Undanfarnar vikur hafa átt sér miklar umræður í íslensku samfélagi um verkfall kennara en nokkrir skólar á mismunandi skólastigum eru í verkfalli í stað þess að allir kennarar séu í verkfalli á sama tíma eins og venjan er. Ekki eru allir sáttir með aðgerðir kennara og gengur illa hjá viðsemjendum að komast að sátt í deilunni.
Sigríður Eir Zophoníasardóttir kennari birt í gær áhugaverðan pistil um málið þar sem hún reynir að setja það í samhengi.
„Ég er stoltur kennari. Lengst af hef ég verið kennari í leikskóla en ég hef líka komið við á grunnskólastiginu, sinnt stunda kennslu í háskóla og vinn nú sem leiklistarkennari í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Ég er búin að fylgjast með umræðunni í þessari kjarabaráttu og langar að gera tilraun til að setja hlutina aðeins í samhengi.
Við erum öll sammála um það að verkföll kennara bitna á börnum en við erum líka öll sammála um að verkföll eru alltaf örþrifaráð og kannski gott að við rifjum upp hvers vegna er verið að grípa til þessara aðgerða núna. Það er vegna þess að það er ekki búið að efna gefna samninga en þær efndir stranda ekki á kennurum, það strandar á sveitafélögum og ríki. Við erum líka sammála um að svona ástand er streituvaldandi fyrir börn og foreldra en það væri ekkert betra að vera í streitu og multi-taski í dögunum með börnin heima og vinnuna á bakinu ef öll börn væru skólalaus. Því bið ég ykkur kæru foreldrar sem eruð að bugast yfir ástandinu að beina reiði ykkar þangað sem hún á heima. Ekki beina reiðinni að fólkinu sem sinnir börnunum ykkar alla daga af alúð og kærleika á allt of lágum launum við aðstæður og álag sem fæst ykkar myndu láta bjóða ykkur í ykkar störfum. Leggjumst ekki jafn lágt og fréttakonan gerði á dögunum í viðtali við formann Kennarasambandsins þegar hún svoleiðis missti kúlið og gerðist þar með holdgervingur þess sem rót vandans snýst einmitt um; virðingarleysi á virðingarleysi ofan gagnvart þessari stétt og þeirri vinnu sem við vinnum,“ skrifaði kennarinn.
Krefjandi vinnuaðstæður
Sigriður segir að verkföll bitni vissulega á börnum en það einfaldlega þurfi að hækka laun kennara. Það sé mikil starfsmannavelta og kennarar brenni út og krakkar þurfi stöðugleika. Hún segir að gefin loforð um laun hafi ekki verið efnd og það bitni á börnum. Ekki sé hægt að gera kennara ábyrga fyrir því.
„Að vera kennari snýst um að innræta samkennd
Að vera kennari snýst um að kenna samskipti
Að vera kennari snýst um að æfa tilfinningalæsi
Að vera kennari snýst um að byggja upp trú einstaklingsins á sjálfu sér
Að vera kennari snýst um að grípa manneskjur áður en þær leiðast út í sjálfsskaða
Að vera kennari snýst um að hlúa að sálum sem eru þungar eða týndar
Að vera kennari snýst um að hugga fólk
Að vera kennari snýst um að hjálpa foreldrum að vinna saman í uppeldi
Að vera kennari snýst um að koma auga á krumpið í hjörtunum og hjálpa til við að slétta úr því
Að vera kennari snýst um að hafa trú á hverjum einasta einstaklingi sem við sinnum og kveikja á ljósinu í hjartanu því þegar við höfum trú á manneskju þá getur hún risið upp úr hverju sem er og jafnvel sigrað heiminn.
Og þetta gerum við dag eftir dag á of lágum launum, oft á tíðum í mjög krefjandi vinnuaðstæðum, streitu, hávaða og undirmönnun en samt göngum við til vinnu alla daga vegna þess að við brennum fyrir einmitt þessum börnum sem nú þurfa því miður sum að sitja heima til þess að undirstrika mikilvægi okkar því þetta mikilvægi virðumst við stöðugt þurfa að minna á þvert á okkar löngun. Við erum flest í þessu giggi vegna brennandi ástríðu á starfinu okkar, vegna þeirrar ábyrgðar sem við finnum til gagnvart börnum og unglingum, vegna þess að okkur langar til að gera heiminn að betri stað. Svo ekki setja þá ábyrgð á okkur núna að við séum að bregðast börnum þegar við stöndum upp fyrir okkur og stéttinni okkar. Við erum að berjumst fyrir betri kjörum til að geta enst í þessu starfi, til þess að geta gert enn betur og til þess einmitt að bregðast engum börnum. Að hlúa að kennurum og búa þeim mannsæmandi vinnuaðstæður og launakjör er mesta forvarnarstarf sem samfélag getur nokkru sinni unnið,“ heldur Sigríður áfram.
Hún vill að fólk muni hvar ábyrgðin liggur. Hún vill að fólk beini orðum sínum að þeim sem hafa völd til að binda endi á ástandið því að þetta snúist einfaldlega um sanngirni.