horfa á sársaukann, fara í sársaukann, fara í áfallið og fara í gegnum það. Um leið og maður er kominn í mótstöðu við það sem maður hefur lent í, þá verður það erfitt. Þá á ég við ef maður er að berjast gegn einhverju, óttinn er mótstaða við að fara inn í sársauka, inn í atburði.“

Reynir spyr hvort hún þurfi að fara oft í svona ferðalög.

- Auglýsing -

„Já, þetta eru alveg nokkur skipti,“ svarar Sigríður Rannveig.

Reynir: „Og ertu þá komin að einhverju lokatakmarki?“

Sigríður Rannveig: „Ég myndi segja að ég sé komin mjög vel á veg. Ég er búin að fara í gegnum allt snjóflóðið. Ég er búin að fara í gegnum áföll í lífi mínu. Ég hef náð að sjá hjónabandið mitt. Ég hef náð að sjá sjálfa mig í ferlinu.“

- Auglýsing -

Hægt er að hlusta á seinni hluta viðtalsins í heild sinni hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -